09.04.1981
Sameinað þing: 72. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3582 í B-deild Alþingistíðinda. (3637)

248. mál, aðstoð ríkisins við Siglósíld

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Í fyrsta lagi er það misskilningur hæstv. fjmrh. að ég hafi verið að sneiða að honum sérstaklega vegna þeirra orða sem hann hafði um rekstur Siglósíldar. Það, sem ég var að tala um, er sú almenna siðvenja að ræða héðan úr ræðustól á Alþingi, á löggjafarsamkomu þjóðarinnar, um rekstrarmál hinna og þessara fyrirtækja í landinu, eins og þeir þm. og ráðh., sem þann sið iðka væru framkvæmdastjórar eða forstjórar þessara fyrirtækja. Og venjan er sú, að þeir þykjast hafa betra vit á öllum þessum málum heldur en flestir, ef ekki allir aðrir menn í landinu. Þetta er sú þingnýting sem ég gagnrýndi og á ekkert skylt við opinberan rekstur heldur þá siðvenju okkar Íslendinga að nota löggjafarsamkunduna til þess að lýsa vafalaust stórkostlegum hæfileikum hver annars í því að stjórna fyrirtækjum — sem fæstir okkar hafa nokkurn tíma komið nálægt.

Um síðara atriðið í ræðu hæstv. fjmrh. vil ég aðeins segja þetta: Ég kannast ekki við að slíkar fjárveitingar sem hann talar um, 150 millj. kr. til verkefna sem ekki eru á fjárlögum, hafi verið mjög tíðar. Í annan stað: Þessi aukafjárveiting er afgreidd 23. sept., aðeins nokkrum dögum áður en reglulegt Alþingi kemur saman til fundar þar sem fjárveitinganefnd er kosin sem um slík mál á að fjalla. Í þriðja lagi: Á þessum tíma starfar svokölluð undirnefnd fjárveitinganefndar sem vani er að hafa samráð við um öll slík mál. Mér er ekki kunnugt um að slíkt samráð hafi verið haft. Og þetta yfirlæti ríkisstj. — að þykjast geta hundsað Alþingi eins og henni dettur í hug og sniðgengið vald, sem Alþingi hefur samkv. stjórnarskrá Íslands, hvenær sem henni þykir hlýða — það verður með einum eða öðrum hætti að stöðva. Og þá er ég ekkert frekar að gagnrýna þessa ríkisstj. en fjölmargar aðrar ríkisstjórnir sem þannig hafa hegðað sér.