08.04.1981
Neðri deild: 74. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3552 í B-deild Alþingistíðinda. (3596)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Örstutt athugasemd.

Mér varð það á að gera stutta athugasemd við ræðu hv. 8. landsk. þm., Halldórs Blöndals, í gær. Ágreiningur okkar var sá, að hann hafði eftir starfsmanni Kjararannsóknarnefndar ranga tölu. Það voru annars vegar tölur um hækkun taxtakaups og svo kaupmátt ráðstöfunartekna. Hv. 8. landsk. hefur nú beðist afsökunar á ummælum sínum sem ollu hér miklum geðshræringum í gær. Ég lýsti því yfir að það væru ein 50 atriði í ræðu hans röng. Hefði ég gert athugasemdir við fleiri atriði hefði hann 50 sinnum þurft að biðjast afsökunar. En hann er maður að meiri.