06.11.1980
Sameinað þing: 15. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í B-deild Alþingistíðinda. (366)

1. mál, fjárlög 1981

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Það eru aðeins liðnir sex mánuðir síðan við höfðum fjárlagaumr. á hinu háa Alþingi vegna fjárl. fyrir árið 1980. Ég vék að því þá, að fjárlagafrv. nýmyndaðrar ríkisstj. væri dæmigert fjárlagafrv. vinstristjórnarstefnu og því nánast framhald þeirrar stefnu er upp var tekin haustið 1978 með myndun ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar.

Útgjöld fjárlagafrv. fyrir árið 1980 hækkuðu hlutfallslega meira en nokkru sinni áður. Það var enginn vafi á því, að auka átti ríkisumsvifin, og það var ljóst mál, að það skyldi gert með aukningu skattbyrði og að skattbyrðin yrði meiri en nokkru sinni fyrr. Þrátt fyrir að gert var ráð fyrir að allir nýju skattarnir frá ríkisstjórnartíð Ólafs Jóhannessonar yrðu framlengdir og að gert var ráð fyrir nýjum sköttum var gert ráð fyrir að minni hlutinn af ríkistekjunum skyldi ganga til opinberra framkvæmda og þær því í auknum mæli fjármagnaðar með erlendum lántökum. Það gat því öllum verið ljóst, að til meðferðar voru af hálfu ríkisstj. verðbólgufjárlög, enda þótt þar væri gert ráð fyrir aðeins 31% verðlagshækkun á fjárlagaárinu. Loforðalisti ríkisstj., þ.e. stjórnarsáttmálinn sem endurspeglaði kosningastefnuskrá Alþb., var endurtekinn að verulegu leyti og það var auðséð hver var nú orðinn fjmrh. og úr hvaða stjórnmálaflokki hann var kominn.

Það stóð ekki á andmælum frá hæstv. fjmrh. við þessum mínum aths. þá, sér í lagi þegar ég sagði að ég gæti frekar trúað því að verðbólgan yrði nær 50% árið 1980 en 30%, eins og fjárlagafrv. gerði ráð fyrir. Fjmrh. fékk til liðs við sig hæstv. forsrh., sem deildi hart hér á Alþ. um reikningsaðferðir í sambandi við verðbólguna og mótmælti því alfarið, að verðbólgan færi yfir 40%, það væri alls ekki rétt að mæla verðbólguna út frá samanburði meðalverðbólgu tveggja ára, heldur skyldi verðbólgan mæld frá upphafi árs til loka. Hann hafði þá auðvitað í huga að hægt væri að koma að ráðstöfunum í lok árs sem áhrif hefðu á vísitöluútreikninginn 1. des. og þannig hægt að fá hagstæðari útkomu.

Þegar við ræðum fjárlagafrv. fyrir árið 1981 er mynd efnahags- og peningamála 1980 smám saman að skýrast. Við erum komnir fram í ellefta mánuð ársins og ráðh. eru núna búnir að sitja í níu mánuði og því er orðið hægt að bera saman orð og efndir.

Hæstv. fjmrh. leggur nú fram fjárlagafrv. þar sem ríkisstj. viðurkennir að stefna hennar í efnahagsmálum hafi gersamlega brugðist. Stefnu ríkisstj. í efnahagsmálum fyrir árið 1980 er að finna í stjórnarsáttmálanum, 3. gr., þar sem fjallað er um verðlagsmálin og gerð grein fyrir niðurtalningunni, þeirri frægu og margnefndu, og þar sagt hvernig henni skyldi hagað. Hins vegar er í fjárlagafrv. gerð grein fyrir því, að þetta hafi alls ekki staðist, hafi nánast allt farið út um þúfur.

Forsrh. leggur fram þjóðhagsáætlun sem staðfestir að árið 1980 mun verða eitt mesta verðbólguár á Íslandi, ekki bara þennan áratug, heldur þarf að fara aftur fyrir fyrri heimsstyrjöld til að fá samanburð. Verðbólgan frá upphafi árs til loka er talin verða yfir 50%, að sagt er, mun sennilega verða nær 55%, og meðalverðbólga frá 1979–1980 er talin munu verða um 58%, nærri 60%. Það hefur ekki gerst áður að verðbólgan, hvernig sem hún er mæld, sé í öllum tilfellum yfir 50%, og þetta er annað árið í röð sem verðbólgan frá upphafi árs til loka fer yfir 50%, en eins og kunnugt er var hún um 61% frá upphafi síðasta árs til loka.

Þessu öllu til viðbótar og til staðfestingar koma svo einstakir ráðh. og lýsa því hér yfir að þeir horfi með hryllingi til holskeflunnar sem yfir skellur 1. des. n.k., en þá er síðasti dagur kaupgjaldsvísitöluútreiknings og þegar sá dagur er liðinn mun launahækkun frá upphafi árs til loka hafa numið 55–56%, en meðallaunahækkun frá árunum 1979–1980 mun verða um 51–52%.

Það er eðlilegt og skiljanlegt að mönnunum, sem eru höfundar að efnahagsstefnunni, hrylli við þeirri holskeflu sem þeir sjá fram undan. Í þeim gögnum, sem fram hafa verið lögð, svo og í ræðum ráðh., þ.e. hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh., er hins vegar oft og tíðum frá því greint, að horfur séu á að jöfnuður náist í fjármálum ríkisins. Eftir því sem liðið hefur á árið hefur orðið blæmunur á orðalagi þeirra og mun nú svo komið að á því vilja þeir hafa nokkurn fyrirvara. En aðalástæðan fyrir þessari útkomu er, eins og fram kom í ræðu hæstv. fjmrh., að tekjur ríkissjóðs hafa farið töluvert fram úr áætlun, sér í lagi af innflutningi, en það kemur hins vegar fram í lakari gjaldeyrisstöðu.

Þær staðreyndir, sem ég hef nú þegar rakið, sýna okkur svo að ekki verður um villst, að þrátt fyrir áætlaðan jöfnuð í ríkisfjármálum, sem við skulum ekki draga neitt í efa, hefur verðbólga aldrei verið okkur óhagstæðari. Ég get vel trúað því, að þetta komi mörgum á óvart. Sérstaklega kemur þetta þeim á óvart sem haldið hafa að jöfnuður í ríkisfjármálunum, burt séð frá því hvaða stefna hefur ráðið þar ríkjum, leiddi til hjöðnunar verðbólgunnar.

Við umr. á Alþ. fyrir sex mánuðum bentum við sjálfstæðismenn einmitt á að stefna fjárlagafrv. fyrir 1980 væri þess eðlis, að um verðbólgufjárlög væri að ræða. Þessari skoðun okkar var mótmælt af hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. í umr. og því haldið fram, að stefnt væri að jöfnuði. Talað var eins og það skipti engu máli eftir hvaða leiðum það væri gert. Við sjálfstæðismenn bentum á að ríkisfjármálastefnan væri alröng ef ætlunin væri að hafa hemil á verðbólgunni. Með frv. væri stefnt að auknum ríkisumsvifum sem hlutfalli af þjóðarframleiðslu með því að auka skatta, með því að viðhalda öllum sköttum ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar og bæta við nýjum sköttum, þannig að skattbyrðin yrði aldrei meiri en á árinu 1980. Við bentum á að með fjárlagafrv., sem þá var til umr., væri gert ráð fyrir minna fjármagni sem hlutfalli af útgjöldum ríkissjóðs til opinberra framkvæmda. Á árunum 1974–1978 var þetta hlutfall 23–25%, en í fjárlagafrv. fyrir árið 1980 var gert ráð fyrir að þessi tala yrði um 16.5–17%. Hér var um að ræða töluvert mikla minnkun. Auk þessa skyldu framkvæmdir í landinu í auknum mæli fjármagnaðar með erlendum lántökum. Það var að vísu sett upp vel útlítandi áætlun um innlenda fjármögnun, en þegar var bent á að hún væri óraunhæf, sem sennilega er að koma í ljós þessa dagana.

Í lánsfjáráætlun var gert ráð fyrir innlendri fjármögnun sem næmi 24 milljörðum kr. Mun nú skorta stórar fjárhæðir á að endar nái þar saman, ef ekki 1/3 hlutann af þessari upphæð, þegar áramótin eru liðin. Það liggur í augum uppi að á þessum tíma verða framkvæmdir ekki stöðvaðar. Það liggur í augum uppi, hvernig hæstv. fjmrh. kemur til með að fjármagna framkvæmdirnar. Það verða tekin bráðabirgðalán með einum eða öðrum hætti og til Alþ. verður síðar komið til að sækja viðbótarheimild til erlendrar lántöku. Þá trúi ég að erlendar lántökur verði jafnvel komnar upp fyrir þá tölu sem fjárl. gera ráð fyrir.

Það er ljóst að áhrif ríkisfjármálanna á árinu 1980 hafa orðið til þess að magná verðbólguna og ástand þessara mála sýnist aldrei verra en nú.

Ég hef hér vikið að ríkisfjármálunum 1980 og því hver áhrif stefnan í ríkisfjármálunum hefur verið á þróun mála. Það kemur glöggt í ljós að allt það, sem sagt var héðan úr þessum ræðustól við fjárlagaumr. á síðasta ári, hefur reynst rétt.

Þegar fjárlagafrv. fyrir árið 1981 er skoðað er ljóst að þar er ekki um neina stefnubreytingu að ræða, nema síður sé. Að svo miklu leyti sem frv. segir til um hvernig haldið skuli á málum þjóðarbúsins, þá er um að ræða áframhaldandi vinstri stefnu í ríkisfjármálunum, sem árin 1979 og 1980 bera greinilega vitni um hvernig er. Höfuðsjónarmiðin eru þau sömu: Aukin ríkisumsvif, aukin miðstýring og ríkisforsjá, skattheimtan aukin frá þessu ári þrátt fyrir gefin loforð um skattalækkanir, ríkisframkvæmdirnar í sama lága hlutfallinu og áður af ríkisútgjöldum, en erlendar lántökur þrefaldaðar frá lánsfjáráætlun 1980 og sennilega tvöfaldaðar miðað við það sem verður raunveruleikinn, — enn ein verðbólgufjárlögin. Við hverju var svo sem að búast?

Rekstrarútgjöldin hækka um 183 milljarða kr. eða 53.4%, langt umfram þá meðalverðhækkun sem frv. sjálft gerir ráð fyrir, sem er 42%. Það upplýstist reyndar þegar hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir frv. á blaðamannafundi að talan 42% væri ágiskunartala, sjálfsagt fengin af reynslu fjárlagadæmisins í ár og því að 31% verðlagshækkun, sem gert var ráð fyrir í fjárlögum 1980, hefur reynst tvöfalt hærri. Verði sama reynsla á útkomu fjárl. 1981 yrði verðbólgan um 80%, en það er einmitt sú tala sem heyrst hefur nefnd. Jafnvel hæstv. viðskrh. Tómas Árnason gerðist spámaður úr þessum ræðustól fyrir nokkrum dögum um verðbólguþróunina á næsta ári. Hann taldi hana mundu verða yfir 70%.

Af einstökum töluhækkunum frv. má sjá að rekstrargjöldin hækka sum hver yfir 60% þegar framkvæmdaliðirnir hækka aðeins um 30%. Framlögin til almennra íbúðabygginga eru stórlega lækkuð, en framlög til byggingar verkamannabústaða í samræmi við ný lög hækkuð án þess að nokkur grein sé gerð fyrir því, með hvaða hætti ríkisstj. hyggst fjármagna hið almenna húsnæðislánakerfi á næsta ári. Með þessari breytingu er stefnt að því að skerða sjálfstæði húsbyggjenda og koma sem mestu af húsnæðinu undir félagslega stjórn, þ.e. miðstýringu.

Á útgjaldahlið frv. er gert ráð fyrir 12 milljörðum kr. til ráðstöfunar í efnahagsmálum. Ljóst er að af þeirri upphæð er þegar búið að ráðstafa 4 milljörðum kr. í niðurgreiðslur því að þau útgjöld í frv. eru vanáætluð. Félagsmálapakki, sem nýverið hefur verið samþykktur í sambandi við lausn vinnudeilunnar á vinnumarkaðinum, mun kosta ríkissjóð 2 milljarða kr. Þá hefur hæstv. viðskrh. gefið út yfirlýsingar um að aðlögunargjald og jöfnunargjald yrðu felld niður frá og með næstu áramótum svo tekjur lækka þess vegna um 5.4 milljarða. Eru þá orðnar eftir aðeins 600 millj. kr., nema ætlunin sé að búa til nýjan skattstofn eins og heyrst hefur.

Lítum á tekjuhliðina. Gert er ráð fyrir öllum vinstristjórnarsköttunum áfram og að engu höfð hávær ósk launþegasamtaka um skattalækkanir og ekki heldur gert ráð fyrir að standa við orð hæstv. forsrh., þegar hann var spurður um skattalækkanir á þessu ári, að það yrði ekki hægt enn, það komi að einhverju leyti á árinu 1981. Vinstristjórnarskattarnir munu á næsta ári nema 75 milljörðum kr. Þá sýnist með skattvísitölunni hugsað að ná tekjum til ríkissjóða sem nema á milli 10 og 15 milljörðum, sem ekki er reiknað með, og ekki er tekin inn í skatttekjudæmið hækkun á sköttum vegna breyttra reglna um vaxtafrádrátt, nema gert sé ráð fyrir að breyta því og þá til lækkunar, og ekki heldur gert ráð fyrir hækkun eignarskatta vegna fasteignamatshækkunar umfram byggingarvísitölu, nema það sé líka hugsað fyrir leiðréttingu þar að lútandi. Verði það ekki gert mun það auðvitað auka á skattbyrðina á næsta ári, og var ekki á hana bætandi á sama tíma og kaupmátturinn hefur rýrnað sem nemur rúmu 1% hvern mánuð sem núv. ríkisstj. hefur setið. Það er vissulega miklu auðveldara að fá jöfnuð í ríkisfjármálin með því að leggja á nýja skatta en gæta aðhalds og draga úr ríkiseyðslunni, en það hefur núv. ríkisstj. heldur aldrei haft á stefnuskrá sinni.

Það, sem er þó alvarlegast við þetta fjárlagafrv., er að í því er ekki að finna neinar till. til úrlausnar þeim miklu vandamálum sem við blasa. Það var ekki heldur að heyra í stefnuræðu hæstv. forsrh. að hann hefði neinar till. í þessum efnum. Þegar hæstv. viðskrh. svaraði fsp. s.l. þriðjudag lýsti hann þeirri skoðun sinni, að ekki yrði hjá því komist að gerðar yrðu ráðstafanir er væru samhliða þeirri myntbreytingu sem fram skyldi fara. Voru allir ræðumenn sammála því. Hæstv. ráðh. vék hins vegar að launamátum og gerði þar sérstaklega að umræðuefni þær launahækkanir sem nýverið hefði verið samið um. Hann hafði sem ráðh. verðlagsmála hins vegar engar till. Hann vísaði aðeins í stefnuræðu forsrh. og grg. með fjárlagafrv. og bætti svo við: Menn verða svo bara að bíða og sjá hvað gerist. — Þegar ráðh. var spurður hvort þm. fengju till. á borð sín áður en jólaleyfi hæfist, en þá eru síðustu forvöð að kynna Alþ. þær till. áður en myntbreytingin á sér stað, þá gat hann ekki svarað jákvætt.

En hvers er að vænta? Þegar fjmrh. kynnti fjárlagafrv. var hann spurður að því, á hverju það grundvallaðist að frv. gerði ráð fyrir 42% verðlagshækkunum á milli ára. Ráðh. varð að svara og hann sagði að hér væri um að ræða ágiskunartölu.

Þegar betur er að gáð og ýmsar tölur í frv. skoðaðar kemur í ljós að sérstakur liður, til launa og verðlagsmála á næsta ári, stendur í beinu sambandi við 42% verðlagsspána, því til þess að ná verðlagsþróuninni niður í 42% má launahækkunin á næsta ári ekki verða meiri en 15%, en til að ná þessu fram þarf að skerða kaupgjaldsvísitöluna með lögum um helming nú 1. des. og alla vísitöludagana á næsta ári. Nú er það spurning mín til hæstv. fjmrh., hvort það hefur verið áformað af ríkisstj. að skerða vísitöluna á næsta ári þannig að markmiðum fjárlagafrv. verði náð.

Eins og ég sagði áðan, lýsti hæstv. viðskrh. því yfir, að eftir þær grunnkaupshækkanir, sem samið var um og ríkisstj. ber ábyrgð á, yrði að gera ráðstafanir í efnahagsmálum, ella yrði verðbólgan yfir 70% á næsta ári. Ég spyr því enn hæstv. fjmrh.: Þýðir aths. viðskrh. það, að ríkisstj. ætlaði að beita sér fyrir vísitöluskerðingu á næsta ári eftir að Alþýðusambandsþingi er lokið?

Herra forseti. Það er öllum ljóst af ræðu hæstv. forsrh., að ríkisstj. er stefnulaus, af ræðu hæstv. fjmrh., að ríkisstj. er úrræðalaus, og af ummælum ráðh. að undanförnu, að nú situr að völdum ríkisstj. vonleysis. Fjárlagafrv. ber þess gleggst vitni svo og þróun mála valdaferil núv. hæstv. ríkisstj. Málin hafa verið í athugun. Ríkisstj. hefur endalaust verið að kanna málin, velta fyrir sér hvaða leiðir hún hyggist fara til lausnar aðsteðjandi vanda. Efnahagsnefnd var stofnsett, forsrh. fékk sér sérstakan efnahagsráðunaut, tilkynnt að tillögur væru í undirbúningi og því allar þjóðhagsspár byggðar á röngum forsendum. En allt kom fyrir ekki. Niðurtalning, efnahagsráð Framsfl., er fokin út í vetur og vind, fjmrh. leggur fram fjárlagafrv. grundvallað á ágiskunartölum, eins og hann segir sjálfur. Afleiðingar þessa alls eru að á enda rennur eitt mesta verðbólguár á Íslandi þennan áratug og þótt lengra væri leitað, afkoma atvinnuveganna fer versnandi og þar af leiðandi einstaklinganna og heimilanna. Áfram situr ríkisstj. sem sýnist ekki vita sitt rjúkandi ráð eða hefur á borðum sínum till. sem ekki þota dagsins ljós að sinni og ekki eru í samræmi við kosningaloforð ráðh. Alþb. frá 1978 um „samningana í gildi“.