08.04.1981
Efri deild: 74. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3526 í B-deild Alþingistíðinda. (3558)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Á þskj. 615 mæli ég fyrir brtt. við frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1981. Flm. auk mín eru hv. þm. Karl Steinar Guðnason, Geir Gunnarsson og Guðmundur Bjarnason. Till. þessi er flutt fyrir forgöngu allra þm. Reykjaneskjördæmis. Hér er um að ræða breytingu við 7. gr. í þá veru, að á eftir 3. lið komi nýr liður, svohljóðandi, með leyfi forseta:

4. Hitaveita Kjalarneshrepps, lán á árinu 1981 að fjárhæð allt að 4 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt.

Í öðru lagi: Í stað „34 650 þús. kr.“ í 4. lið, sem verði 5. liður, komi: 30 650 þús. kr.

Hér er því ekki um að ræða breytingu til hækkunar, heldur einungis verið að tryggja fjármagn vegna fyrirhugaðrar hitaveitu í Kjalarneshreppi. Umræður standa nú yfir um samkomulag milli hagsmunaaðila, sem eru hreppsnefnd Kjalarneshrepps, Skógrækt ríkisins og Laxeldisstöðin í Kollafirði. Þessar umræður fara fram að tilhlutan hæstv. landbrh. og hæstv. iðnrh. Þessi brtt. er því flutt til að tryggja fjármagn til framkvæmdanna í trausti þess að samkomulag náist í þessu máli.