09.04.1981
Sameinað þing: 72. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3572 í B-deild Alþingistíðinda. (3626)

266. mál, raforkuflutningur til Vesturlands

Fyrirspyrjandi (Skúli Alexandersson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. svör hans þó að mér finnist sumt ekki alveg koma heim við það sem reynslan hefur sagt okkur á Vesturlandi.

Í fyrsta lagi í sambandi við svar hans við fyrstu spurningunni, að bilunin á strengnum yfir Hvalfjörð hafi lítil sem engin áhrif á raforkuflutninginn til Vesturlands, þá held ég að það sé því miður ekki rétt. Það er kannske ekki vegna þess að ekki sé fyrir hendi eðlileg flutningsgeta á línum, heldur er það vegna þess að spennubreytar á Vatnshömrum eru ekki nógu stórir til að sinna því hlutverki að miðla rafmagni bæði vestur og til baka niður á Akranes. En ég veit að að því er stefnt að laga þá hluti. Þessi bilun hefur einmitt valdið truflunum á Vesturlandi í vetur.

Ég undirstrika það sem ég sagði áðan: Það er dálítið kaldhæðnislegt við það að búa að sæstrengur, rafmagnsflutningsstrengur eins og sá sem er yfir Hvalfjörð, skuli vera bilaður a. m. k. frá því á Þorláksmessu og fram í maí, ekki síst þegar það er síðan staðfest í svari hæstv. ráðh. að hugmyndin sé að við á Vesturlandi búum við flutning og öryggi í raforku sem verði m. a. tengt þessum streng. Það má alveg eins búast við því að þessi strengur fari aftur í sundur á næstu Þorláksmessu og á næsta vetri verði svipað ástand og nú er.

Ég fagna þeim áætlunum sem uppi eru um hinar væntanlegu flutningslinur, en finnst skrýtið að það skuli ekki vera spennuhærri lína sem á að koma milli Ólafsvíkur og Hellissands en hæstv. ráðh. gaf upp. Ég tel að þar ætti að byggja upp 66 kílóvolta línu alveg eins og búið er að gera til Ólafsvíkur og stefnt er að að gera milli Grundarfjarðar og Stykkishólms.

En ég vil lýsa því yfir að ég fagna áætlunum í sambandi við línuna frá Brennimel um Vatnshamra að Glerárskógum. Það er möskvatenging sem tryggir okkur. Og fyrr erum við vitaskuld ekki orðin trygg um rafmagn á Vesturlandi en þar er komin tvöföld lína.

Svarið við síðustu spurningunni finnst mér heldur verra. Þar er raunverulega ekki svarað því sem ég spurði um. Ég gerði grein fyrir því ástandi sem nú er og verður a. m. k. til 1984, að eingöngu er um að ræða flutningslínuna frá Geithálsi plús vonandi sæstrenginn við Hvalfjörð. Ef þessi lína bilar er næstum því rafmagnslaust eða mjög lítið vararafmagn á Vesturlandi. Sú skömmtun, sem þar var framkvæmd í vetur, var þannig að rafmagnslaust var í 8 tíma, síðan rafmagn í klukkutíma. Við það að tengjast Norðurlandi, sem er með svo mikið varaafl eins og stendur í dag að þar þurfti ekki neina skömmtun þegar byggðalinan fór í sundur, mundi skömmtunaraðstaða Vesturlands breytast til batnaðar. Sama er vitaskuld að segja um Vestfirði ef inn á Vestfjarðasvæðið kæmi straumur frá Norðvesturlandi. Það mætti hugsa sér að dæmið lagaðist, að í stað 8 tíma rafmagnsleysis og klukkutíma rafmagns í skömmtunarkerfi yrði 4 tíma rafmagnsleysi og 2 tíma rafmagn.

Ég vildi aðeins leggja áherslu á það, að ég tel að einmitt sú lausn að tengjast vel Norðurlandinu gagnvart raforkuflutningi sé mjög nauðsynleg fyrir Vesturland og Vestfirði og að það verði undirbúið fyrir næsta vetur.