08.04.1981
Efri deild: 74. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3527 í B-deild Alþingistíðinda. (3559)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Í tilefni þessarar brtt. frá hv. 4. landsk. þm. vil ég staðfesta það, að unnið er að athugun á því að leggja hitaveitu í Kjalarneshrepp og fá þar til þátttöku Laxeldisstöðina í Kollafirði og Tilraunastöð Skógræktar ríkisins að Mógilsá svo og Mosfellshrepp að litlum hluta, að ég best veit. Iðnrn. fékk verkfræðing til að vinna að því að skapa samstöðu í þessu máli og var það raunar í framhaldi af yfirlýsingu sem hæstv. landbrh. gaf við afgreiðslu fjárl. í des. s. l. Um þetta mál hefur verið samvinna milli iðnrn. og landbrn.

Athuganir á stofnun þessarar hitaveitu standa enn yfir, en að þeim málum er unnið af krafti og ég geri mér vonir um að samkomulag takist milli þessara aðila þannig að þessi hitaveita verði að veruleika. Gerist það, náist slíkt samkomulag, yrði væntanlega um að ræða kaup, a. m. k. tímabundið, á heitu vatni frá Hitaveitu Reykjavíkur, sem samkv. athugunum virðist vera mjög hagkvæmur kostur, enda fallist Hitaveita Reykjavíkur á slíka sölu sem ekki er mikil að magni til.

Ég kynnti þetta mál innan ríkisstj. og hæstv. landbrh. hefur einnig rætt það þar. Við hæstv. landbrh. erum sammála um að þoka þessu máli fram.

Fjh.- og viðskn. sendi ég erindi til kynningar á fjármagnsþörf í þessu skyni, miðað við að af stofnun hitaveitunnar verði og í framkvæmdir yrði hægt að ráðast á þessu ári, sem ég tel mjög þýðingarmikið að geti gerst til þess að greiða fyrir þessu samkomulagi rn. a. Af hálfu verkfræðinga hefur fjármagnsþörfin verið metin í lágmarki 2.5 millj. kr. Hugsanlegt er að hægt verði að nýta eitthvað meira fjármagn í ár, en það fer þó eftir því, hvenær hægt væri að ráðast í framkvæmdir. Ég mun beita mér fyrir því, að þetta fjármagn fáist af því fé sem ekki hefur verið ráðstafað, en til ráðstöfunar er innan ramma lánsfjáráætlunar, og tel að sá vilji, sem er í ríkisstj. til að greiða fyrir þessu máli, ætti að vera fullnægjandi trygging fyrir því, að ekki standi á fjárveitingum í þessu skyni.