09.04.1981
Sameinað þing: 72. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3583 í B-deild Alþingistíðinda. (3640)

386. mál, símamál í Kjósarhreppi

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Í upphaflegum áætlunum Pósts og síma var gert ráð fyrir því, að sjálfvirkur sími yrði lagður um Kjósarhrepp eins og reyndar víða annars staðar. Við meðferð á þeim till. hjá hv. fjvn. reyndist nauðsynlegt að skera þær mjög niður, úr 9 milljörðum í um 51/2. Við þann niðurskurð féll út lagning sjálfvirks síma yfirleitt í dreifbýli, því miður. Það var að mati póst- og símamálastjóra nauðsynlegra að leggja þá áherslu á ýmsar endurbætur í stöðvum sem ekki verður komist hjá um leið og sjálfvirkur sími er lagður. Þetta er því ekki á fjárveitingu í ár og verður að óbreyttu ekki lagt í ár. Hins vegar vek ég athygli á því, að ég hef lagt fram frv. til l. um lagningu sjálfvirks síma sem er komið til nefndar í Ed. Í grg. með því frv. er upplýst að heildarkostnaður við lagningu sjálfvirks síma í Kjósarhreppi er 1950 þús. kr. Og ég leyfi mér að fullyrða að verði það frv. samþykkt verður lagning síma í Kjósarhreppi í fremstu forgangsröð á þeirri fimm ára áætlun sem þar er gert ráð fyrir.

Ég vil aðeins nota tækifærið og taka undir það með hv. fyrirspyrjanda, að það er slæmt að lagning sjálfvirks síma hefur árum saman dregist mjög í dreifbýll landsins. Undan því er mjög kvartað og eðlilega mjög á það sótt að fá sjálfvirkan síma af ýmsum öryggisástæðum, ekki þó síst í fjölmörgum dreifbýlishreppum sem liggja langt frá heilsugæslustöðvum og ýmsum öðrum miðstöðvum sem dregnar hafa verið saman á færri staði en áður var. Þetta er því öryggisatriði bæði í Kjósarhreppi og víða um landið. Ég tel því að þessi verkefni eigi að hafa forgang eins og lagt er til í því frv. sem ég nefndi. Ég tek fram að loforðin, sem gefin hafa verið um að leggja sjálfvirkan síma í ár, hafa öll verið tengd því að fjárveiting fengist. Það hef ég ekki á mínu valdi. Þetta var lagt til í tillögum póst- og símamálastjórnarinnar, en ekki reyndist unnt að ná endum saman með fjármögnun og því frestaðist þetta mál.