06.11.1980
Sameinað þing: 15. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í B-deild Alþingistíðinda. (365)

1. mál, fjárlög 1981

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Í upphafi 1. umr. um frv. til fjárlaga fyrir árið 1981 vil ég fjalla um nokkur stærstu viðfangsefni ríkisstj. í efnahags- og fjármálum á því ári, sem er að líða, og því, sem í hönd fer.

Kjarasamningar svo til allra launamanna í landinu voru lausir þegar núverandi ríkisstj. tók við völdum. Í sumar voru þrjú ár liðin síðan heildarkjarasamningar höfðu seinast verið gerðir, og lengi hefur legið ljóst fyrir að það yrði eitt erfiðasta og mikilvægasta viðfangsefni íslenskra stjórnmála á þessu ári að koma á nýjum kjarasamningum. Núv. ríkisstj. markaði þegar þá stefnu í upphafi síns ferils, að þessir samningar ættu að verða launajöfnunarsamningar og megináherslu yrði að leggja á það að bæta kjör þeirra sem standa neðarlega í launastiganum, með því m.a. að launahækkanir gengju ekki hlutfallslega jafnt upp allan launastigann. Í samningum ríkisins við opinbera starfsmenn sigraði þessi stefna og hefur síðan mótað gerð almennra kjarasamninga sem nú er að mestu lokið.

Jafnhliða þessu hafa mikilvæg skref verið stigin í málefnum aldraðra og öryrkja. Tekjutrygging hækkar á einu ári um 10% umfram verðlagshækkanir. Þessi hækkun kostar ríkissjóð um 2200 millj. kr. á 18 mánuðum og kemur þeim fyrst og fremst til góða sem eru ekki í verðtryggðum lífeyrissjóðum. Jafnframt eru lífeyrisgreiðslur skv. lögum um eftirlaun aldraðra hækkuð um 3 stig og kostar sú hækkun rúmar 800 millj. kr. á næsta ári. Það er mikið og brýnt verkefni að brúa bilið milli þeirra, sem búa við lífeyri úr verðtryggðum opinberum sjóðum, og hinna, sem fá lífeyri með tekjutryggingu og heimilisuppbót almannatrygginga og með ellilífeyri frá Umsjónarnefnd. Með þeim ákvörðunum, sem nú hafa verið teknar, styttist þetta bil. En betur má ef duga skal. Nauðsynlegt er að á næstu tveimur árum verði byggt upp samræmt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn.

Verðbólga var yfir 60% miðað við 12 mánaða tímabil þegar núv, ríkisstj. tók við. Meginorsök þessarar miklu verðbólgu eru versnandi viðskiptakjör, óveruleg hækkun á útflutningsverði á sama tíma og verðbólga í helstu viðskiptalöndum okkar er 10–20% á ári og innflutningsverð hefur hækkað um samtals 36% á tveimur árum miðað við fast gengi. Þrátt fyrir það að viðskiptakjör hafi haldið áfram að versna hefur heldur dregið úr verðbólgu það sem af er þessu ári og má reikna með að verðhækkanir frá upphafi til loka árs 1980 verði um eða yfir 50%.

Engum kemur á óvart að leiðrétting á kjörum launafólks hafi nokkur áhrif á þróun verðlags í landinu. Hjá því verður aldrei komist. En stóra spurningin er, hvort þessar launahækkanir verða gleyptar á skömmum tíma af aukinni verðbólgu eða hvort náðst getur samkomulag á næstu mánuðum um ráðstafanir til að hamla gegn verðbólgu og til að verja kaupmátt launa. Að óbreyttu kerfi er vissulega hætta á ferðum. Þess vegna mun ríkisstj. leita samráðs við aðila vinnumarkaðarins á næstu vikum og freista þess að ná sem víðtækustu samkomulagi um efnahagsaðgerðir sem hljóta að miða að því að draga úr víxlhækkunum og sjálfvirkni efnahagskerfisins og stuðla að því að verja þær kjarabætur láglaunafólks sem náðust í nýgerðum kjarasamningum.

Við gerð fjárlagafrv. voru 12 milljarðar kr. teknir frá til efnahagsaðgerða á næsta ári. Miðað við það stórverkefni, sem fram undan er í efnahagsmálum, er líklegt að sú upphæð þurfi að hækka.

Á þessu ári er staða ríkissjóðs í viðunandi jafnvægi í fyrsta sinn um árabil. Á fyrstu 8 mánuðum ársins er talið að verðlag hafi hækkað um 58%. Á þessu sama tímabili jukust tekjur ríkissjóðs um rúmlega 60% miðað við sama tímabil í fyrra, en gjöld munu hafa aukist um 50%. Skýringin á bættri stöðu ríkissjóðs er því fólgin í hvoru tveggja, að tekjur hafa aukist meira en verðlag hefur hækkað, en útgjöld hafa hækkað minna en verðlag. Af þeim tölum, sem ég nefndi, er þó ljóst, að langtum minni útgjaldahækkun en nemur verðlagsbreytingum á þessu 8 mánaða tímabili er meginskýringin á því, að ríkissjóður stendur nú betur að vígi en á sama tíma í fyrra.

Of snemmt er að segja nákvæmlega til um hver verður afkoma ríkissjóðs í árslok, en ljóst er að rekstur ríkissjóðs á þessu ári verður ekki til að ýta undir verðbólgu vegna seðlaprentunar í þágu ríkissjóðs, eins og verið hefur um nokkurt skeið.

Hlutfallslega auknar tekjur ríkissjóðs á þessu ári stafa fyrst og fremst af hækkuðum óbeinum sköttum á þessu og seinasta ári, en hækkun óbeinna skatta er samt miklu minni en margir virðast álíta, því að taka verður með í reikninginn verulegar tollalækkanir þessi sömu ár vegna samninga Íslands við EFTA og Efnahagsbandalag Evrópu. Álagning s.l. sumars sýnir að tekjuskattar til ríkisins hafa ekki hækkað og hækkun tekjuskattanna í heild stafar fyrst og fremst af hækkun útsvars til sveitarfélaga. Hins vegar virðist eignarskattur hafa hækkað vegna hærra fasteignamats en reiknað var með.

Þegar nægur tími hefur gefist til að kanna niðurstöðu álagningar frá s.l. sumri verður lagt fram frv. hér á Alþingi til breytinga á lögum um tekju- og eignarskatt. Sérstök nefnd vinnur að athugun á álagningu tekjuskatts á bændur. Ákvæði nýsettra skattalaga um áætlun tekna og tekjufærslu á óverðtryggðum skuldum virðist koma sérlega illa niður á þeim bændum, sem verst eru staddir fjárhagslega, og orka því tvímælis. Önnur nefnd vinnur að rannsókn á kjörum og skattgreiðslum einstæðra foreldra. Fjöldamargt annað í nýju skattalögunum þarfnast nánari athugunar. Í tengslum við væntanlegar efnahagsaðgerðir koma bæði til greina skattalækkanir og fjölskyldubætur.

Hvað eignarskattinn varðar kemur til álita að skatturinn verði í tveimur þrepum, og sérstaklega er nauðsynlegt að hlífa ellilífeyrisþegum við álagningu eignarskatts með sérstökum frádrætti.

Undanfarnar vikur hefur nefnd á vegum fjmrn. unnið að tillögum um herta innheimtu söluskatts. Stefnt er að strangari viðurlögum við bókhaldsbrotum, aukinni vélvinnslu framtala og auknum kröfum um færslu viðskipta. Einnig eru í undirbúningi sérstakar aðgerðir til aukins skattaeftirlits.

Í kjölfar álagningar skatta skv. nýjum gerbreyttum skattalögum, sem vissulega var mikið og erfitt átak fyrir starfslið skattkerfisins, verður nú hafist handa um að undirbúa staðgreiðslu skatta. Ríkisskattstjóri hefur fengið leyfi frá störfum næstu mánuði til að undirbúa tillögur um staðgreiðslukerfi á grundvelli fyrirliggjandi gagna, og er það von mín að frv. um staðgreiðslukerfi verði samþykkt hér á Alþingi í vetur. Þó er þess ekki að vænta, að staðgreiðsla skatta eða svonefndur samtímaskattur geti komið til framkvæmda fyrr en tveimur árum eftir að Alþingi hefur tekið ákvörðun.

Söluskattur er langstærsti tekjustofn ríkissjóðs eða um 36% teknanna, en gjöld af innflutningi standa fyrir um fjórðungi af tekjum ríkissjóðs. Tollar, vörugjald og önnur innflutningsgjöld eru því talsvert meiri byrði á skattgreiðendum en allir beinir skattar, þ.e. samanlagðir tekjuskattar og eignarskattar. Óneitanlega er margfalt meira kvartað yfir beinum sköttum. En staðreyndin er áreiðanlega sú, að gjöld af innflutningi ráðast af miklu tilviljunarkenndari og órökréttari reglum en beinir skattar. Tollalöggjöfin er hinn mesti frumskógur og erfitt að rökstyðja þann mikla mun á skattlagningu sem þar er að finna milli einstakra vörutegunda, ekki síst þar sem vörugjald hleðst ofan á hæstu tolla. Ein vörutegund ber 130% gjöld, kannske 160 eða 170% gjöld, önnur vörutegund ber engin gjöld.

Eitt dæmi skal nefnt. Sá sem hefur efni á því að kaupa sér flugvél til að leika sér á um helgar, hann borgar engin gjöld af þessu leikfangi sínu, hvorki toll, vörugjald né söluskatt. Sama gildir um eldsneytið, flugvélabensín er langtum ódýrara en venjulegt bensín. Auk þess leikur grunur á að stundum sé það notað á bifreiðar. En sá, sem kaupir jafnbráðnauðsynlegt tæki í nútímaþjóðfélagi og ísskáp eða hnífapör, borgar 80% toll, 24% vörugjald og 231/2% söluskatt, eða samtals um 175% gjöld. Líklega er þetta aumasta svið íslenskra skattamála hvað mismunun varðar, ef betur er að gáð. Aðflutningsgjöldin eru nú í endurskoðun í nefnd sem fjmrn. skipaði nýlega til að einfalda og samræma gjöld af innflutningi. Það er löngu orðið tímabært að stokka upp þessi mál, en viðfangsefnið er flókið og margþætt og því ekki að vænta niðurstöðu fyrr en að nokkrum mánuðum liðnum.

Munurinn á aðhaldi og aðhaldsleysi í ríkisrekstri jafnast vissulega á við digra tekjustofna. Ég býst við að flestir fjármálaráðherrar hafi beitt talsverðri hörku við gerð fjárlagafrv. enda óhjákvæmilegt, því að langflestar stofnanir ríkisins hafa mjög eindregna tilhneigingu til að þenjast út og breiða úr sér. Enda þótt þjóðin sé smá eru viðfangsefni ríkisstofnana oft litlu minni en viðfangsefni sambærilegra stofnana í öðum löndum. Flestar stofnanir eiga því auðvelt með að rökstyðja verulega fjölgun starfsmanna. Við gerð þessa fjárlagafrv. hefur þó verið fylgt þeirri meginreglu að samþykkja ekki nýjar stöður á vegum ríkisins nema í algerum undantekningartilvikum og eftir ítarlega röksemdafærslu ráðuneyta. Fjölgun ríkisstarfsmanna er fyrst og fremst tengd nýjum lögbundnum viðfangsefnum og nýjum stofnunum sem Alþingi hefur tekið ákvörðun um. Sem dæmi má nefna geðdeild Landspítalans, stofnanir afbrigðilegra barna og afleysingaþjónustu bænda. Það heyrir til undantekninga, að stofnanir fái meiri hækkanir en sem nemur áætluðum verðlagsbreytingum, ef ekki er um fjölgun starfsmanna að ræða. Þó er ljóst að miklar olíuverðshækkanir auka rekstrarkostnað stofnana umfram almennar verðlagshækkanir í allmörgum tilvikum og stundum verður að fylla í skörð þar sem þessi kostnaður hefur verið áberandi vanáætlaður á undanförnum árum.

Sú skoðun kom fram í leiðara eins dagblaðsins skömmu eftir að fjárlagafrv. var lagt fram, að við fjárlagagerð væru beiðnir ríkisstofnana skornar niður um 20–30% og þar sem beiðnirnar væru úr hófi fram væri ekki að undra að fjárlög hækkuðu mikið milli ára þegar beitt væri sjálfvirkum reikniaðferðum af þessu tagi. Hér er mikill misskilningur á ferð. Óbreytt starfsemi stofnana og aukið aðhald er sá grundvöllur sem byggt er á við fjárlagagerðina. Almennt gildir að þeim mun óhóflegri kröfur sem gerðar eru um fjölgun starfsmanna eða aukningu rekstrarútgjalda, því minna mark er tekið á tillögum stofnunar. Óhætt er að fullyrða að frv. felur í sér hundruð aðhaldsaðgerða sem starfsmenn fjárlaga- og hagsýslustofnunar hafa gert tillögur um að athuguðu máli, án þess að þess sé sérstaklega getið í grg. frv.

Vonir stóðu til, þegar fjárlagafrv. fór í prentun í byrjun septembermánaðar, að unnt yrði að ljúka við gerð lánsfjáráætlunar í síðari hluta september og fyrri hluta októbermánaðar. Í fjárlagafrv. er þegar kominn fram sá þáttur lánsfjáráætlunar sem varðar lántökur ríkissjóðs og ríkisstofnana. Hins vegar er þá eftir að móta tillögur um lántökur sveitarfélaga og stofnana sem ríki og sveitarfélög reka sameiginlega. Jafnframt gerir Framkvæmdastofnun fyrstu tillögur um útlán fjárfestingarsjóða, og Seðlabankinn setur fram áætlanir um erlendar lántökur einkaaðila og undirbýr tillögur um innlenda lánsfjáröflun. Því miður virðast því takmörk sett, hve snemma er unnt að gera áætlanir af þessu tagi, og er það sennilega afleiðing af margvíslegri óvissu sem mikil verðbólga veldur. Nú fyrst í þessari viku fékk ég í hendur fyrstu gögn og tillögur frá Seðlabanka og Framkvæmdastofnun varðandi lánsfjáráætlun fyrir næsta ár. Mér er kunnugt um að mikið hefur verið unnið í þessum málum undanfarnar vikur, og má gera ráð fyrir að unnt verði að leggja fram lánsfjáráætlun og frv. til lánsfjárlaga síðar í þessum mánuði.

Eftir að hafa gert hér grein fyrir nokkrum meginatriðum í efnahagsmálum og fjármálum ríkisins vil ég víkja nánar að þróun efnahagsmála á þessu ári og þjóðhagshorfum á árinu 1981.

Efnahagsframvindan á árinu 1980 hefur mjög mótast af olíuverðshækkuninni í heiminum á s.l. ári og þeirri viðskiptakjararýrnun sem þjóðarbúið hefur orðið fyrir af þeim sökum. Líklegt er að þjóðarframleiðslan vaxi um eða yfir 1% á árinu 1980. Þróun viðskiptakjara það sem af er árinu bendir til þess, að þau rýrni um 5% og að þjóðartekjur dragist saman um 1% í heild eða 2% á mann.

Fyrir árið 1981 benda niðurstöður þjóðhagsáætlunar til að þjóðarframleiðslan vaxi um rúmlega 1% eða svipað og á þessu ári.

Nú má ætla að sjávarafurðaframleiðsla aukist um 3–4% á þessu ári. Þorskaflinn verður líklega 380–400 þús. tonn samanborið við 360 þús. tonn í fyrra, en loðnuafli í ár verður hins vegar mun minni en í fyrra.

Útflutningur annarra afurða en sjávarafurða hefur yfirleitt gengið vel á árinu 1980 og verður þar um talsverða aukningu að ræða nema í útflutningi landbúnaðarafurða sem verður minni en í fyrra. Að öllu samanlögðu virðist mega gera ráð fyrir 5–6% aukningu útflutningsframleiðslunnar á árinu og svipaðri aukningu útflutnings.

Spá um útflutning á árinu 1981 verður einkum að reisa á ákveðnum forsendum um afla úr mikilvægustu fiskstofnum, bæði með tilliti til skynsamlegrar nýtingar stofnanna á næstu árum og með hliðsjón af útliti á helstu mörkuðum fyrir fiskafurðir. Reiknað er með að heildarframleiðsla sjávarafurða verði óbreytt milli 1980 og 1981. Óvissa er þó mikil um loðnuveiðar.

Um aðra framleiðslu til útflutnings en sjávarafurðaframleiðslu á árinu 1981 er helst að nefna að síðari áfanga járnblendiverksmiðjunnar er nú að ljúka og verksmiðjan að komast í full afköst. Horfur fyrir útflutning á öðrum iðnaðarvörum á næsta ári virðast nokkuð góðar, en búist er við frekari samdrætti í útflutningi landbúnaðarafurða. Þegar á heildina er litið er reiknað með nær 3–4% aukningu útflutningsframleiðslunnar á næsta ári.

Sá þáttur utanríkisviðskiptanna, sem mestum áhyggjum veldur, er þróun viðskiptakjara.

Viðskiptakjörin bötnuðu heldur frá fyrsta til annars ársfjórðungs þessa árs, en líklegt er að þau versni á síðari hluta ársins vegna verðlækkunar á frystiafurðum um mitt ár. Við upphaf árs 1980 var olíuverð ákaflega hátt, verðið lækkaði síðan fram eftir ári, en í september s.l. rauk olíuverð upp á ný. Þessar síðustu verðhækkunar mun þó ekki gæta mikið í innflutningstölum þessa árs, en gæti haft áhrif á næsta ári. Þegar öllu er á botninn hvolft er áætlað að olíuverðið verði rúmlega 20% hærra 1980 en í fyrra. Annað innflutningsverð hækkar líklega um rúmlega 10% og samtals yrði hækkun innflutningsverðs þá 12–14% í erlendri mynt talið. Útflutningsverð hækkar hins vegar aðeins um 7%, eins og nú horfir, og á þessum forsendum rýrna viðskiptakjörin um 5% frá fyrra ári. Í þjóðhagsáætlun fyrir 1981 er gert ráð fyrir að hækkun olíuverðs verði svipuð og á öðrum innflutningi eða um 7–8% í erlendri mynt milli áranna 1980 og 1981. Aftur á móti er reiknað með að útflutningsverð hækki heldur minna en innflutningsverð á næsta ári eða um 6%. Það þýðir 1–2% rýrnun viðskiptakjara á næsta ári samanborið við 5% rýrnun í ár og 9% rýrnun á síðasta ári, eða samtals 15% á þremur árum. Ítrekað skal að spáin fyrir næsta ár er reist á mörgum ótryggum forsendum, en þegar á heildina er litið virðast ekki líkur á bættum viðskiptakjörum á næsta ári.

Það sem af er árinu 1980 hefur vöruinnflutningur verið meiri en búast mátti við á grundvelli fyrri spáa um þjóðarútgjöld. Tölur fyrir júlí, ágúst og september benda þó til þess, að verulega sé farið að draga úr innflutningsaukningunni. Samt sem áður er útlit fyrir 6 milljarða króna halla á vöruskiptajöfnuði samanborið við 12 milljarða afgang í fyrra, að vísu á gengi ársins 1980. Breytingin frá síðasta ári stafar fyrst og fremst af rýrnun viðskiptakjaranna, en einnig af óvenjumiklum flugvélakaupum á þessu ári. Hækkun olíuverðs á þessu ári umfram verðbreytingu annars innflutnings hækkar olíureikning þjóðarbúsins um 7 milljarða kr. Flugvélakaup nema í ár rúmum 11 milljörðum kr., en námu innan við 1 milljarð á síðasta ári, en á móti þessu vegur að einhverju leyti minni skipainnflutningur á þessu ári.

Að því er þjónustujöfnuðinn snertir er vart að búast við minni halla en 40 milljörðum kr. Í fyrra nam hallinn 11 milljörðum kr. reiknað á gengi ársins 1980. Meginástæður aukins halla á þjónustujöfnuði eru erfiðleikar í rekstri Flugleiða, miklar kostnaðarhækkanir í allri samgöngustarfsemi svo og auknar vaxtagreiðslur.

Innstreymi erlends fjármagns, einkum erlendra lána umfram afborganir, mun jafna viðskiptahallann nokkurn veginn, þannig að ekki er útlit fyrir umtalsverða breytingu gjaldeyrisstöðunnar.

Gert er ráð fyrir nokkrum samdrætti vöruinnflutnings á árinu 1981 ef verðhlutföll milli innflutnings og innlendrar framleiðslu breytast ekki í þá átt að ýta undir innflutning. Samdrátturinn verður einkum í innflutningi skipa og flugvéla og innflutningi til stóriðjuframkvæmda, en almennur vöruinnflutningur gæti aukist lítilsháttar. Í heild er gert ráð fyrir 1–2% minnkun vöruinnflutnings á föstu verðlagi. Vöruútflutningur er talinn aukast um nær 4% á næsta ári, eins og áður var getið um. Að óbreyttum viðskiptakjörum fæli þetta í sér 22 milljarða kr. afgang á vöruskiptajöfnuði, en vegna rýrnandi viðskiptakjara er spáð 16 milljarða afgangi.

Að því er þjónustujöfnuð varðar er fátt sem bendir til þess að hann breytist mikið á næsta ári. Það fer þó mjög eftir því, hvernig rekstur samgöngugreina gengur og þá einkum rekstur Flugleiða.

Vaxtagreiðslur af erlendum lánum munu heldur aukast, en vaxtaþróun á erlendum fjármagnsmarkaði skiptir þó ekki minna máli. Ekki eru líkur á að umtalsverðar breytingar verði á öðrum liðum þjónustureiknings. Þetta fæli í sér 56 milljarða halla á þjónustujöfnuði á næsta ári. Samtals yrði viðskiptahallinn þá um 40 milljarðar kr. á árinu 1981 á verðlagi ársins 1980 eða rúmlega 2% af þjóðarframleiðslu. Til samanburðar verður viðskiptahallinn miðað við spár á árinu 1980 um 46 milljarðar kr. eða um 31/2% af þjóðarframleiðslu, en hallinn var um 7 milljarðar kr. eða tæplega 1% af þjóðarframleiðslu 1979 og hefur sannarlega oft verið miklu meiri.

Þróun kaupmáttar kauptaxta gefur tilefni til að ætla að samdráttur verði á einkaneyslu í ár. Fyrstu níu mánuði ársins var kaupmáttur taxtakaups 5% minni en ársmeðaltalið 1979, og stafar það einkum af áhrifum versnandi viðskiptakjara á verðbótavísitölu. Kaupmáttur tekna hefur þó að líkindum rýrnað minna, ef marka má reynslu undanfarinna ára. Verðbætur á laun hafa hækkað þrisvar á árinu, um 6.7% í mars, 11.7% 1. júní og 8.6% 1. september. Hækkunin hefur í hvert sinn verið minni en hækkun framfærsluvísitölu undangengna 3 mánuði, ýmist vegna áhrifa viðskiptakjara eða vegna annarra frádráttarliða við útreikning verðbótavísitölu, hækkunar á launalið í búvörugrundvelli og á áfengis- og tóbaksverði. Frá nóvember 1979 til ágúst mánaðar 1980 hækkaði framfærsluvísitalan um 36%, en kauptaxtar hækkuðu um 29.5% samtals í mars, júní og september. Atvinnuástand hefur verið gott víðast hvar á landinu og mikil eftirspurn virðist vera eftir fólki í vinnu. Kaupmáttur ráðstöfunartekna í heild gæti minnkað um 3–4% milli áranna 1979 og 1980. Ætla mætti að slíkri rýrnun kaupmáttar fylgdi svipaður samdráttur einkaneyslu. Útgjaldatölur benda þó til þess, að samdrátturinn verði mun minni.

Að svo stöddu virðist líklegast, að aðeins verði um lítils háttar samdrátt einkaneyslu að ræða á þessu ári, ef til vill aðeins um 1%. Að því er samneyslu varðar, er áfram gert ráð fyrir 2% aukningu á þessu ári.

Heildarfjármunamyndun samkvæmt þjóðhagsreikningum er talin aukast um nær 81/2% á föstu verðlagi á árinu 1980. Fjármunamyndun atvinnuveganna eykst um 6%, en vegna mikilla framkvæmda á sviði orkumála aukast opinberar framkvæmdir um rúmlega 20%. Þá er gert ráð fyrir um 3% samdrætti í íbúðarbyggingum. Samkvæmt þessari spá verður fjármunamyndunin nær 27% af þjóðarframleiðslu.

Þróun peningamála hefur að undanförnu verið óhagstæð. Afar mikil útlán hafa valdið peningaþenslu þrátt fyrir batnandi stöðu ríkissjóðs. Á hinn bóginn hafa gjaldeyrisviðskipti dregið úr peningamyndun. Útlán banka og sparisjóða hafa aukist mun meira á þessu ári en í fyrra. Frá ársbyrjun til ágústloka jukust útlán um rúma 94 milljarða króna eða um 42%, en hins vegar um tæplega 34% á sama tímabili í fyrra. Að frádregnum afurðalánavíxlum, sem Seðlabankinn endurkaupir, hafa útlán aukist um rúmlega 79 milljarða króna miðað við 45 milljarða á sama tíma í fyrra og er það nær 48%, sem er verulega mikið umfram almenna verðhækkun frá áramótum til ágústloka. Mikil aukning útlána annars vegar, en hægari aukning innlána hins vegar hefur orðið til þess, að lausafjárstaða bankanna hefur versnað mjög á árinu. Hér ber að hafa í huga að á undanförnum árum hefur staða bankanna yfirleitt verið tiltölulega erfið um þetta leyti árs, en batnað á síðustu mánuðum ársins.

Um miðjan september var gripið til ýmissa aðgerða til þess að reyna að draga úr útlánsaukningu banka og sparisjóða á næstu mánuðum. Þótt þetta takist er ljóst að þróun útlána hefur það sem af er árinu unnið á móti því markmiði að framvinda peningamála stuðlaði að hjöðnun verðbólgu.

Það, sem hér hefur verið sagt um nokkra þætti þjóðarbúskaparins, felur í sér að í heild vaxi þjóðarútgjöld um 11/2–2% að raungildi á þessu ári. Þetta er heldur minni aukning en var í fyrra.

Stefnt er að því, að á árinu 1981 verði fjárfesting um fjórðungur þjóðarframleiðslu. Innflutningur skipa og flugvéla gæti orðið um 60% minni að raunverulegu verðgildi á næsta ári en á þessu ári, ef eingöngu er miðað við þau áform um kaup, sem nú eru þekkt. Framkvæmdum við járnblendiverksmiðjuna lýkur að mestu á þessu ári og sama gildir um stækkun átverksmiðjunnar, en þar verður áfram unnið við uppsetningu hreinsitækja á næsta ári. Líklegt er að opinberar framkvæmdir verði heldur meiri á næsta ári en á þessu ári. Aukningin verður fyrst og fremst í orkuframkvæmdum. Aftur á móti má búast við að fjárfesting atvinnuveganna verði heldur minni á árinu 1981 en á þessu ári. Meðal annars má gera ráð fyrir samdrætti í framkvæmdum í landbúnaði og ef til vill fleiri greinum, en fjárfesting í iðnaði mun líklega aukast, m.a. vegna framkvæmda við Áburðarverksmiðjuna. Forsendur þjóðhagsáætlunar um neyslu og fjárfestingu fela í sér að þjóðarútgjöld dragist lítillega saman á næsta ári eð um 0.7%.

Niðurstöður þjóðhagsáætlunar fyrir árið 1981 benda til að þjóðarframleiðslan vaxi um rúmlega 1% eða svipað og á þessu ári. Vegna versnandi viðskiptakjara verður aukning þjóðartekna þó heldur minni eða rúmlega 1/2%, eins og áður sagði.

Væntanleg aukning þjóðarframleiðslu, sem fram kemur í þjóðhagsáætlun ársins 1981, er svipuð og nemur áætlaðri fjölgun á vinnumarkaði. Því virðist ekki hætta á að atvinnuástand breytist að marki frá því sem verið hefur á líðandi ári. Þó gæti dregið heldur úr þeirri spennu eftirspurnar, sem sums staðar hefur ríkt á vinnumarkaði að undanförnu, en í grófum dráttum má segja að eðlilegt jafnvægi ríki á vinnumarkaði.

Um samneysluna er í þjóðhagsáætlun notuð sama forsenda og um einkaneyslu, að hún vaxi um 1% á næsta ári. Þessi forsenda er reist á mati á útgjaldatölum fjárlagafrv. fyrir árið 1981, en lítið er vitað um fyrirætlanir sveitarfélaga.

Venja er að gera í fjárlagaræðu grein fyrir afkomu ríkissjóðs undangengins árs. Þar sem síðasta fjárlagaræða var á óvenjulegum tíma, þ.e. í marsmánuði s.l., var þá gerð grein fyrir afkomu ríkissjóðs árið 1979 í þeirri ræðu og er ástæðulaust að endurtaka það hér.

Afkoma ríkissjóðs hefur verið mun betri það sem af er þessu ári en á sama tíma undanfarin ár, eins og ég hef þegar nefnt; og mun ég nú víkja nánar að þessu mikilvæga atriði.

Mesta breytingin kemur fram í þróun tekna og gjalda í A-hluta fjárlaga og má þar glöggt sjá mikinn bata í ríkisfjármálum. Ríkissjóður var hallalaus í janúar, en í febrúar og maí var töluverður afgangur og mikill afgangur í ágúst. Aðra mánuði hefur verið halli og frá áramótum hefur hallinn orðið mestur rúmlega 8 milljarðar kr. í júlílok og var það um 4.4% af tekjum ríkissjóðs fyrstu sjö mánuði ársins. Á sama tíma í fyrra var hallinn 17.8 milljarðar kr. eða 15.7% af tekjum. Í ágústmánuði var um 6 milljarða afgangur hjá ríkissjóði og er það svipuð útkoma og í ágúst í fyrra. Frá áramótum til ágústloka voru gjöld um 2 milljarðar kr. umfram tekjur, en rúmlega 11 milljarðar í fyrra eða 18 milljarðar á verðlagi þessa árs.

Eins og ég hef þegar bent á hafa tekjur á þessu tímabili aukist um tæplega 61% miðað við sama tíma í fyrra, en gjöld hafa aukist um nær 50%. Hins vegar hefur verðlag á sama tíma hækkað um 58% miðað við verðlagshækkanir á sama tíma árinu áður. Þessi tala gæti óneitanlega valdið svolitlum misskilningi vegna þess að ég hef margsagt það hér, að verðlagshækkun frá ársbyrjun til ágústloka hafi út af fyrir sig verið innan við 40%, og ekki reiknað með, að verðlagshækkunin frá ársbyrjun til ársloka verði nema rétt liðlega 50%. En hér er ég að segja, að meðalverðlagshækkunin á fyrstu 8 mánuðum ársins í samanburði við meðaltal fyrstu 8 mánaðanna í fyrra, sem er allt önnur viðmiðun, eins og menn skilja, — þessi hækkun nemi 58%. Og það er auðvitað eðlilegt að bera þessa hækkun, þ.e. meðalverðlagshækkunina á fyrstu 8 mánuðunum í samanburði við meðalverðlagshækkunina í fyrra, saman við aukningu tekna ríkissjóðs og aukningu útgjalda ríkissjóðs á sama tíma.

En þessi samanburður, sem ég hef nú nefnt, tekjurnar aukast um 61%, gjöldin um 50%, en verðlagið um 58%, — þessar tölur sýna að það vegur þyngst í þessu að útgjaldahækkunin er miklu minni en verðlagshækkunin. Ástæðan er margvíslegar sparnaðarráðstafanir á þessu ári, hlutfallslega lægri framlög til fjárfestingarlánasjóða, lægri niðurgreiðslur o.fl.

Ef litið er á greiðsluafkomu A-hluta ríkissjóðs án lánahreyfinga við Seðlabanka er munurinn á framvindunni nú og í fyrra heldur minni en á tekjum og gjöldum. Í ágústlok var greiðsluhalli frá áramótum 3.4 milljarðar kr., en 7.5 milljarðar í fyrra eða tæpir 12 milljarðar á verðlagi þessa árs.

Í fjárlögum ársins var gert ráð fyrir að tekjur umfram gjöld yrðu um 3 milljarðar kr. og greiðsluafgangur um 91/2 milljarður kr. og yrði hann að mestu notaður til þess að greiða niður skuld ríkissjóðs við Seðlabankann. Að sjálfsögðu fara tekjur og gjöld talsvert fram úr tölum fjárlaga vegna meiri verðlagshækkana en reiknað var með.

Enn er of snemmt að segja til um endanlega afkomu ríkissjóðs á þessu ári því að óvissa ríkir um niðurstöður álagningar opinberra gjalda frá því í sumar, og þetta á einkum við um skattlagningu fyrirtækja og félaga, en flest bendir til þess, að fjárlög þau, sem samþykkt voru á s.l. vetri, hafi verið raunhæfari en verið hefur nú um skeið. Fyrirliggjandi áætlanir benda til þess, að innheimtar tekjur ríkissjóðs á árinu 1980 muni nema um 372 milljörðum kr. og að útgjöldin nemi svipaðri upphæð. Þar sem innstreymi og útstreymi á lánahreyfingum er nær því hið sama, að teknu tilliti til greiðslunnar til Seðlabankans, má vænta þess, að ríkissjóður verði nokkurn veginn í jafnvægi bæði í rekstrarlegu og greiðslulegu tilliti.

Samkvæmt 1. gr. fjárlagafrv. fyrir árið 1981 er mismunur heildartekna og heildarútgjalda um 7.1 milljarður kr. Heildartekjur nema alls 533.6 milljörðum kr. samkv. frv. Beinir skattar, þ.e. tekjuskattur og eignarskattur, eru áætlaðir 91.6 milljarðar kr. eða 17.2% af heildartekjum.

Óbeinir skattar eru áættaðir 431.4 milljarðar kr. eða 80.8% af tekjum ríkissjóðs. Aðrar tekjur ríkissjóðs eru áætlaðar 10.6 milljarðar kr. eða 2% af heildartekjum.

Heildarskattbyrði vegna skattheimtu ríkissjóðs er samkvæmt þessu um 28.5% af áætlaðri vergri þjóðarframleiðslu, og er það sama hlutfall og á þessu ári.

Tekjuáætlun frv. er reist á þeim forsendum að kauplag og verðlag hækki að meðaltali um 42% milli áranna 1980 og 1981. Ekki er reiknað með meiri háttar tollabreytingum á árinu, enda kom síðasti tollalækkunaráfangi skv. samningum Íslands við EBE og EFTA til framkvæmda 1. janúar 1980.

Heildargjöld ríkissjóðs eru alls 526.5 milljarðar kr. Af þessari fjárhæð renna um 214.2 milljarðar kr. til samneyslu, 87.6 milljarðar til framkvæmda og til framkvæmdasjóða og um 244.7 milljarðar króna til neyslu og rekstrartilfærslna.

Í 1. gr. frv. kemur fram að heildarlánsfjáröflun nemur 63 milljörðum kr. Þar af renna um 38.3 milljarðar kr. til B-hluta fyrirtækja og sjóða, en 19.7 milljarðar kr. er lántaka vegna A-hluta frv. Af heildarlántökum eru um 28.8 milljarðar kr. innlend uppspretta lánsfjár, en um 35 milljarðar kr. eru fyrirhugaðar erlendar lántökur.

Það skal tekið fram, að hér er aðeins um lántökur að ræða til A- og B-hlutaframkvæmda. Við framlagningu fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar verður nánar fjallað um heildarfjármunamyndun í þjóðfélaginu og fjármögnun hennar. Endanleg skipting innlends og erlends fjármagns milli fjárfestingaraðila hefur ekki verið tekin. Þar af leiðandi geta orðið talsverðar breytingar á, hve mikið af fjármunamyndun ríkisins verður fjármagnað með erlendu lánsfé og hve mikið verður fjármagnað með innlendu fé. Að því er snertir erlendar lántökur skiptir ekki öllu máli hvort lánin eru notuð til að fjármagna ríkisframkvæmdir eða framkvæmdir annarra aðila. Í þessu sambandi skiptir miklu meira máli erlend skuldasetning þjóðarbúsins í heild.

Lánagreiðslur A-hluta frv. umfram lántökur nema alls um 2 milljörðum kr. Innifalið í útstreymi á lánahreyfingum, sem er alls 21.9 milljarðar kr., er afborgun lána til Seðlabanka Íslands að fjárhæð 10 milljarðar kr.

Í frv. er að því stefnt, að endurgreiðslur lána í A-hluta ríkissjóðs nemi 2 milljörðum kr. umfram lántökur. Lánsfjármál taka vaxandi rými í fjárlögum og má í því sambandi nefna að afborganir af lánum eru alls áætlaðar 21.5 milljarðar kr. og vaxtagreiðslur 19.6 milljarðar kr., eða alls 41.1 milljarðar króna, og eru þá ótaldir vextir og afborganir B-hluta fyrirtækja.

Frv., eins og það nú liggur fyrir, er með um 3,8 milljarða kr. greiðsluafgangi.

Tekjuáætlun ríkissjóðs fyrir árið 1981 er að venju reist í fyrsta lagi á endurskoðaðri áætlun um tekjur ríkissjóðs á líðandi ári, í öðru lagi á ákveðnum þjóðhags- og verðlagsforsendum og í þriðja lagi á ákveðnum forsendum um einstaka tekjuliði. Ég hef hér á undan fjallað um almennar forsendur frv. og fyrirvara um leiðir til tekjuöflunar.

Áætlanir um helstu stofna óbeinna skatta eru miðaðar við að velta aukist um 1.3% að raungildi frá fyrra ári. Í áætlun um aðflutningsgjöld er gert ráð fyrir 1.5% aukningu almenns vöruinnflutnings og að innflutningsverð hækki um 8% í erlendri mynt, en 42% í krónum. Ekki er reiknað með meiri háttar tollabreytingum á árinu, eins og áður hefur verið nefnt. Því er reiknað með óbreyttri samsetningu innflutnings frá þessu ári að öðru leyti en því, að gert er ráð fyrir nokkrum samdrætti í innflutningi bíla og olíu eins og nánar er vikið að í athugasemdum um tekjuáætlun frv. Innheimtar tekjur ríkissjóðs á árinu 1981 eru áætlaðar samtals 533,6 milljarðar kr. samanborið við 371.9 milljarða í áætlun fyrir árið 1980. Samkvæmt þessu aukast tekjur um 181,7 milljarða eða 48.9% frá áætlaðri niðurstöðu í ár, en frá fjárlögum nemur aukningin rösklega 52%. Tekjur ríkissjóðs sem hlutfall af þjóðarframleiðslu verða á næsta ári um 28.5% eða áþekkt hlutfall og horfur eru á að það verði í ár.

Alls er í áætluninni talið að innheimta tekju- og eignarskatts nemi 1981 um 91.6 milljörðum kr. samanborið við 64.6% milljarða kr. 1980.

Hvað varðar skattvísitölu, sem ákvarðar breytingar frádráttarliða, skattstiga, persónuafsláttar og barnabóta, er gert ráð fyrir að hún verði ákveðin 145 stig, en jafnframt að gerðar verði breytingar á tekjuskattslögum, eins og áður kom fram. Samkvæmt þessu og í samræmi við meginforsendur frv. um launabreytingar 1980–1981 er gert ráð fyrir að álagning tekjuskatts einstaklinga hækki um 42% frá árinu 1980 til ársins 1981, en að auki er reiknað með að framteljendum fjölgi um 1%. Fjölmörg atriði, sem tengjast tekju- og eignarsköttum, þarf að athuga áður en til afgreiðslu fjárlaga kemur. Þessi mál eru nú í vinnslu, eins og ég gat um í upphafi máls míns.

Almennar tolltekjur ríkissjóðs eru áætlaðar 46 milljarðar kr. á árinu 1980 og er það tæpum 6.7 milljörðum meira en í fjárlagaáætlun. Innflutningur hefur reynst meiri en reiknað var með í fjárlagaforsendum, einkum fyrstu mánuði ársins, og tollhlutfall einnig verið hærra en búist var við. Í fjárlögum 1980 var reiknað með að tollhlutfall almenns vöruinnflutnings lækkaði töluvert á árinu, bæði vegna tollalækkunar í ársbyrjun og þar sem búist var við að rýrnandi kaupmáttur ylli samdrætti í kaupum hátollavöru.

Í áætlun fyrir 1981 er talið að almennur vöruinnflutningur aukist um 1–11/2% að raungildi frá líðandi ári. Jöfnunargjald og aðlögunargjald á innfluttar iðnaðarvörur eru talin skila 3 800 millj. kr. tekjum á þessu ári. Bæði þessi gjöld falla úr gildi um n.k. áramót að óbreyttum lögum. Jöfnunargjald verður væntanlega framlengt óbreytt, en óvissa er enn um aðlögunargjald. Hér er reiknað með samtals 5 400 millj. kr. tekjum af þessum gjöldum, þar sem ljóst er að önnur tekjuöflun kemur í stað aðlögunargjalds, ef það fellur niður. Með brbl. nr. 66/1980 var kveðið á um álagningu sérstaks tímabundins innflutningsgjalds á sælgæti og kex. Innflutningur sælgætis hefur aukist afar mikið á þessu ári eftir að þessi vöruflokkur var tekinn á frílista í ársbyrjun, og erfitt er að sjá fyrir hvaða áhrif hið nýja innflutningsgjald kann að hafa á eftirspurn. Miðað við að töluvert dragi úr innflutningi þessarar vöru er innflutningsgjaldið áætlað 300 millj. kr. á árinu 1980 en 1 200 millj. kr. á árinu 1981.

Í fjárlögum ársins 1981 voru heildartekjur af seldri vöru og þjónustu áætlaðar um 171 milljarður kr., en nú eru horfur á að þær nemi um 181,7 milljörðum eða 8% umfram fjárlagatöluna. Stafar þessi hækkun af örari veltubreytingum en reiknað var með við afgreiðslu fjárlaga. Áætlun um söluskatt á árinu 1981 ræðst af þeim forsendum um kauplag, verðlag og þjóðarútgjöld sem áður er getið. Innheimtur söluskattur er áætlaður 176 milljarðar kr. eða rösklega 44% hærri en á þessu ári. Þetta er 33% af heildartekjum ríkissjóðs og er það svipað hlutfall og á þessu ári, að því er ætlað er. Hér er eingöngu um að ræða hlut ríkissjóðs í hinu almenna 20% sölugjaldi auk 2% söluskattsaukans, sem er óskiptur. Hlutur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, 8% af almenna sölugjaldinu, er ekki meðtalinn, en hann er áætlaður 13,8 milljarðar kr. 1981. Með lögum nr. 12/1980 var ákveðið að leggja skyldi 11/2% orkujöfnunargjald á söluskattsstofn og gjaldið skyldi renna óskipt í ríkissjóð. Tekjur af þessu gjaldi eru áætlaðar 6 200 millj. kr. 1980 og 13 000 millj. kr. á árinu 1981. Gjald á söluskattsstofn er því orðið 231/2% og eru tekjur ríkissjóðs af því áætlaðar samtals 189 milljarðar kr. á árinu 1981 og er það rösklega 35% af heildartekjum.

Heildarútgjöld ríkissjóðs á rekstrarreikningi á árinu 1981 eru áættuð 526 515 millj. kr. og nemur hækkunin um 183.275 millj. kr. frá fjárlögum fyrir árið 1980 og er það hækkun um 53.4%.

Eins og í frv. til fjárlaga fyrir árið 1980 var launaliður einstakra stofnana tilgreindur miðað við kauplag í upphafi fjárlagaárs. Kjarasamningur ríkisins við BSRB var undirritaður skömmu áður en gengið var frá þessu frv. Ljóst er að samningur þessi kostar ríkissjóð á bilinu 4–4,5 milljarða kr. á árinu 1981 og er áætlað fyrir þeirri fjárhæð á sérstökum lið fjmrn., auk 21 milljarðs kr., til þess að mæta hækkun launa vegna verðbóta, miðað við 42% launabreytingu frá miðju þessu ári til miðs næsta árs.

Í heild nemur launakostnaður rúmum 155 milljörðum kr., sem er rúmlega 61% hækkun frá fjárlögum 1980. Launaáætlun fjárlaga 1980 var miðuð við að laun hækkuðu á árinu 1980 í samræmi við áætlaðar verðbreytingar. Hækkun þessi jafngilti um 14% á árinu og voru 11 900 millj. kr. áætlaðar á sérstökum lið til að mæta henni. Nú er ljóst að verðbótahækkun launa verður nokkru meiri á árinu 1980 eða um 21–22% að meðaltali. Hækkun launataxta opinberra starfsmanna frá áramótum 1979/1980 til næstu áramóta nemur 42.9% að frátöldum áhrifum nýafstaðinna kjarasamninga. Það er sú hækkun sem notuð er til viðmiðunar við hækkun launa einstakra stofnana, þar sem laun á einstökum stofnunum eru tilgreind í fjárlagafrv. á verðlagi í lok árs 1980. Á hliðstæðan hátt voru laun tilgreind í fjárlögum 1980.

Hækkun launaliðar frv., að frádreginni þeirri fjárhæð sem ættuð er til að mæta launahækkun á fjárlagaárinu 1981, nemur 53.6%. Þetta er meiri hækkun en hækkun almennra launataxta gefur tilefni til, en það er 42.9%, eins og áður sagði. Hækkun umfram launataxta skýrist í megindráttum af eftirfarandi fjórum þáttum:

1. Alls nemur hækkun launaliðarins um 1 500 millj. kr. vegna stöðufjölgunar sem tengist nýrri starfsemi og framkvæmd gildandi laga. Þar af eru 805 millj. kr. vegna stöðufjölgunar á ríkisspítölum og heilsugæslustöðvum, 44 millj. kr. vegna aðstoðar við þroskahefta, 172 millj. kr. vegna forfalla- og afleysingaþjónustu í sveitum, 25 millj. kr. vegna Vinnueftirlits ríkisins, 149 millj. kr. vegna stofnana afbrigðilegra barna, 22 millj. kr. vegna stöðufjölgunar í Heyrnleysingjaskólanum og 283 millj kr. vegna ýmissar annarrar starfsemi.

2. Nokkrir veigamiklir útgjaldaþættir eru færðir til í frv. og hækka þar af leiðandi launalið frv. Þar vegur þyngst að flugmálastjórn er nú gerð að A-hlutastofnun færð úr A-hluta í B-hluta, og er launaliður þeirrar stofnunar 1 777 millj. kr. Alls má rekja um 2 600 millj. kr. til tilfærslu verkefna á launalið.

3. Með hliðsjón af þróun launaliðar fjárlaga 1979 og 1980 hefur þótt nauðsynlegt að leiðrétta launagrunn nokkurra stofnana. Í þessu tilliti vega langþyngst yfirvinna og álagsgreiðslur á ríkisspítölum, en alls nema útgjöld umfram taxtabreytingar vegna þessa um 900 millj. kr. Launaliður grunnskóla fór allverulega fram úr fjárlögum 1979 og horfur eru á að svo verði einnig 1980. Leiðrétting á grunni skótanna auk nokkurrar magnbreytingar hefur í för með sér um 800 millj. kr. viðbótarútgjöld. Launaútgjöld vegna framhaldsskólastigsins aukast um 1 240 millj. kr. Innritun nema í framhaldsskóla fyrir skólaárið 1980–1981 bendir til verulegrar fjölgunar nema frá yfirstandandi ári. Auk þessa hefur komið fram vanáætlun á launum nokkurra skóla sem nú er reynt að leiðrétta til að fjárlög verði sem raunhæfust. Þá má nefna að gengisuppfærsla á laun sendiráða eykur launaútgjöld um 207 millj. kr. og þannig má samanlagt rekja leiðréttingar launaliða og endurmat launaliða til hækkunar samtals upp á 3.1 milljarð kr.

4. Í fjárlögum 1980 var nokkur stöðufjölgun heimiluð á ríkisspítölum, heilsugæskustöðvum, vegna forfalla- og afleysingaþjónustu í sveitum o. fl. Fjárveitingar til þessara staða eru þó takmarkaðar við ráðningu hluta úr ári. Á árinu 1981 er áætlað fyrir stöðunum allt árið í staðinn fyrir hálft árið eða aðeins hluta úr árinu sem nú er að líða. Ávallt er um flokkaskrið og aðrar tilfærslur að ræða sem skýra nokkra hækkun launa umfram beinar taxtahækkanir. Hér má nefna áhrif kjarasamninga og verðbótarvísitölu á laun Sóknarfólks frá fyrri hluta árs 1979, kjarasamninga lækna frá 1979 sem einnig voru vanmetnir í fjárlögum 1980 o.fl.

Ég vænti þess, að með þeim skýringum, sem hér hafa verið gefnar, sé mönnum ljóst hvers vegna launaliður fjárlaga hækkar töluvert umfram áættaðar almennar verðlags- og launabreytingar á árinu 1981.

Önnur rekstrargjöld í frv. hækka um 12 369 millj. kr. eða 57.2%. Almenn verðlagsbreyting þessa liðar frá 1980 til 1981 er áætluð um 42%. Við gerð frv. hefur verið gengið út frá nokkru hærri verðbreytingu, eða 46–48%, og er það gert vegna þess að verðbreyting á árinu 1980 fór verulega fram úr því sem miðað var við í fjárlögum 1980. Nokkrar tilfærslur eiga sér stað milli rekstrargjalda og annarra rekstrarliða. Þyngst vega rekstrargjöld flugmálastjórnar. Þá hækka rekstrargjöld héraðsskóla og nokkurra annarra stofnana umfram viðmiðunarhlutfall, en í ljósi ársins 1980 voru rekstrargjöld þeirra vanáætluð. Rekstrargjöld nokkurra fjárfrekra stofnana lækka að tiltölu. Ber þar að nefna Hafrannsóknastofnun, Landhelgisgæslu og Vegagerð ríkisins, en ég vík nánar að þessum atriðum síðar.

Hækkun viðhaldsliðar er 5260 millj. kr. eða 52.9%. Almenn forsenda um hækkun vísitölu byggingarkostnaðar frá meðaltali 1980 til 1981 er um 42%. Viðhaldsliður Vegagerðar ríkisins nemur 10 800 millj. kr. eða 71% alls viðhalds A-hluta fjárlaga og hækkar það um 41.1% milti ára. Viðhald til annarra verkefna nemur því um 4 400 millj. kr. og hækkar frá fjárlögum um 2 110 millj. kr. eða 92.1%. Fjárveiting til viðhalds á ríkisspítölum, sjúkrahúsum, sem njóta daggjalda, og á heilsugæslustöðvum nemur alls 1 966 millj. kr., en það er 45.7% hækkun frá fyrra ári. Framlag til annarra verkefna nemur þar af leiðandi 2 298 millj. kr. og hækkar um 143%. Víða hefur skort á viðhald opinberra bygginga. Á hliðstæðan hátt og 1980 er leitast við að bæta úr brýnni viðhaldsþörf og er megináhersla lögð á að eignum hraki ekki.

Sérstök ástæða er til að nefna að samkvæmt lögum nr. 57 frá 1978, um heilbrigðisþjónustu, skal ríkissjóður greiða 50% viðhaldskostnaður sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva. Til þessa verkefnis renna 900 millj. kr. skv. frv. Á árinu 1980 hefur viðhald verið greitt sem hluti af daggjöldum með um 85% þátttöku ríkissjóðs, enda þótt fjárlög geri ráð fyrir 50% þátttöku. Kostar þetta 600–700 millj. kr. í auknum útgjöldum fyrir ríkissjóð. Enn er þátttaka ríkissjóðs áætluð 50% lögum samkvæmt og verður nú að taka afstöðu til þess, hvernig háttað verði þátttöku ríkissjóðs í viðhaldi sjúkrastofnana í framtíðinni þannig að framkvæmd stangist ekki á við lög og valdi ekki ríkissjóði auknum útgjöldum sem hvergi er áætlað fyrir.

Vaxtakostnaður af almennum lánum ríkissjóðs er áætlaður rúmir 19.5 milljarðar kr. Alls eru áætlaðar vaxtagreiðslur til Seðlabanka Íslands á árinu 1981 9.7 milljarðar og er það 1,8 milljörðum hærri fjárhæð en áættað var á fjárlögum 1980. Vextir af lánum ríkissjóðs hjá öðrum en Seðlabanka eru áætlaðir 9.8 milljarðar og er þar um að ræða hækkun um 1.9 milljarða frá fjárlögum 1980.

Framlög til almannatrygginga verða 129.6 milljarðar króna og hækka um 43 milljarða eða 49.8% frá fjárlögum 1980.

Hér er reiknað með verðlagsbreytingu frá meðalverðlagi 1980 til meðalverðlags 1981. Framlög taka því ekki breytingum að óbreyttum reglum um tryggingabætur, nema verðlagsforsendur ársins 1981 reynist aðrar en gert er ráð fyrir í frv.

Í áætlun um útgjöld til tryggingamála er gert ráð fyrir sérstakri 5% hækkun tekjutryggingar frá miðju ári 1981 til viðbótar við almenna hækkun tryggingabóta í samræmi við verðlagsbreytingar, en jafnframt kom til framkvæmda á þessu ári mikil hækkun tekjutryggingar. Þessi hækkun tekjutryggingar er hluti af ráðstöfunum félagslegs eðlis í samræmi við ákvæði stjórnarsáttmálans. Kjör elli- og lífeyrisþega hafa einnig verið bætt á þessu ári með óbeinum hætti þegar ákveðið var að þessir aðilar greiddu aðeins hálfan kostnað við lyf og læknishjálp.

Ástæðulaust er að fjölyrða um þennan veigamikla þátt þar sem ítarleg grein er gerð fyrir honum í fjárlagafrv. Á þrem atriðum vil ég þó vekja athygli til viðbótar. Í fyrsta lagi er brýnt að tilhögun og fjármögnun barnsmeðlaga verði tekin til endurskoðunar. óhæft er að Tryggingastofnun ríkisins bindi alla sína varasjóði í barnsmeðlögum sem ekki innheimtast. Láta mun nærri að skuld Innheimtustofnunar sveitarfélaga við Tryggingastofnun ríkisins vegna þessa muni nema um 4 000 millj. kr. um n.k. áramót og er, eins og ég hef þegar nefnt, áformað að gera ráðstafanir til að hækka þessa skuld. Í öðru lagi er ráð fyrir því gert í frv., að þátttaka sjúklinga í lyfjakostnaði og kostnaði við sérfræðiþjónustu aukist hlutfallslega eins og útgjöld sjúkrasamlaga vegna þessara þátta. Í þriðja lagi þarf að ákveða endanlega þátttöku ríkisins í viðhaldi sjúkrahúsa.

Framlög til niðurgreiðslna nema alls 31 milljarði kr. Áætluð ársútgjöld miðað við það niðurgreiðslustig, sem nú gildir, þ.e. eftir nýafstaðna hækkun á niðurgreiðslu mjólkur og kartaflna, nemur um 32 milljörðum króna. Ríkisstj. vinnur nú að tillögum í efnahagsmálum og er ljóst að niðurgreiðslur tengjast ákvörðun í því efni.

Áætlaðar uppbætur á landbúnaðarafurðir nema alls 12 milljörðum kr., en það er 42.9% hærri fjárhæð en í fjárlögum 1980 og miðast við fullnýtingu verðábyrgðar ríkissjóðs á árinu 1981, sem er samkv. lögum 10% af framleiðsluverðmæti landbúnaðarvara.

Samkvæmt þessu frv. til fjárlaga er hafin uppbygging grænfóðurverksmiðja af fullum krafti eftir nokkurra ára hlé á þessu sviði. Hér er um að ræða mikilvægt viðfangsefni til gjaldeyrissparnaðar. Eðlileg notkun kjarnfóðurs miðað við kúa- og sauðfjárbúskap er talin vera 60 þús. tonn á ári og þar af mætti nota innlenda grasköggla að þremur fjórðu hlutum eða sem nemur um 45 þús. tonnum. Hámarksframleiðsla grasköggla í landinu er þó aðeins 12 þús. tonn og eru verksmiðjurnar allar á Suður- og Vesturlandi, svo að flutningskostnaður í aðra landshluta verður óhæfilega mikill.

Í frv. eru ætlaðar 100 millj. kr. með beinu framlagi ríkissjóðs og 200 millj. kr., með lántöku til að hefja byggingu graskögglaverksmiðja í Saltvík í Suður-Þingeyjarsýslu og í Hólminum í Skagafirði. Veruleg fyrirheit hafa verið gefin um fjárframlög heimaaðila til byggingar þessara verksmiðja, sem væntanlega verða þá byggð upp og rekin á vegum hlutafélaga þar sem heimamenn fara með stjórn. Verður stefnt að því, að unnt verði að taka þessar verksmiðjur í notkun eigi síðar en á árunum 1983–1984.

Framlög til ríkisframkvæmda í heild nema alls 87.6 milljörðum kr. og er það hækkun um 30 milljarða eða 53% frá fjárlögum. Framlög til hreinna ríkisframkvæmda og framkvæmda, sem kostaðar eru af fleiri aðilum, hækka um tæpa 14.4 milljarða eða 45%. Miðað við verðlagsforsendur frv., þ.e. 42% hækkun verðlags milli áranna 1980 og 1981, er því heldur um aukningu að ræða.

Framlög til fjárfestingarlánasjóða hækka um tæpa 8.1 milljarð kr. eða 52.7%, og er þá fylgt þeirri stefnu að framlög til flestra fjárfestingarlánasjóða eru skert. Vakin er athygli á að framlög til húsnæðislánasjóðanna nema í frv. 11.8 milljörðum, en námu í fjárlögum 1980 rúmum 7.5 milljörðum. Í samræmi við húsnæðismálalög verður í þessu frv. veruleg breyting á framlögum til Byggingarsjóðs ríkisins annars vegar og Byggingarsjóðs verkamanna hins vegar. Í frv. er stefnt að verulegri aukningu á framlögum til síðar nefnda sjóðsins, þ.e. til félagslegra íbúðarbygginga, og í því skyni aukast framlögin í Byggingarsjóð verkamanna mjög verulega. Alls er áformað að Byggingarsjóður ríkisins og Byggingarsjóður verkamanna hafi til ráðstöfunar um 40 milljarða kr. á árinu 1981, en ráðstöfunarfé sjóðanna er um 23 milljarðar kr. á árinu 1980.

Framlög ríkissjóðs til flestra fjárfestingarlánasjóða eru bundin samkvæmt lögum. Verðtrygging útlána fjárfestingarlánasjóða hefur styrkt fjárhagslega stöðu þeirra verulega og er því ekki jafnmikil þörf og áður að sjá þeim fyrir óafturkræfum framlögum úr ríkissjóði. Í lánsfjárlögum fyrir árin 1979 og 1980 voru framlög ríkissjóðs til fjárfestingarlánasjóða skert, og samkvæmt 8. gr, laga nr. 13/1979 skulu ákvæði í lögum, sem kveða á um skyldu ríkissjóðs til fjárframlaga til sjóða og einstakra verkefna með föstum reglubundnum hætti, tekin til endurskoðunar og það kannað, að hve miklu leyti fjárframlög til þessara þarfa verði framvegis ákveðin með fjárlögum ár hvert.

Hinn 31. ágúst 1979 var skipuð nefnd fulltrúa þingflokkanna til að inna af hendi fyrrgreinda athugun. Nefndin skilaði samhljóða áliti í júlí 1980, en þó með fyrirvörum af hálfu einstakra nefndarmanna. Við ákvörðun fjárframlaga úr ríkissjóði til fjárfestingarlánasjóðanna var tekið mið af þessu nefndaráliti, auk þess sem leitast var við að fjárframlög til sjóða ykjust ekki um meira en 50% frá árinu 1980. Frávik frá þessari reglu eiga sér stað að því er varðar Byggingarsjóð verkamanna, en þar er tekið mið af nýsettum lögum um sjóðinn, og hvað varðar Framkvæmdasjóð öryrkja og þroskaheftra, en í vor voru ákvæði sett sem snerta þann sjóð, og með tilliti til lagaákvæða um framlög til Framkvæmdasjóðs öryrkja og þroskaheftra hækkar framlagið til sjóðsins um 89.6% milli áranna 1980 og 1981. Ætlast er til að þær fjárhæðir, sem eru tilgreindar í fjárlagafrv. sem framlög til hinna ýmsu stofnlánasjóða, breytist ekki með verðlagi eða öðrum þáttum. Til að svo megi verða þarf annaðhvort að breyta lögum hinna einstöku sjóða, sem er eðlilegt framhald nefndarstarfsins frá í sumar, eða að skerða framlög til sjóðanna með sérstökum lögum í átt við það sem gert hefur verið á undanförnum tveimur árum.

Eitt af mörgum álitamálum, sem upp komu við fjárlagagerð, snerti kjaramál sendiherra Íslands erlendis og annarra sendiráðsstarfsmanna. Með nýjum lögum um tekju- og eignarskatt, sem samþykkt voru vorið 1978, var undanþága starfsmanna íslenskra sendiráða frá greiðslu tekjuskatts af starfslaunum felld niður. Þegar lögin voru samþykkt hér á Alþingi hlaut það að liggja ljóst fyrir, að þetta nýmæli í skattalögum hefði í för með sér rýrnun á kjörum starfsfólks sendiráðanna. Við umræður um nýju tekjuskattslögin á Alþingi var þó engin athugasemd gerð við það, að þessi undanþága frá skattgreiðslu væri felld niður, hvorki í umr., né nefndarálitum. Einu og hálfu ári síðar, haustið 1979, ritar þáv. fjmrh., Sighvatur Björgvinsson, bréf til utanrrn., dags. 15. nóv. 1979, þar sem hann lýsir því yfir, að þar sem þetta nýmæli í skattalögum muni hafa í för með sér rýrnun á kjörum starfsfólks sendiráðanna og þar sem komið hafi verið í veg fyrir slíka kjaraskerðingu sendiráðsmanna á öðrum Norðurlöndum vegna sams konar breytinga á skattalögum heiti hann því fyrir hönd rn. að sendiráðsmenn fái kauphækkun sem nemi væntanlegum tekjuskatti og muni rn. beita sér fyrir útvegun fjárveitingar til að greiða þennan kostnað eftir að nýju skattalögin hafa komið til framkvæmda.

Hæpið virðist, að ekki sé meira sagt, að fjmrh. geti lofað tilteknum hópi manna að þeir fái greiðslu úr ríkissjóði á fjárlögum næstu ára til að greiða skatta sem Alþingi hefur samþykkt að leggja á. Enn síður virðist þetta fyrirheit vera skuldbindandi fyrir ríkissjóð þegar haft er í huga að viðkomandi fjmrh. hafði ekki samráð við Alþingi í einu eða neinu formi og var ráðherra í bráðabirgðastjórn sem ekki studdist við þingmeirihluta.

Árslaun íslensks sendiherra á Norðurlöndunum voru áætluð á verðlagi um mitt þetta ár rúm 41 millj. kr., þar af eru um 30% grunnlaun, en um 70% launa- og staðaruppbót sem m.a. er ætluð til að greiða laun þjónustufólks á gestkvæmum heimilum sendiherrahjóna. Sendifulltrúi hefur 70% af launum sendiherra. Aðrir sendiráðsmenn hafa miklu minni laun. Sjálfsagt er, að Alþingi taki sjálfstæða afstöðu til þessa máls við afgreiðslu fjárlaga án tillits til ráðherrabréfsins sem ég nefndi áðan og varla getur talist skuldbindandi. Vel má vera að sendiráðsmenn, sem lægri hafi launin, séu síst ofhaldnir í launum og þörf sé að hækka launauppbót þeirra þegar skattfrelsi er afnumið, og bið ég hv. fjvn. að taka það mál sérstaklega til athugunar.

Framlög til lánagreiðslna og endurlána hækka alls um tæpa 7.1 milljarð kr. eða 89.1%. Þessi mikla hækkun skýrist af því að í frv. er snúið af þeirri braut, sem mörkuð hefur verið á undanförnum árum, að fjármagna óarðbærar framkvæmdir, eins og styrkingu dreifikerfis í sveitum og sveitarafvæðingu, með lánsfé. Auk þess er rétt að geta þess, að til Rafmagnsveitna ríkisins renna 1 500 millj. kr. vegna svokallaðra félagslegra framkvæmda, en yfir stendur athugun á því, hvernig þessi þáttur skuti metinn í fjárfestingu fyrirtækisins.

Framlag til Lánasjóðs íslenskra námsmanna hækkar um 2 697 millj. kr. og verður alls 8 092 millj. kr. Auk þess verður sjóðnum aflað lántökuheimildar alls 3 300 millj. kr. Geta sjóðsins til lánveitinga verður því alls 10 161 millj. kr. og styrkveitingar alls 474 millj. kr. Útlán sjóðsins miðast við að mætt verði 90% umfram fjárþörf námsmanna. Í stjórnarsáttmálanum er stefnt að því að endurskoða lög um námslán og námsstyrki. Þetta starf er nú í fullum gangi og fyrir Alþingi verður senn lagt frv. um þetta efni.

Á árinu 1980 aukast framkvæmdir í vegamálum mjög verulega frá því sem verið hefur nú um skeið. Framlög til vegamála í þessu fjárlagafrv. fyrir árið 1981 eru við það miðuð, að framkvæmdir í vegamálum haldi áfram af fullum krafti. Sérstök áhersla er lögð á lagningu bundins slitlags og er 1000 millj. króna lánsfjár aflað til þess verkefnis sérstaklega. En ætlunin er að athuga fjáröflun til vegagerðar og útgjöld Vegagerðar nánar við afgreiðslu lánsfjáráætlunar og vegáætlunar að nokkrum vikum liðnum.

Framlög til lista eru verulega aukin í þessu frv. annað árið í röð í samræmi við þá stefnu ríkisstj. að hlúa að innlendri lista- og menningarstarfsemi. Liðurinn „listir, framlög“ hækkar úr 480 millj. kr. í fjárlögum ársins 1980 í 859 millj. kr. í þessu frv. eða um tæplega 80%.

Rétt er að nefna hér nokkur atriði sem horfa til sparnaðar og hagræðingar í ríkiskerfinu.

1. Útgerð skipa Landhelgisgæslunnar er fyrirhuguð þannig, að þrjú skip verði í rekstri á árinu, og að auki er ætlast til þess að skipin verði til skiptis í höfn um sumartímann meðan sumarleyfi standa yfir. Í fluggæslu er gert ráð fyrir rekstri einnar Fokkerflugvélar og tveggja þyrla. Rekstrartilhögun þessi felur í sér allnokkurn samdrátt og þá nýtingu á tækjakosti sem heppilegust er talin. Í fjárlögum 1980 var ákveðin sala eldri Fokkervélar stofnunarinnar og sala á Árvakri. Að auki er nú gert ráð fyrir sölu á varðskipinu Þór á árinu 1981.

2. Framlög til útgerðar skipa Hafrannsóknastofnunar eru miðuð við 9 mánaða úthald. Auk þess er stefnt að aukinni hagræðingu á rekstri skipanna.

3. Stefnt er að því að endurskipuleggja skólahald hússtjórnarskóla og eru fjárveitingar til þeirra verulega lægri að raungildi en á yfirstandandi ári.

4. Áformað er, eins og áður hefur verið nefnt, að uppgjör Innheimtustofnunar sveitarfélaga við Tryggingastofnun ríkisins verði tíðari en nú er og Tryggingastofnun og ríkissjóður verði ekki fyrir beinum fjárútlátum vegna meðlagsgreiðslna.

5. Verið er að kanna leiðir til að draga úr kostnaði við rekstur tilraunabúa landbúnaðarins.

6. Áformað er að taka upp þá reglu, að innheimtumenn ríkissjóðs skili öllum innheimtum tekjum jafnóðum til ríkissjóðs, en fái fjárveitingar úr ríkissjóði til rekstrar embætta sinna.

7. Unnið verður að endurskipulagningu á Bifreiðaeftirliti ríkisins með það fyrir augum að draga úr kostnaði við skoðun bifreiða í samræmi við álit nefndar sem skilaði tillögum um breytta starfsemi Bifreiðaeftirlits á s.l. vetri.

8. Ákvæði laga um styrki til jarðræktar, framræslu og búfjárræktar verða tekin til athugunar í tengslum við nýja stefnumótun í landbúnaðarmálum.

9. Haldið verður áfram úttekt á starfsemi ýmissa ríkisstofnana, m.a. á rekstri Orkustofnunar, rekstri Pósts og síma, Jarðvarmaveitna ríkisins, Jarðborana ríkisins, Ríkisútvarpsins og fleiri stofnana.

10. Athugað verður um sameiningu stofnana, sem hafa með höndum skylda starfsemi, í því skyni að draga úr stjórnunarkostnaði, og á þetta t.d. við um Landmælingar Íslands og Sjómælingar Íslands, embætti yfirdýralæknis og Sauðfjárveikivarnir.

Á vegum fjárlaga- og hagsýslustofnunar er unnið að margvíslegum hagsýsluverkefnum, eins og flestum hv. alþm. mun kunnugt. Meðal helstu verkefna má nefna könnun á fjármálastjórn og áætlanagerð hjá Ríkisútvarpinu. Verið er að athuga skipulag, rekstur og húsnæðismál hjá Landmælingum Íslands og hjá Siglingamálastofnun. Hjá Rannsóknalögreglu ríkisins er verið að kanna þörf stofnunarinnar fyrir breytta tilhögun á vinnslu og varðveislu upplýsinga. Athuganir af svipuðum toga og hér hefur verið minnst á eru í gangi hjá nokkrum öðrum stofnunum, og leggur fjmrn. áherslu á sem nánasta og besta samvinnu við önnur rn. og stofnanir um hagsýsluaðgerðir. Með markvissum hagsýsluaðgerðum má oft tryggja aukna virkni stofnana til hagræðis fyrir alla aðila. Aukin áhersla verður lögð á þessa starfsemi á næsta ári.

Herra forseti. Um fjárlagafrv. er auðvelt að halda langar ræður, enda einhver saga bak við flestar tölur fjárlaganna. Ég læt þó staðar numið að sinni.

Ég vil þakka starfsmönnum fjárlaga- og hagsýslustofnunar fyrir ágæt störf við gerð þessa frv., og sérstaklega vil ég þakka hagsýslustjóra, Brynjólfi Sigurðssyni, fyrir mikið og margbrotið starf sem er þess eðlis að gustar úr ýmsum áttum, en þakkir verða fáar.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði vísað að lokinni þessari umr. til hv. fjvn.