08.04.1981
Neðri deild: 74. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3563 í B-deild Alþingistíðinda. (3617)

158. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það eru athyglisverðar umr. sem fara fram um þetta mál þingsins, um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Það hafa nokkrir rifjað það upp, að sú ástæða, sem gefin var upp á sínum tíma þegar þessi skattur var lagður á ásamt nýbyggingagjaldinu, var ósköp einföld. Hún var á þá leið, að með þessum skatti ætti að koma í veg fyrir að fyrirtæki í landinu og einstaklingar eftir atvikum, þegar um nýbyggingagjaldið væri að ræða, nýttu sér neikvæða raunvexti til að hrúga upp eignum sem ekki kæmu að gagni. Þetta var, ef ég man rétt, aðalröksemdin, og vitna ég til þeirra umr. sem þá áttu sér stað hér á þingi. Sem sagt: Þessir skattar áttu að koma í veg fyrir að menn legðu svokallaðan verðbólgugróða í glæsihallir, skrifstofu- og verslunarhallir.

Alþfl. barðist á þeim tíma fyrir stefnu sem hann kallaði raunvaxtastefnuna. Sú stefna birtist m. a. í frv. sem hv. þm. Vilmundur Gylfason ásamt fleiri flutti hér í sölum Alþingis og var á þá leið að festa vextina við verðbólgustigið nánast, með því móti væri komið í veg fyrir að hægt væri að mynda svokallaðan verðbólgugróða með þessum hætti. Fyrir skömmu urðu hér umr. á þingi og þá sögðu talsmenn Alþfl. að nú væri svo komið að raunvaxtastefnan hefði náð fram að langmestu leyti og það væri hægt að þakka Alþfl. það sérstaklega. Það, sem ég hef nú sagt, réttlætir fullkomlega að hv. þm. Vilmundur Gylfason og aðrir þm. Alþfl. fylki sér undir forustu Jóns Baldvins Hannibalssonar í þessu máli og viðurkenni að það var aðeins fljótfærni formanns þingflokksins að skrifa undir nál. með fyrrv. samstarfsmönnum sínum í ríkisstj.

Þessu verða menn að átta sig á. Ég sé ekki að menn séu eitthvað minni karlar fyrir þær sakir að viðurkenna slíkar staðreyndir. Ég veit að í eðli sínu og hjarta er hv. þm. Vilmundur Gylfason ekki neinn skattaofsóknarmaður. Hann hefur margoft sagt mér hið gagnstæða og það hefur oft komið fram í ræðum hans. Hér er aðeins um það að ræða, að hann heldur að hann verði að standa við þennan skatt af því að hann tók þátt í að leggja hann á á sínum tíma, en er greinilega búinn að gleyma því, hver voru rök hans og annarra sem fyrir þessum skatti börðust.

Hæstv. ráðh. Steingrímur Hermannsson og Tómas Árnason hafa báðir í ræðum á Alþingi látið að því liggja að þennan skatt eigi að leggja niður. Ég tel að það hafi verið fyrst og fremst úr röðum framsóknarmanna sem krafan kom um að leggja niður nýbyggingagjald, vegna þess að það snerti bændur fyrst og fremst, en bændur eru margir hverjir fylgjendur framsfl. Nýbyggingagjaldið var þess vegna lagt af. Síðan situr þessi skattur eftir.

Þá kem ég að hæstv. dómsmrh. Hann sagði hér og viðurkenndi að hann gerði það ekki með glöðu geði að leggja skatta á og vissulega hefðu margir slæma samvisku þess vegna. En menn skulu minnast þess, að fjárlög eru aðeins áætlun á hverjum tíma. Nú er um það rætt í fullri alvöru, og meira að segja er stærsti stjórnaraðilinn Framsfl. — nýbúinn að halda þing og lýsir þar yfir að leggja eigi niður skatta hér og hvar og síðan eigi að fresta framkvæmdum, enda hefur hæstv. ríkisstj. margfaldar heimildir til þess að fresta framkvæmdum, spara og skera niður. Hvernig væri þá að fella þennan skatt niður af þeirri ástæðu, að nú hafa mál skipast þannig að ekki er lengur um verulegan verðbólgugróða að ræða hjá þeim sem taka lán og standa fyrir fyrirtækjum eða hjá þeim sem þurfa að taka lán til þess að standa undir eigin húsbyggingum? Á þetta vil ég minna og ég skora á sjálfstæðismennina, sem styðja ríkisstj., að taka á þessu máli með þessum skilningi og rifja það upp, hverjar voru upphaflegu ástæðurnar fyrir því, að þessi skattur var lagður á. Ég skora jafnframt á hv. þm. Vilmund Gylfason og þingflokk Alþfl. að snúa við blaðinu. Það er auðvelt því að ég veit að þeir vilja ekki ofsækja menn með sköttum.

Auk þess, og um það hefur jafnan verið rætt þegar þessi mál ber á góma, er þessi skattur til þess fallinn að gera upp á milli atvinnugreina. Það er einn mesti bölvaldurinn í þessu þjóðfélagi þegar farið er að mismuna atvinnuvegum. Það endar yfirleitt með því að samkeppni myndast þeirra á milli og alls konar grátur um að þessi hafi það Betra en hinn. Slík afskipti löggjafans af málefnum atvinnuveganna eru vitanlega af hinu illa.

Herra forseti. Ég hef leyft mér að rifja upp hvernig þessi skattur varð til. Ég hef bent á að hæstv. ráðh. hafa látið að því liggja að þetta kunni að breytast. Ég veit, herra forseti, að sjálfstæðismennirnir í ríkisstj. eru þeir frjálslyndustu þeirra. Þeir hafa ekki þá lús á bakinu að hafa stutt þessa skatta í upphafi og eiga þess vegna léttara með en aðrir að ganga í lið með þingflokksfélögum sínum. Og ég hef höfðað til skynsamra manna í Alþfl., hv. þm. Vilmundar Gylfasonar og annarra, og sýnt þeim fram á að nú hefur Alþfl. náð fram raunvöxtunum, nú hefur hann eytt orsökunum fyrir því að þessi skattur var settur á laggirnar.

Ég heyri að hv. þm. Vilmundur Gylfason hefur beðið um orðið. Ég hlakka til að heyra hann koma hér í ræðustól því að ég er viss um að hann lýsir yfir að hann muni snúast gegn þessum skatti.