08.04.1981
Neðri deild: 74. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3559 í B-deild Alþingistíðinda. (3612)

158. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ríkisstj., sem Alþfl. átti aðild að, hafði frumkvæði að því, að þessi sérstaki skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði var lagður á á haustmánuðum 1978 og enn þá, eins og fram hefur komið hjá frsm., hefur fulltrúi Alþfl. í fjh.- og viðskn., hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, lagt til að þessi skattur verði framlengdur enn um sinn. Hugmyndin, var sú þegar þessi sérstaki skattur var lagður á á sínum tíma, að hann skyldi vera hemill á fjárfestingu í verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Ég mun styðja að skatturinn verði framlengdur enn um sinn, en þeir tímar geta þó vissulega komið að ástæða þyki til að fella þennan skatt niður. Sú afstaða að vera enn um sinn hlynntur því, að þessum skatti sé haldið, er í beinu framhaldi af þeirri afstöðu sem við höfðum á haustmánuðum 1978.

En það er von að hv. þm. Matthías Bjarnason spyrji hér að því, þegar hann mælir á móti þessum skatti, eins og hann gerði árið 1978, og biðji um grg. frá svokölluðum flokksbræðrum sínum í ríkisstj. um hvað það sé sem hafi breyst hjá þeim. Ég hygg að ég fari rétt með það, að Pálmi Jónsson og Friðjón Þórðarson, núv. hæstv. ráðh., hafi verið mjög eindregið andvígir þessum skatti á sínum tíma. Ég hef ekki heyrt neina grg. frá þeim í þá veru, hvers vegna þeir hafi skipt um skoðun. Mér finnst ákaflega eðlilega spurt hjá hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni þegar hann spyr þessa flokksbræður sina eftir grg. fyrir því, af hverju þeir hafi skipt um skoðun. Ég leyfi mér að ítreka þá spurningu hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar til flokksbræðra hans og ráðh. í ríkisstj.: Hvað er það sem hefur breyst? Af hverju styðja þeir núna þennan skatt sem þeir voru eindregið andvígir á sínum tíma?

Hv. þm. Albert Guðmundsson lýsti því áðan að í þessum efnum sem öðrum af skattlagningartegund væri Sjálfstfl. hinn eini stjórnmálaflokkur sem fólkið gæti treyst. Ummæli af þessu tagi hljóma auðvitað eins og grín. Og af hverju hljóma þau eins og grín? Af þeirri einföldu ástæðu að það eru flokksbræður hv. þm. Alberts Guðmundssonar, enn a. m. k., í ríkisstj. sem eru að leggja þennan skatt á. Þjóðin er auðvitað hætt að botna upp eða niður í því, með hverjum hætti þarna er málum háttað. Hvað er Sjálfstfl. og hvað er ekki Sjálfstfl.? Hér innan sala Alþingis eru menn auðvitað fyrir löngu hættir að botna í því einnig. Það hljómar auðvitað ekki ýkjatrúverðuglega að Sjálfstfl. hafi eina eða aðra skoðun í þessum efnum, því að Sjálfstfl. hefur auðvitað enga skoðun í þessum efnum. (FrS: Hefur hv. þm. sömu skoðun á málefninu og Jón Baldvin Hannibalsson?) Nei, hann hefur það ekki. Hv. þm. hefur sömu skoðun og hann hafði 1978 í þessum efnum. — Ég endurtek það, að ég kalla eftir grg. frá hæstv. ráðh. Sjálfstfl.: Hvað er það sem hefur breyst síðan 1978?

Það er fleira sem vekur athygli í þessari umr. Hér var upplýst áðan að borgarstjórn hefði samþykkt einróma á sínum tíma andstöðu við þennan skatt. Hér situr hv. þm. Guðrún Helgadóttir, sem jafnframt er borgarfulltrúi það er ég best veit. Ég kem því ekki alveg heim og saman, með hverjum hætti borgarstjórn hefur mótmælt þessum skatti einróma, því ég þykist vita að þennan sérstaka skatt ætli hv, þm. að styðja hér rétt á eftir. Ég óska eftir skýringum á því með hverjum hætti þetta kemur heim og saman.