07.04.1981
Neðri deild: 73. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3521 í B-deild Alþingistíðinda. (3549)

290. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég mun ekki flytja hér langt mál við þessa umr. Það hafa þegar komið fram flestöll sjónarmið í þessu máli sem eðlilegt er að komi fram við 1. umr. málsins, og ég geri ráð fyrir því, að hv. n. fái þetta mál til meðferðar og þar verði ítarlega farið yfir öll gögn og þá vinnu sem fram hefur farið um skattamálin.

Ljóst er að það eru deildar meiningar um hver skattbyrðin sé nú miðað við það sem hún var áður þegar sérstaklega er minnst á tekjuskattinn. Hins vegar eru, held ég, engar deilur um það, að heildarskattbyrði landsmanna, ef maður tekur tekjur ríkissjóðs og framreiknar þær frá frv. til frv. eins og slíkt birtist í fjárlögum, hefur aukist. Það er þess vegna aðeins leikur þegar talað er um að ákveðin skattalækkun hafi átt sér stað, því að auðvitað hefur verið miklu meira tekið í ríkissjóð heldur en síðan er slakað út í formi svokallaðrar lækkunar skatta til lág- og meðallaunafólks. Þetta stendur svart á hvítu og er ekki hægt að hrekja og skiptir kannske ekki öllu máli, því að auðvitað felst í þessu stefna núv. hæstv. fjmrh.: að láta þá, sem á annað borð greiða tekjuskatta að einhverju marki, greiða hærri skatta, en slaka heldur á fyrir hinum sem eru lægra launaðir. Mesta skattahækkunin kemur samt í formi annarra skatta, og það eru vissulega merkilegar yfirlýsingar sem koma frá samstarfsflokki Alþb. í ríkisstj., Framsfl., á miðstjórnarfundi nýlega, þegar talið er að nú beri að lækka skattana og m. a. eigi að sækja fjármuni með þeim hætti að fresta opinberum framkvæmdum. Það hefði vissulega við umr. um skattamál, þegar kemur fram í aprílmánuð, verið mikils virði fyrir opinberar stofnanir, sem hafa þegar á fjárlögum og á lánsfjáráætlun þar sem er verið að fela tap ríkissjóðs eins og gerist þegar lán stórhækka á milli ára og er ekki í fyrsta skipti gert núna, að haga málum þannig að stórauka lántökuna og láta ekki nema hluta af því koma fram í fjárlögunum. Fjárlög sýna ekkert nema greiðslugrunninn. Þau sýna ekkert nema það sem kassi í fyrirtæki sýnir á hverju ári, en segja afskaplega lítið til um lánahreyfingar nema aðeins þær sem sagt er frá í fjárlögunum. Síðan breytist þetta við afgreiðslu lánsfjárlaga eins og vitað er.

Þetta er nú smávegis útúrdúr, en hefur þó gífurlega þýðingu vegna þess að menn greiða orðið skatta við hvers konar atvik í þjóðfélaginu. (Fjmrh.: Þetta er skrýtin bókhaldsfræði.) Ja, hún getur verið skrýtin fyrir hæstv. fjmrh., ekki efast ég um það, því að hann hefur hér á Alþingi sýnt það í sínum bókhaldsfræðum, að ég er ekki hissa á því að hann gefi slíkar yfirlýsingar frá sér. En sjálfur getur hæstv. fjmrh. lesið sér til um það í þeim gögnum sem hann dreifir hér á hinu háa Alþingi hve mikil lánaaukningin er undir hans stjórn. En á þetta var ég að minnast — ekki til þess að gagnrýna þetta sérstaklega, heldur til að benda á að í þessum umr. kemur ekki eitt einasta orð frá hæstv. fjmrh. um þær tillögur Framsfl. sem hafa verið að birtast í blöðum, í útvarpi, á landsfundum félagasamtaka og nú síðast á miðstjórnarfundi um m. a. skattamál og ríkisfjármálin. Og manni verður auðvitað að spyrja: Skyldi nú Ólafur Ragnar Grímsson, formaður þingflokks Alþb., segja í útvarpið á næstu dögum að blaðrið í Steingrími Hermannssyni sé mesta efnahagsböl þjóðarinnar, eins og hann gerði s. l. sumar, eða skyldi vera einhver alvara á ferðum? Um þetta ræddi fjmrh. ekki nokkurn skapaðan hlut í ræðu sinni um skattamálin.

En ég kom hér upp af einu örlitlu tilefni og það er að ég hef ásamt þm. Halldóri Blöndal og Matthíasi A. Mathiesen flutt frv. til l. um breyt. á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem varðar námsmenn. Ég sé að það hefur ekki verið tekið tillit til þeirra hugmynda okkar sem koma fram í þessu frv. Má vera að það sé vegna þess að hæstv. ráðh. telji ekki ástæðu til þess að flytja sérstakar lagabreytingar um það þar sem málið er komið í nefnd og eðlilegt sé að hún afgreiði það frá sér, en hann sé samt stuðningsmaður frv. Ég heyrði ekkert frá honum um það. Kannski telur hann ekki tímabært að samþykkja slíkar breytingar á skattalögunum.

Mér er ljóst að þessar hugmyndir eru m. a. bundnar við það, að breytingar verði á lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna sem s. l. haust var gerð till. um til menntmrh. af nefnd sem starfaði á vegum menntmrh. Það er furðulegt að nú á vordögum skuli ekki hafa komið fram slíkt frv., en þetta skattalagafrv., sem við þremenningarnir fluttum, var tengt því starfi. Ég átti satt að segja von á að hæstv. ríkisstj. mundi afgreiða lánasjóðslögin og þá var nauðsynlegt að gera úrbætur í skattamálum námsmanna.

Af því að hæstv. fjmrh. var ekki við þegar þetta frv. var rætt hér í Nd. vil ég geta þess, að það fjallar annars vegar um að nýta námsfrádráttinn, eftir að námi lýkur ef hann nýtist ekki á námstímanum, en slíkt ákvæði var í lögum áður, og hins vegar um það, að hægt sé að jafna vöxtum og gjaldföllnum verðbótum af námslánum til sams konar gjalda af húsnæðislánum, þ. e. leggja að jöfnu fjárfestingu í menntun og fjárfestingu í húsnæði, en að láta sama þakið gilda fyrir hvort tveggja. Um þessa till. höfum við auðvitað ráðfært okkur við samtök námsmanna og þau hafa tekið mjög jákvætt á þessum málum og af fullum skilningi á því, að það er afstaða okkar jafnframt að endurgreiðslureglum Lánasjóðsins verði breytt. Á þetta vildi ég minnast af því að ég hélt satt að segja að ráðh. mundi taka til máls hér í lok 1. umr. og segja skoðun sína á fram komnum lagafrumvörpum er varða tekju- og eignarskattslögin. Og ef hæstv. ráðh. sér sér fært, þá held ég að það gæti orðið nefndinni til stuðnings í sínum störfum, hv. fjh.- og viðskn., að hann segði frá því, hver sé stefna ríkisstj. og hans í þessum málum.

Ég ætlaði ekki að hafa þessa ræðu langa, síður en svo. Það er orðið framorðið. En ég heyrði að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson minntist á lífeyrissjóðina og það fjármagn sem lífeyrissjóðirnir geta nú greitt af tekjum í lífeyri til sinna félagsmanna. Það er auðvitað eðlileg afleiðing af þeirri vaxtastefnu sem hér er og kemur til af því, að þeir, sem fá lánað úr þessum sjóðum, sem eru annars vegar eigendur fjármagnsins og þeir sem greiða í sjóðinn og hins vegar ýmsir aðrir lánasjóðir, verða að borga vexti umfram verðbætur. Þetta er út af fyrir sig skynsamlegt. En það vil ég minna hv. þm. á, að þetta er afleiðing af stefnu sem hann og hans flokkur börðust hatrammlega gegn á sínum tíma og kölluðu hávaxtastefnu.