08.04.1981
Neðri deild: 74. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3568 í B-deild Alþingistíðinda. (3622)

158. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég þakka fyrst frsm. n., hv. 5. þm. Norðurl. v., þá glöggu skilgreiningu sem hann gaf mér á því, hvernig yrði farið með pylsuvagna í sambandi við þá verslunarálagningu sem hér um ræðir. En ég kvaddi mér nú ekki einkum hljóðs til þess, heldur til að víkja nokkrum orðum að hæstv, landbrh., sem að vísu er ekki í salnum, en má kannske segja að bættur sé skaðinn. Hann hefur verið einn þeirra manna í Sjálfstfl. sem alla tíð hafa viljað leggja mikla áherslu á að Sjálfstfl. gætti hófs í skattaálögum. Einkum var það svo í sambandi við eignarskattinn meðan formaður flokksins var forsrh. og 1. þm. Reykn. var fjmrh. Frá þeim tíma minnast menn þess, eins og t. d. ég, að það var ekki alltaf sem glögg grein var gerð fyrir því innan okkar flokks hvernig ætti að halda á sparnaðartillögum í sambandi við fjárlög.

Ef við tökum eignarskattinn í fjárlögum ársins 1980 kemur í ljós að hann var 2.7 milljarðar á einstaklingum. Nú hefur eignarskattur á einstaklingum verið hækkaður upp í 6 milljarða á fjárlögum yfirstandandi árs. Hann hefur meira en tvöfaldast. Ef við lítum á þann sérstaka skatt sem hér er til umræðu, þ. e. skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, þá var hann í fjárlögum fyrir árið 1979 eða áður en hæstv. landbrh. komst í ríkisstj. 550 millj. kr., en í fjárlögum yfirstandandi árs hefur hann hækkað upp í 2 milljarða og 200 þús. gkr. eða fjórfaldast á þeim tíma sem hann hefur setið í ríkisstj. Það er þess vegna síður en svo að við séum að tala um það hér, flokksbræður hans, að hann eða sú ríkisstj., sem nú sitji, eigi að skila einhverju sem hafi verið innbyggt í kerfið áður en þeir urðu ráðherrar. Við erum í sambandi við eignarskattinn einungis að biðja þá um að láta sér nægja það sem áður var.

Þegar hæstv. landbrh. talaði hér áðan um fjárlögin láðist honum að geta þess, sem fram kom hjá hæstv. fjmrh. við útlistun málsins, að í tekjuhlið fjárlagafrv. var um verulegar greiðslur að ræða, m. a. varðandi tekju- og eignarskatt, sem voru ofáætlaðar. Verulegur hluti af brtt. sjálfstæðismanna kom inn á þessa þætti. Vitaskuld skiptir það þó ekki máli þegar markmiðið með orðum hans var að reyna að gefa ranga mynd af málflutningi sjálfstæðismanna við afgreiðslu fjárlaga, en halda sér ekki við staðreyndir málsins. Er raunar hörmulegt til þess að vita. Þar sem hæstv. landbrh. hefur horfið af fundi skal ég ekki ræða þetta nánar, en fróðlegt hefði verið að varpa til hans fsp. út af þeim ummælum sem hann lét hér falla.

Ég vil svo rifja það upp í sambandi við það, að ýmsir vilja nú eigna sér þennan skatt sem lagður er á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, að í tillögum Alþb. í efnahags- og atvinnumálum, sem lagðar voru fram fyrir kosningarnar 1978, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Sérstakur stighækkandi fasteignaskattur verði lagður á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Skattinum verði varið til framleiðslu- og framleiðniskapandi aðgerða hjá útflutningsatvinnuvegunum.“

Það liggur því alveg ljóst fyrir hvaðan þessi skattur er upprunninn. Þessi skattur var búinn til á skrifstofu Alþb. og hefur m. a. þann tilgang að reyna að brjóta niður heilbrigða verslunarhætti. Ein af afleiðingum þessa skatts er sú, eins og hv. 1. landsk. þm. sagði áðan, að erfiðlegar gengur en ella að halda uppi viðunandi launakjörum hjá skrifstofu- og verslunarfólki, en við vitum að í hópi þess fólks er nú lægst launaða fólkið í landinu, sem hefur engin tök á því að koma vinnu sinni inn í nein framleiðsluhvetjandi kerfi eða akkorð. En eins og ég sagði áðan stendur þessi skattur í beinu samhengi við það, að forsvarsmenn Alþb. hafa löngum talið verslunar- og skrifstofufólk annars flokks fólk í landinu og þennan atvinnurekstur annars flokks og ekki skilið þýðingu hans, hvorki fyrir landið í heild né hinar strjálu byggðir.

Á hinn bóginn gleður það mig að það skuli vera komið fram hjá tveim af ráðh. Framsfl., eins og ég gat um áðan, hjá formanni Framsfl., Steingrími Hermannssyni, og hjá hæstv. viðskrh., að þeir muni beita sér innan ríkisstj. fyrir því, að þessi skattur verði lagður niður í framtíðinni.

Að síðustu vil ég svo ítreka það sem sagt var, að það skýtur nokkuð skökku við þegar fulltrúar Alþb. í borgarstjórn Reykjavíkur treysta sér ekki til að standa með þessari skattlagningu þar, en þótt sömu menn eigi sæti hér í Alþingi skuli enginn þeirra fást til að standa upp og útskýra sjónarmið þess flokks.

Ánægjulegt er þegar maður á borð við Jón Baldvin Hannibalsson á sæti hér á Alþingi fyrir Alþfl. Meðan svo er standa a. m. k. vonir til þess, að heilbrigð rödd heyrist úr þeim herbúðum varðandi atvinnuvegina, en það hefur verið mjög áberandi í sambandi við skattalagastefnu Alþfl. að hún hefur verið fjandsamleg atvinnuvegunum upp á síðkastið og fleiri en versluninni, eins og við sjáum m. a. á þeim brtt. sem Alþfl. gerði í sambandi við tekjuskatt félaga í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna. Tillögur Alþfl. varðandi tekjuskattinn eru því líka fjandsamlegar atvinnuvegunum og koma til af því að ýmsir af forustumönnum Alþfl. í seinni tíð hafa ekki skilning á því, að höfuðmein okkar um þessar mundir er sprottið af því að atvinnuvegunum hefur ekki verið gefið nægilegt svigrúm og af því að þannig hefur verið haldið á skattgjalds- og verðlagsmálum að eðlilegt eigið fé hefur ekki myndast í atvinnurekstrinum. Af því súpum við seyðið nú og af því stafar m. a. að lífskjör fara hér versnandi ár frá ári, vanskilaskuldir hrannast upp og við fáum ekki við neitt ráðið.