09.04.1981
Sameinað þing: 72. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3580 í B-deild Alþingistíðinda. (3634)

248. mál, aðstoð ríkisins við Siglósíld

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Sú umræða, sem hér hefur farið fram, er dæmigerð fyrir þá tegund af rekstri fyrirtækja sem ég held að sé alveg sérkennandi fyrir íslenskt atvinnulíf og ég hef gefið heitið þingnýting. Það er þegar ráðherrar og þingmenn koma hér upp í ræðustól hver á fætur öðrum og tala eins og væru þeir framkvæmdastjórar í hinu eða þessu fyrirtæki einhvers staðar úti í bæ, segja að þetta hafi verið skynsamleg fjárfesting, hitt hafi ekki verið réttur samningur, þetta fyrirtæki mundi hafa verið betur rekið en hitt fyrirtækið o. s. frv., o. s. frv. Þetta er ekki hlutverk stjórnmálamanna í venjulegum ríkjum, ef við undanskiljum þá Austur-Evrópuríkin — og þeim, sem þar ráða ríkjum, hefur aldrei dottið þetta rekstrarform í hug: að reka fyrirtæki úr ræðustól á Alþingi. En í þessu eru þeir Alþb. menn sérstakir sérfræðingar, enda má orðið heita svo að það sé vart til það fyrirtæki á Íslandi sem ekki er stjórnað úr ræðustól á Alþingi. En það skiptir engu meginmáli í þessu sambandi hvort verksmiðjan Siglósíld sé betra eða verra fyrirtæki en sambærileg fyrirtæki annars staðar á landinu, hvort þetta fyrirtæki hafi gert betri eða verri samning við eina eða aðra dósagerð heldur en hægt hefði verið að gera o. s. frv., sem mér sýnist vera meginatriðið í máli hæstv. ráðh. og fellur vel að þessari þingnýtingarhugmynd sem íslenskir stjórnmálamenn virðast hafa fundið upp. Meginatriði málsins er að ég fæ ekki séð að hæstv. fjmrh. hafi heimild til þess að ávísa fé úr ríkissjóði með þessum hætti.

Hæstv. forseti. Eins og allir þm. vita er fjárveitingarvaldið í höndum Alþingis. Það er bannað með lögum að hæstv. fjmrh. og ríkisstj. ráðstafi peningum öðruvísi en með leyfi þessarar stofnunar. Hins vegar er það orðin siðvenja ráðh. — og ekki bara ráðh. þessarar ríkisstj., heldur allt of margra ríkisstj. — að líta svo á að þeir séu yfir allar slíkar reglur hafnir. Og ef hæstv. fjmrh. dettur í hug að taka upp tékkhefti ríkissjóðs og ávísa úr því af almannafé 150 millj. kr. í heimildarleysi til verksmiðju í kjördæmi sínu, þá gerir hann það umhugsunarlaust. Og það er ekki gert að aðalatriði í umr. hérna að þannig sé haldið á málum, heldur hitt, með hvaða hætti átti að reka þetta tiltekna fyrirtæki ef þeir, sem í ræðustólnum stóðu, hefðu verið framkvæmdastjórar. Á þessu, herra forseti, vildi ég vekja athygli manna og tel það vera orðið stóralvarlegt mál. Ég fæ ekki séð að hæstv. ráðh. hafi haft nokkra heimild til þess að gera þann gjörning sem hann hefur hér gert. Hann hefur gert það í algeru heimildarleysi og er raunverulega lögbrjótur með þeim gjörningi sínum.