08.04.1981
Neðri deild: 74. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3562 í B-deild Alþingistíðinda. (3615)

158. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. 9. þm. Reykv., Vilmundur Gylfason, hóf sína ræðu um það frv., sem hér er á dagskrá, með því að lýsa yfir að hann yrði enn um sinn að styðja það. Hann sagði að hann yrði enn um sinn að styðja þetta frv., þessa skattlagningu, en hvernig hann sagði það, hvernig hann orðaði það, er alveg nóg fyrir mig, því að hugarfarið á bak við sýnir að hann er í eðli sínu á móti frv. jafnvel þó hann hafi staðið að því á sínum tíma. — En ég fer ekki til baka með það, að það kemur hér fram og hver sem vill taka eftir því sér að Sjálfstfl. er, hvað sem hver segir, sá eini sem mótmælir þessu frv. Ég tók það fram, að því miður væru þeir sjálfstæðismenn ekki nógu margir á þingi sem væru andvígir þessu frv., en að sjálfsögðu er mér ljóst eins og hverjum öðrum að þeir sjálfstæðismenn, sem sitja í ríkisstj., greiða þessu frv. atkv. sitt. Ég gleymdi þeim ekki og tók þannig til orða að það átti að vera auðvelt að skilja það.

Það er rétt hjá hv. þm. Jóni Baldvin Hannibalssyni, að frv. er borið fram m. a. af þeim fulltrúum sem telja sig til Sjálfstfl. og sitja í ríkisstj. En ég lagði áherslu á í minni tölu að fólkið í landinu áttaði sig á því, hvar það ætti vini, hvar það ætti skjól í íslenskum stjórnmálum. Því miður er hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson ekki viðstaddur því ég ætlaði mér að nota hans eigin orð, sem hann viðhafði á samkomu úti í bæ nýlega og ég var áheyrandi að. — Ég er þakklátur fyrir að þm. er nú kominn í salinn því ég ætlaði mér að fá að nota hans eigin orð. Þegar fólkið í landinu áttar sig á hvar það á talsmenn og kýs þá Sjálfstfl. í ríkari mæli þannig að fulltrúar flokksins verði svo margir að dugi til að fella frv. sem þessi, þá koma tímar og þá koma ráð. En hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson viðhafði þau orð, að þeir tímar, sem við nú lifðum á, væru kallaðir öðrum orðum, þeir væru kallaðir kommatímar og kommaráð. Það er þá líklega rétt orðað þrátt fyrir samsetningu ríkisstj.