08.04.1981
Neðri deild: 74. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3561 í B-deild Alþingistíðinda. (3614)

158. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Frsm. meiri hl. (Ingólfur Guðnason):

Herra forseti. Það er ekki óeðlilegt þó að umr. verða um frv. sem þetta, þar sem hér er um skattafrv. að ræða. Raunar er mjög eðlilegt að menn hafi mismunandi mat á þessari skattlagningu eins og hverri annarri. En ég stóð hér upp vegna þess að hv. þm. Halldór Blöndal beindi til mín spurningu um pylsuvagna, hvort þeir muni verða skattlagðir.

Það gleður mig ef hv. þm. Halldór Blöndal er að komast í stétt atvinnurekenda, og ég lýsi því yfir að ég mun leita eftir viðskiptum við hv. þm. þegar hann setur upp pylsuvagn, en til þess að svara þessari spurningu, sem ég reyndar á von á að hann hafi í fullri alvöru viljað fá svarað, bendi ég honum á 3. gr. frv. Þar er talað um að stofn til sérstaks eignarskatts skuli vera fasteignamatsverð í árslok 1980. Það hlýtur náttúrlega að skilja á milli. Er þetta metin fasteign? Er þetta verslunar- og skrifstofuhúsnæði samkv, fasteignamati? Hér er á einum stað gerð grein fyrir því, hvernig með skuli fara ef ekki er búið að meta fasteign, það hefur dregist eitthvað. Ég bið hv. þm. að leita sér upplýsinga um hvers eðlis ákveðin eign er með því að fá upplýsingar hjá Fasteignamati ríkisins.

Pylsuvagnar geta eins og aðrar byggingar náttúrlega verið með ákaflega mismunandi hætti. Þess vegna er ekki hægt að gefa hv. þm. neina sérstaka uppskrift um hvort pylsuvagn skuli teljast fasteign eða eitthvað annað. En þar sem ég kom hér upp til að svara þessari fsp. vil ég endurtaka áhuga minn á því að versla við hv. þm. þegar hann hefur komið sér upp slíkum atvinnurekstri.