09.04.1981
Sameinað þing: 72. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3586 í B-deild Alþingistíðinda. (3644)

353. mál, álagning opinberra gjalda

Fyrirspyrjandi (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. kærlega fyrir þær greinagóðu upplýsingar sem hann hefur hér gefið. Þær eru á margan hátt mjög athyglisverðar. Þar kemur m. a. fram að á árunum 1975–1980 fara skattgreiðendur í bændastétt niður fyrir helming framteljenda þannig að minna en annar hver framteljandi greiðir tekjuskatt. Þetta eru að sjálfsögðu mjög athyglisverðar upplýsingar. Í öðru lagi er það einkar athyglisvert, að meðalskattgreiðslur þeirra framteljenda í bændastétt, sem greiða skatta á þessu tímabili, eru mjög verulega langt fyrir neðan tekjuskattsgreiðslur tveggja af þremur viðmiðunarstéttunum, þ. e. sjómanna og iðnaðarmanna, en einna áþekkastar því sem verkamenn við sjávarsíðuna greiða í tekjuskatt. Engu að síður virðast bændur hafa á þessum árum getað ráðið við allverulegar fjárfestingar. Hvort þær fjárfestingar eru kostaðar af lánsfé eða af eigin fé veit ég ekki, en alla vega treysta menn með ekki hærri skatta sér þó til þess að bera mjög mikinn fjármagnskostnað af slíkum fjárfestingum séu þær gerðar fyrir lánsfé. Ég er hræddur um að það hefði vafist fyrir mörgum verkamanninum á þessum árum að standa í slíkum fjárfestingum.