08.04.1981
Neðri deild: 74. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3562 í B-deild Alþingistíðinda. (3616)

158. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Það er rétt munað hjá flokksbræðrum mínum og öðrum sem talað hafa í þessu máli, að ég hef ekki verið sérstakur stuðningsmaður þessa sérstaka skatts á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Komið hefur til orða að fella þennan skatt alveg niður. Það var rætt um að fella nýbyggingagjaldið niður við gerð fjárlaga. Það var gert. Þá var einnig minnst á að lækka þennan skatt eða fella hann niður. Á hitt vil ég benda, að við sjálfstæðismenn höfum ekki alltaf verið ánægðir eða kannske með góða samvisku þegar á hafa verið lagðir skattar á liðnum árum og er það mannlegt. En nú er svo komið, að samkv. tekjuáætlun fjárlagafrv. fyrir árið 1981 er gert ráð fyrir álagningu þessa skatts, svo slæmt sem það nú er. Ég hef samþykkt fjárlagafrv. eða fjárlög ársins 1981 og sé mér því ekki fært annað en samþykkja þetta frv. og þennan skatt fyrir það ár sem nú er að liða.