09.04.1981
Efri deild: 77. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3596 í B-deild Alþingistíðinda. (3665)

298. mál, úrskurðaraðili í deilu um starfsaldurslista flugmanna

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um úrskurðaraðila í deilu um starfsaldurslista flugmanna Flugleiða hf. á þskj. 632 og 636. Um þessa deilu mætti hafa langt mál, hún hefur staðið lengi, en ég skal stytta mál mitt. Þó vil ég drepa á örfá meginatriði.

Þegar félögin Loftleiðir og Flugfélag Íslands voru sameinuð 1974 voru ýmis nauðsynleg atriði þeirrar sameiningar látin bíða, m. a. sameining flugmanna um starfsaldur, en það hefur tíðkast hjá flugmönnum vegna þeirrar sérstöku þjálfunar, sem þeir hljóta, að um störf þeirra gildi ákveðinn starfsaldurslisti. Tilraunir til að sameina þessa lista hófust fyrir alvöru 1978, fyrst með því að félögin eða aðilarnir skipuðu menn í nefnd til að fjalla um þetta. Samkomulag var út af fyrir sig um það í nefndinni að sameina þyrfti listana, en hins vegar ekki um það, hvernig það yrði gert. Mistókst því sú tilraun.

Málið var að nýju tekið upp 1979 og þá í tengslum við kjaradeilu. Um þá kjaradeilu náðist það samkomulag að hún yrði sett í gerðardóm. Sá dómur gekk að nýju 5. sept. 1979 og fjallaði í úrskurði sínum töluvert um starfsaldurslistann, eins og rakið er í grg. með þessu frv., en tók að öðru leyti ekki á því máli, þannig að það var skilið eftir í þeirri deilu sem þarna var, enda ekki samkomulag um það áður að gerðardómurinn fjallaði um það.

Síðan má segja að allt s. l. ár hafi ríkissáttasemjari fjallað um þetta mál sérstaklega, þ. e. starfsaldurslistann. Skipaði hann aðstoðarmann í því skyni, dr. Gunnar G. Schram. Ástæðan fyrir því, að máli var tekið sérstaklega fyrir, kemur raunar fram í niðurstöðum gerðardómsins, sem ég nefndi áðan, og jafnframt í skoðun allra þeirra aðila, sem vel þekkja málið, og einnig deiluaðila, að sameiginlegur starfsaldurslisti er nálægt því að vera forsenda fyrir samningum um kaup og kjör. Því er talið nauðsynlegt að reyna að ná samkomulagi um hann og hafa reyndar kjarasamningar verið opnir á meðan.

Dr. Gunnar G. Schram, sem eins og ég sagði var skipaður aðstoðarmaður sáttasemjara, skilaði málinu frá sér s. l. haust eftir mjög marga fundi. Eftir að ég hafði þá rætt við deiluaðila fór ég fram á það við ríkissáttasemjara, að hann tæki málið fyrir að nýju. Það skal tekið fram, að þá hafði Félag ísl. atvinnuflugmanna orð á því, að rétt væri að skipa sáttanefnd, en niðurstaðan varð samt sem áður að biðja sáttasemjara að halda málinu enn áfram, enda hann orðinn mjög kunnugur þessu nokkuð flókna máli.

Samkomulag tókst þó ekki og höfðu þá gengið atkvæði um sáttatillögu. Hún hafði verið felld af einum aðila. Einnig hafði verið leitað eftir samkomulagi um úrskurðaraðila eða gerðardóm, en um það hafði ekki heldur náðst samkomulag, þannig að sáttasemjari skilaði málinu frá sér enn á ný nokkru fyrir áramótin.

Um málið hefur síðan verið nokkuð rætt þótt ekki hafi formlegar tilraunir farið fram. Það hefur verið skoðun manna — eða við skulum segja: var von manna að tilraunir félagsins til þess að afla verkefna erlendis kynnu að leysa þetta mál að einhverju leyti eða gera það auðveldara því að með því skapast að sjálfsögðu margir starfsmöguleikar, en vitanlega stendur þessi deila um hvort menn missi vinnu sína við samdrátt og hverjir þá.

Þetta hefur út af fyrir sig tekist. Félagið hefur fengið nokkuð mikil verkefni erlendis til viðbótar við þau sem það hafði áður, t. d. Air Bahamas og í Indlandi. Það hefur fengið verkefni í Lýbíu og Nígeríu þannig að þörfin fyrir flugmenn erlendis er nú 39, en 74 hér heima. Þarna er því orðið um mjög mikilvægna starfsþátt að ræða. En því miður hefur nú farið svo, að einmitt þessi stöðugildi hafa vakið upp þessar deilur, með þeim afleiðingum að boðað hefur verið til verkfalls nú á miðnætti. Stafar það af því, að deilt er um eftir hvaða starfsaldurslista skuli fara þegar menn eru þjálfaðir í þessi störf í Nígeríu og Lýbíu. Það þarf vitanlega að gera því að stöðugildum á DC-8 vélum fækkar, en fjölgar við þessi verkefni, sem ég hef nefnt, á öðrum vélum.

Ég ætla ekki að fara hér orðum um deilum sjálfa. Þetta er flókið mál og ég hvorki treysti mér til né tel það sæmandi að vera að segja eitt eða annað um hvað er rétt í því. Þó vel ég nefna það, að Félag ísl. atvinnuflugmanna telur að fara beri eftir gildandi starfsaldurslista sínum sem kveður svo á, að þeir skuli eiga forgang að flugi á öllum Boeing 727 vélum og F-27 vélum, Fokkerum sem sagt, hvar sem flugfélagið er með þær í notkun. T. d. eru nú Fokkervélar í notkun í Lýbíu og Boeing 727 í Nígeríu. Hins vegar hefur félagið farið aðra leið og blandað þar nokkuð saman þessum tveimur starfsaldurslistum. Deilan stendur því núna um það, hvort félagið hafi haft rétt til að gera slíkt, og því er verkfallið boðað.

Ríkisstj. hefur að sjálfsögðu fylgst með þessu máli og þar hafa menn verið á einu máli um það, að æskilegt væri að bíða og gera allt annað sem unnt væri til þess að koma í veg fyrir stöðvun. Því bað ég ríkissáttasemjara enn einu sinni að eiga viðræður við deiluaðila. Hefur hann gert það undanfarna daga. Ég vil þó geta þess áður, að ég átti viðræður við deiluaðila fyrir 10 dögum og þá kom fram sú skoðun hjá Félagi ísl. atvinnuflugmanna, að rétt væri að skipa sáttanefnd. Ég fagnaði því og lagði þá til að sáttanefnd yrði gefinn stuttur tími, eins og fjórar vikur, og menn samþykktu þá gerðardóm eða úrskurðaraðila, eins og hann hefur nú verið kallaður í þessar deilu af einhverjum ástæðum, ef slík sáttanefnd næði ekki samkomulagi. Einnig lagði ég til að slík niðurstaða yrði látin gilda frá 15. mars þannig að sú þjálfun, sem nú fer fram, yrði leiðrétt ef niðurstaðan yrði önnur en félagið hefur byggt á.

Fallist var af öllum aðilum á að sáttanefnd yrði skipuð og sömuleiðis að hlýða úrskurði. Á það var fallist af hendi stjórnar Flugleiða og Félags Loftleiðaflugmanna að þetta yrði látið ná aftur fyrir sig og leiðrétt. Hins vegar, því miður, verð ég að segja, féllst Félag ísl. atvinnuflugmanna ekki á það og krafðist þess, að þeirri þjálfun, sem hófst reyndar í gær, yrði breytt til samræmis við þeirra starfsaldurslista.

Sáttasemjari gerði svipaða tilraun, örlítið breytta, í þá veru að sáttanefndin fengi úrskurðarvald ef henni tækist ekki að ná sáttum eftir öðrum leiðum. Þar hefur hins vegar strandað á þessu sama. Því hefur verið hafnað af einum aðila, að þetta yrði látið ná aftur fyrir sig eða yfirleitt að sáttanefndin fjallaði á þann máta um þessa þjálfun.

Ég ræddi síðan við Félag ísl. atvinnuflugmanna eða stjórn þess félags, þá sem heima voru í morgun, og lagði mjög ríkt að þeim að fresta þessu verkfalli og fallast á annaðhvort framkvæmd eins og sáttasemjari leggur til, sem er út af fyrir sig efnislega það sama og ég lagði til. Í dag hafa verið fundir og ég var að fá bréf frá FÍA þar sem þessu er hafnað, sem ég harma. Þetta bréf er stutt og ég tel rétt — með leyfi forseta — að lesa það hér svo að þeirra sjónarmið komi fram eins og þeir vilja flytja þau. Þetta er bréf dagsett í dag og í því segir:

Samgrh. Steingrímur Hermannsson. Vísað til fundar við yður fyrr í dag, þar sem þér boðuðuð að lagt yrði fram frv. til laga til lausnar á svonefndu starfsaldurslistamáli og þar sem þér einnig fóruð fram á frestun á boðaðri vinnustöðvun FÍA sem hefjast á á miðnætti.

Stjórn og trúnaðarmannaráð Félags ísl. atvinnuflugmanna getur fyrir sitt leyti samþykkt hugmynd Guðlaugs Þorvaldssonar ríkissáttasemjara um sáttanefnd er vinna skuli að að leysa starfsaldurslistamálið og hafi hún einnig heimild til að úrskurða um þau atriði sem ósættanleg reynast. Með þessu, ef allir aðilar samþykkja, er séð fyrir endann á hinu svokallaða starfsaldurslistamáli.

FÍA getur ekki fellt sig vil þær vinnuaðferðir Flugleiða að virða ekki kjarasamninga, eins og þær eru nú að framkvæma varðandi stöðubreytingar. Flugleiðir hafa skuldbundið sig til að fara eftir gildandi kjarasamningum þar til nýir hafa verið gerðir. Auk þess sem slíkt er hefð á hinum almenna vinnumarkaði hefur Alþingi lögfest þessar reglur er varða starfsmenn ríkis og bæja, sbr. 14. gr. laga nr. 29 1976, um kjarasamninga BSRB.

Með því að þvinga flugmenn til starfa með lögum er m. a. verið að samþykkja áðurnefnd vinnubrögð Flugleiða hf. Enn eru öll atriði kjarasamninga FÍA við Flugleiðir hf. óleyst. Vandamál Flugleiða hf. verða ekki leyst á þennan hátt því að áframhald eðlilegs flugs er háð tilhliðrun af hálfu flugmanna. Því er eina raunhæfa lausnin að samið verði á eðlilegan hátt undir stjórn sáttasemjara ríkisins.

M. a. í ljós ofanritaðs telur stjórn og trúnaðarmannaráð FÍA sér ekki fært að verða við ósk yðar um frestun vinnustöðvunar nema Flugleiðir hf. standi við gildandi kjarasamninga í hvívetna, þar með talið að ógilda nú þegar nýgerða ráðningar flugstjóra á F-27 (þ. e. Fokkervélum) af starfsaldurslista Loftleiðaflugmanna. Við treystum því, að þér beitið áhrifum yðar til þess að Flugleiðir hf. virði öll ákvæði gildandi kjarasamnings þar til nýr hefur verið gerður.

Við viljum að lokum taka fram að ef þessu skilyrði verða uppfyllt eru flugmenn FÍA reiðubúnir til að aðstoða Flugleiðir hf. við að halda uppi eðlilegu flugi meðan á þjálfun stendur.“

Undir þetta skrifar fyrir hönd stjórnar og trúnaðarmannaráðs Kristján Egilsson, formaður.

Um það er sem sagt deilt, hvort Flugleiðir hafi rétt til að þjálfa eins og þær vilja. Um það er deilan, hvort fara eigi eftir eldri samningum, sem út af fyrir sig hefur verið sagt upp af báðum aðilum, eða ekki. Það er atriði sem ég treysti mér ekki til að dæma í og hef satt að segja talið að Félagsdómur hefði mátt fjalla um, svo ég lýsi minni persónulegu skoðun, en deiluaðilar hafa ekki kosið að vísa því þangað.

Ég vil segja það að lokum, að það er að sjálfsögðu ætíð mjög leitt að þurfa að flytja mál sem þetta. Svona mál verður vitanlega að kappkosta að leysa með almennum samningum. Þetta mál er hins vegar búið að vera mjög lengi í meðferð og ég vil leyfa mér að fullyrða að stöðvun félagsins núna kunni að hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir félagið sjálft og viðleitni til þess að það fái eflst að nýju. Ég held að það megi satt að segja alls ekki við því. Hitt er svo annað mál, að það er alls ekki þar með sagt, þótt þetta verði samþykkt og úrskurður fáist, að vandamálin séu leyst. Eins og fram kemur, eru kjaramálin enn óleyst. En ég hef áður sagt að þeir, sem við þau fást, telji að niðurstaða í starfsaldurslistamálinu verði að fást áður en unnt er að takast af alvöru á við það mál.

Herra forseti. Ég fór fram á það við hv. Nd. að hún hraðaði málinu og hún varð við þeirri beiðni. Ég vil endurtaka þá sömu beiðni hér, að málinu verði hraðað. Ég tel mjög slæmt ef til stöðvunar kemur í kvöld og allt flug raskast af þeim sökum.

Ég vil svo að lokum leggja til að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. samgn.