08.04.1981
Neðri deild: 74. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3554 í B-deild Alþingistíðinda. (3604)

129. mál, tékkar

Frsm. (Ingólfur Guðnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 508 um frv. til l. um breyt. á lögum nr. 94 1933, um tékka. Þetta er nál. fjh.- og viðskn. sem hefur fjallað um frv. Á fund n. komu Þórður B. Sigurðsson, forstöðumaður Reiknistofu bankanna, og Björn Líndal, frá viðskrn. N. er sammála um að mæla með að frv. verði samþykkt.

Hér er um býsna nauðsynlegt mál að ræða. Vélakostur banka og sparisjóða hefur tekið verulegum breytingum á síðustu árum. Nú er farið að senda allar upplýsingar í gegnum síma með þar til gerðum tækjum og farið að vinna mikið af bókhaldi bankastofnana í Reiknistofu bankanna sem staðsett er í Kópavogi. En lögin eru frá 1933. Þess vegna er ekki óeðlilegt að breytingarnar, sem hafa komið til nú á síðustu árum, krefjist að þessi lög þurfi að endurskoða á ýmsan hátt.

En sem sagt: Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt eins og það liggur fyrir á þskj. 154.