06.11.1980
Sameinað þing: 15. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 515 í B-deild Alþingistíðinda. (367)

1. mál, fjárlög 1981

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það eru fjögur atriði sem ég hef einkum í huga að ræða um í máli mínu hér á eftir: Í fyrsta lagi fjalla ég nokkuð um þá fullyrðingu hæstv. ríkisstj. að afkoma ríkissjóðs á árinu 1980 verði a.m.k. þolanleg. Í öðru lagi fjalla ég um forsendur þessa fjárlagafrv., sem í senn eru styrkur frv. og veikleiki. Í þriðja lagi fjalla ég um frv. sjálft og sýni fram á að sú niðurstaða, sem hæstv. ríkisstj. hrósar sér af á rekstrarreikningi fjárlagafrv., er fólgin í mjög einföldum breytingum á meðferð verðbótaþáttar vaxta þar sem með nýjum bókhaldsreglum er látin í veðri vaka hagstæð útkoma af rekstri ríkissjóðs, sem þýðir raunar þveröfugt. Og í fjórða lagi ræði ég nokkuð um einstök atriði þessa fjárlagafrv., því auðvitað er með það eins og öll verk allra ríkisstjórna að í því er að finna bæði ýmislegt, sem horfir til góðs og er ástæðulaust að láta liggja í þagnargildi, og enn fremur annað, sem ekki er með slíkum svip.

Hæstv. ríkisstj., og þá fyrst og fremst hæstv. forsrh., hefur mikið talað um góða afkomu ríkissjóðs árið 1980. Hæstv. fjmrh. hefur farið nokkuð varlegar í sakirnar en hæstv. forsrh. Hæstv. fjmrh. hefur haldið fram að líkur bendi til að afkoman verði viðunandi og látið þar við sitja.

Í þjóðhagsáætlun fyrir árið 1981, sem hæstv. forsrh. lagði fram á Alþ. 23. okt. s.l., er sérstaklega fram tekið á bls. 7. að rekstrarafgangur hafi verið hjá ríkissjóði tvo fyrstu mánuði ársins, þ.e. nokkru áður en hæstv. ríkisstj. tók við völdum, og sömu sögu hafi verið að segja um maí og síðan upplýsir hæstv. fjmrh. það um ágústmánuð einnig. Ég tek þessa yfirlýsingu hæstv. forsrh. sem eina yfirlýsingu hans í viðbót um hversu góður viðskilnaðurinn var hjá minnihlutastjórn Alþfl. þar sem hann telur sérstaka þörf á að taka það fram í skýrslu sinni um þjóðhagsáætlun að hún hafi skilað rekstrarafgangi fyrstu tvo mánuði ársins. En látum það nú vera.

Það er skiljanlegt að hæstv. fjmrh. fari færri orðum um þetta mál en hæstv. forsrh., af þeirri einföldu ástæðu að aðeins 1% breyting til eða frá á útgjöldum ríkisins getur munað ríkissjóð um 3.5 milljarða kr. Þessi tiltölulega litla sveifla í ríkisbúskapnum getur sem sé breytt mjög verulega afkomu ríkissjóðs, og þó allar líkur kunni að benda til þess núna að afkoman geti orðið viðunandi er eðlilegt að hæstv. fjmrh. vilji fara með löndum í sambandi við yfirlýsingar um það.

Afstaða hæstv. forsrh. er raunar skiljanleg, ekki síst vegna þess að þetta er líklega það eina sem ríkisstj. hans getur talið sér til tekna þá níu mánuði sem hún hefur starfað. Það eina sem hæstv. forsrh. getur talið ríkisstj. sinni til gildis er að líkur benda til að afkoma ríkissjóðs á árinu 1980 kunni að verða viðunandi. Það er ósköp eðlilegt að hæstv. forsrh., sem ekki getur bent á neitt annað sér eða sínum til gildis, vilji halda þessari staðreynd á lofti.

Nú þykir mér algerlega ástæðulaust að draga úr því, að ríkisbúskapurinn sé meira í jafnvægi í ár en oft áður. Ég tel að mjög sé líklegt að svo verði. Ég tel að ástæðulaust sé fyrir stjórnarandstöðu að vera að gera minna úr slíkri niðurstöðu en efni standa til. En ástæðurnar fyrir því, að ríkisbúskapurinn er rekinn í meira jafnvægi í ár en oft áður, geta verið tvíþættar. Ástæðan getur verið sú, að fjármálastjórn núv. ríkisstj. sé betri en oft áður og því sé afkoman betri. Önnur ástæða getur líka verið, sem sé sú, að tekjurnar, sem ríkisstj. hefur úr að spila til að mæta útgjöldum, séu miklu hærri í ár en þær hafa yfirleitt verið. Við skulum athuga hvor skýringin er hin rétta: betri fjármálastjórn eða meiri tekjur til ráðstöfunar. Við skulum engan leiða fram til vitnis um það annan en ríkisstj. sjálfa. Varla getur hún mótmælt eigin vitnisburði.

Á bls. 16 í Þjóðhagsáætlun hæstv. forsrh. er sérstakur kafli um ríkisfjármál og peningamál. Þar segir m.a. að á tímabilinu frá janúar til ágústloka hafi verðbólga verið 58% á Íslandi og á sama tímabili hafi útgjöld ríkissjóðs aukist um 50% eða nokkru minna. Hæstv. fjmrh. tók þetta raunar fram í ræðu sinni áðan og benti sérstaklega á að útgjöld ríkissjóðs hefðu á árinu aukist minna en verðbólgan. En hæstv. ráðh. lét þess ekki getið, að í þjóðhagsáætlun forsrh. væri gefin skýring á þessu. Skýringin er ekki sú, að sögn hæstv. forsrh. í þjóðhagsáætlun hans, að fjármálastjórn ríkisstj. hans hafi verið betri. Skýringin er sáraeinföld. Hún er sú, að það var miklum mun minna varið til niðurgreiðslna úr ríkissjóði á þessu tímabili en á sama tíma á árinu áður. Það eru ekki margþættar ráðstafanir til betri fjármálastjórnar sem orsaka þennan mun á útgjöldum og verðbólgu, heldur að sögn ríkisstj. sjálfrar sú einfalda staðreynd, að minna fé var varið til niðurgreiðslna í ár en í fyrra. Þá segir hæstv. forsrh. í sömu þjóðhagsáætlun, að á sama tíma og þetta hafi gerst, verðbólgan vaxið um 58%, hafi tekjur ríkissjóðs vaxið um 61% m.ö.o. miklum mun meira en nemur verðbólguvextinum.

Þetta er skýringin á því, að rekstur ríkissjóðs á árinu 1980 virðist ætla að vera í jafnvægi. Skýringin er mjög einföld. Skýringin er sú, að ekkert annað hefur gerst varðandi ríkisbúskapinn en það eitt, að tekjur ríkissjóðs á árinu 1980 hafa vaxið um 61% á sama tíma og verðbólgan hefur vaxið um 58%. Og hvað munar um þetta í handbæru fé fyrir hæstv. fjmrh. og ríkisstj.?

Söluskattur var hækkaður um 1.5 stig í vor og olíustyrkur notaður sem átylla. Þó fór ekki nema lítið brot af þessum söluskattstekjum til að greiða olíustyrk sem áður hafði verið greiddur af almennu aflafé ríkissjóðs. Aðeins þessi eina breyting gaf hæstv. fjmrh. og ríkisstj. 7 milljarða í aðra hönd til að ráðstafa á árinu 1980, sem ríkisstj., sem sat að völdum árið 1979, hafði ekki.

Haustið 1979 var söluskatturinn hækkaður um 2 stig. Sú hækkun gaf hæstv. fjmrh. og ríkisstj. á árinu 1980 10–11 milljarða í viðbótartekjur sem hæstv. fyrrv. fjmrh. Tómas Árnason hafði ekki.

Beinir skattar voru hækkaðir mjög verulega. Heildarskattbyrði beinna skatta var aukin um 6 milljarða kr. á árinu 1980 umfram það sem hún hefði verið ef álagningunni frá árinu 1979 hefði verið haldið og hún færð upp með verðbólguþróun. Verulegur hluti þessarar hækkunar starfar af hækkuðum eignarskatti og hækkuðum tekjuskatti hjá einstaklingum.

Tekjuöflunin á árinu 1980 var þannig a.m.k. um 20 milljörðum kr. meiri hjá núverandi hæstv. ríkisstj. en hjá hinni fyrrverandi. Núv. hæstv. fjmrh. hafði fyrir utan almennar verðlagstilfærslur í landinu um 20 milljörðum meira úr að spila en hæstv. fyrrv. fjmrh. Tómas Árnason.

Þetta er hin einfalda skýring á því, að rekstur ríkissjóðs er meira í jafnvægi á árinu 1980 en hann var árið 1979. Ef hæstv. fjmrh. Ragnar Arnalds hefði ekki haft úr meiri peningum að moða en hæstv. þáv. fjmrh. Tómas Árnason hafði hefði halli á ríkisbúskapnum í ár verið nokkuð á annan tug milljarða kr. Ástæðan fyrir því, að það varð ekki, var sú, sem ég nefndi áðan, að söluskattur hafði verið hækkaður í millitíðinni um 3.5 stig og beinir skattar um nokkra milljarða. Þannig er það ekki góð fjármálastjórn sem er orsökin fyrir því, að rekstur ríkissjóðs er nú meira í jafnvægi en hann var t.d. á s.l. ári. Og það þarf ekki að hafa mín orð fyrir því. Hæstv. forsrh. segir þetta og staðfestir óbeint sjálfur í þjóðhagsáætlun sinni og hann staðfestir einnig sjálfur hver ástæðan var. Ástæðan var nýjar tekjur að upphæð um það bil 20 milljarðar kr. sem núv. ríkisstj. hefur til ráðstöfunar, en fyrrv. ríkisstj. hafði ekki. Ef hæstv. fjmrh. hefði ekki haft þessar viðbótartekjur milli handanna í ár hefði ríkissjóður í höndum hans verið rekinn með halla upp á nokkuð á annan tug milljarða kr.

Hins vegar finnst mér gersamlega ástæðulaust að gera lítið úr þætti fjmrh. Ragnars Arnalds í stjórnun ríkisfjármála. Það er mín skoðun, að hæstv. ráðh. hafi breytt mjög verulega um skoðun og stefnu í efnahags- og ríkisfjármálum eftir að hann gerðist fjmrh. Ég held að það fari ekki milli mála hjá mönnum, sem hafa fylgst með ræðum hæstv. núv. fjmrh. á þingi, að hann er allur annar maður eftir að hann settist í stól fjmrh. en áður, hvort sem hæstv. fjmrh. var innan eða utan ríkisstj. Hæstv. ráðh. hefur farið í nokkurs konar pólitíska endurhæfingu í fjmrn. og um niðurstöðuna verð ég að segja að hún lofar góðu. Ég tel að þessi pólitíska endurhæfing hafi verið hæstv. ráðh. mjög til góðs. Hins vegar er ég ekki alveg eins viss um að flokksbræður hæstv. fjmrh. séu alveg á sömu skoðun um það mál. Ég gæti vel trúað að þeir mundu miklu heldur vilja hafa heyrt áfram gamla tóninn en þann nýja sem endurhæfingin í fjmrn. hefur fært hæstv. ráðh. Það segi ég satt: Ég átti á dauða mínum von, en ekki því, að hæstv. ráðh. færi eftir mánaða setu í öðru hvoru orði að tala eins og velmeinandi krati, en það er hann smátt og smátt að fara að gera, að mér skilst við lítinn fögnuð sinna flokksbræðra.

Mér finnst sem sé algerlega ástæðulaust að vera að draga fjöður yfir að hæstv. fjmrh., að þessari endurhæfingu fenginni, hefur staðið sig nokkuð vel í rn. sínu m.a. náð talsverðum árangri í því að hamla gegn kröfugerðum starfsbræðra sinna í Alþb., eins og hæstv. iðnrh. sem hann hefur verið þröskuldur í vegi fyrir, og gæti ég vel trúað því, að hæstv. fyrrv. fjmrh. Tómas Árnason hafi oft glott við tönn þegar hann hefur hlýtt á arftaka sinn í stól fjmrh. undanfarna níu mánuði.

Herra forseti. Núverandi frv. hæstv. ríkisstj. hækkar frá frv., sem lagt var fram í vor, úr 340 milljörðum kr. í 534 milljarða eða um 57%. Verðbólgan hefur á sama tíma orðið 58%, þannig að hækkun á fjárlagafrv. frá síðasta frv. hæstv. fjmrh. er nánast nákvæmlega sú sama og verðbólguþróunin hefur verið, tölurnar eru bara framreiknaðar með tillit til verðbólguþróunarinnar.

Í þessu frv. eru gefnar ákveðnar forsendur í verðlags- og gengismálum. Þessar forsendur fjárlagafrv. eru í senn styrkur þessa frv. og veikleiki.

Ég vil í framhjáhlaupi minna á miklar deilur sem urðu í ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar við fjárlagagerðina fyrir árið 1979. Þar var m.a. mjög harkalega deilt um hvort ætti að byggja fjárlagagerð á slíkum verðlags- og gengisforsendum, á áættunum ríkisstj. um líklega verðlags- og gengisþróun á því ári sem fjárlagafrv. var flutt fyrir. Þeir, sem börðust hatrammlega gegn því að fjárlög yrðu gerð með þessum hætti, voru hæstv. núv. fjmrh. og flokksbræður hans. Þeir komu því til leiðar á elleftu stundu fjárlagagerðarinnar að horfið var frá því að reisa fjárlög á slíkum forsendum, en allar tölur þáv. fjárlagafrv. umreiknaðar í desemberverðlag og engin áætlun gerð um líklega gengis- eða verðlagsþróun á árinu 1979.

Þetta segi ég hér aðeins til að sýna fram á hvernig hæstv. fjmrh. og flokkur hans hefur, eftir að hæstv. ráðh. kom í stól fjmrh., gjörsamlega snúið við blaðinu. Nú leggur hæstv. ráðh. fram frv. og telur því helst til gildis að það skuli reist á spám um þróun gengismála og verðlagsmála á næsta ári. Nú telur hann frv. sínu helst það til gildis sem hann barðist hatrammlegast gegn sem menntmrh. í ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar að gert yrði þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum um hvaða árangri endurhæfingin í fjmrn. hefur skilað. Ég kalla þetta gott á aðeins níu mánuðum. Hvernig haldið þið að það verði á næstu níu mánuðum?

Þessar forsendur hæstv. ráðh. um líklega gengisþróun og verðlagsþróun á árinu 1981 eru í senn styrkur fjárlagafrv. og veikleiki. Þessar forsendur eru styrkur fjárlagafrv. ef þær þýða að ríkisstj. ætli sér að halda þannig á efnahagsmálum að þeim forsendum, sem hún byggir á fjárlagagerð sína, verði haldið á árinu 1981 þannig að verðbólga fari þá ekki yfir 42% og gengissig ekki fram úr 33%. Ef ríkisstj. ætlar að standa á þessu, eins og einn hæstv. ráðh. gjarnan orðar það, eins og hundur á roði er þetta styrkur fjárlagagerðarinnar. Ef þessar forsendur eru aftur á móti út í loftið eru þær veikleiki fjárlagagerðarinnar vegna þess að þá er ekki að marka eina einustu tölu sem Alþ. afgreiðir og reist er á þessum forsendum.

Hæstv. fjmrh. boðar það m.a., og þykist boða það vel, að gengissig á næsta ári verði 33%. Hvað þýðir það, góðir menn? Það þýðir að nýja krónan, sem á að ganga í gildi um n.k. áramót, á samkv. boðskap ríkisstj. að vera orðin 67 aura virði í árslok, á tólf mánuðum. Þetta er það sem ríkisstj. boðar best. Hún boðar það best, að nýja krónan, sem á að ganga í gildi eftir nokkrar vikur, verður orðin 67 aura virði að tólf mánuðum liðnum. Þetta er það sem menn geta best átt von á frá hæstv. ríkisstj. Með sambærilegum hætti verður þessi nýja króna, sem gengur í gildi um næstu áramót, orðin 30 aura virði þegar kjörtímabili núv. hæstv. ríkisstj. lýkur. Þá er miðað við að ríkisstj. standi við þær forsendur sem hún gefur sér í fjárlagafrv. Standi hún ekki við þessar forsendur verður nýja krónan orðin miklu minna virði að kjörtímabilinu liðnu en 30 aura.

Hæstv. ríkisstj. reisir fjárlagagerð sína á þeim forsendum að verðlag frá miðju ári 1980 til miðs árs 1981 hækki ekki meira en um 42%. Hvernig var þetta í fyrra þegar fjárlögin voru afgreidd? Fyrstu fjárlög hæstv. ríkisstj. byggðust á þeirri forsendu, að verðlag frá miðju ári 1979 til miðs árs 1980 mætti ekki hækka um meira en 45–46%. En hver varð niðurstaðan, hvernig var staðið á þessum forsendum? Niðurstaðan varð sú, að verðbólgan óx ekki um 45–46%, heldur 58%. Spá ríkisstj. reyndist yfir 30% röng. Ef fjárlagaforsendurnar eiga að standast verður ríkisstj. því að gera einhverjar ráðstafanir þegar fyrir 1. des. n.k. Geri hún það ekki er það yfirlýsing frá hæstv. ríkisstj. um að ekki sé að marka stafkrók í þessari þykku bók, þá er það yfirlýsing um að ríkisstj. sé sjálf búin að brjóta á bak aftur allar þær verðlagsforsendur sem frv. hennar byggist á, vegna þess að ef aðgerðum er frestað fram yfir 1. des. er útilokað með öllu að hægt sé að ná þeim árangri að verðlagsþróun frá miðju ári 1980 til miðs árs 1981 fari ekki yfir 42%.

Að þessu athuguðu er ljóst mál að forsendur frv. í gengis- og verðlagsmálum eru í senn bæði styrkur þess og veikleiki. Þær eru styrkur frv. ef ríkisstj. meinar eitthvað með þeim, en þær eru veikleiki frv. ef ríkisstj. verður á árinu 1981 eins og hún hefur verið á árinu 1980, þ.e. að þetta séu aðeins innantóm orð sem aldrei sé ætlunin að standa við. Þá gætum við alveg eins lagt þessa bók á glatkistuna. Þá er ekki að marka stafkrók af því sem í henni stendur.

Ég hef eilítið gaman af að hlýða á hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. lýsa yfir að fram komi í 1. gr. fjárlagafrv., í greiðsluyfirliti ríkissjóðs, skoðun um nýja stefnu í ríkisfjármálum, sem m.a. komi fram í því að nú eigi tekjur umfram gjöld að vera hvorki meira né minna en 7.1 milljarður, það eigi að greiða lán umfram tekin lán að upphæð 2 milljarðar o.s.frv., o.s.frv. Ég hef haft gaman af þessu vegna þess að mér er ekki fyllilega ljóst enn hvort hæstv. ráðh. gera sér grein fyrir því, hvernig þetta er fengið, hvort þeir átta sig á að þessi niðurstaða boðar aldeilis ekki nein tímamót, heldur stafar af mjög einfaldri breytingu sem gerð hefur verið á meðferð vaxtamála, nánast bókhaldsbreytingu einni saman sem þessir hæstv. ráðh. skilja ekki.

Ég skal með mjög augljósu dæmi reyna að sýna fram á hvernig niðurstaðan er í raun. Ef við flettum upp á bls. 170, hæstv. fjmrh., í fjárlagafrv. kemur sú athyglisverða niðurstaða fram, að þar er ekki gert ráð fyrir að vaxtagreiðslur ríkissjóðs á milli áranna 1980 og 1981 hækki meira en um 23%. Og nú skulum við aðeins staldra við. Hvernig getur það gerst í fjárlagafrv., sem reist er á 42% verðhækkunum, að vaxtagreiðslur eigi ekki að hækka um nema 23%? Getur það verið rétt spá, að vaxtagreiðslur ríkissjóðs eigi ekki einu sinni að halda í við verðbólguna? Auðvitað ekki. Hver er þá skýringin? Jú, skýringin er sú, að það er búið að breyta reglum um meðferð vaxta í ríkisbókhaldinu. Breytingin er á þá leið, að því, sem áður hét vextir, en þeir gátu numið 40–45%, jafnvel meira, af lánum ríkissjóðs, er nú búið að skipta upp í tvennt: annars vegar verðbótaþátt vaxta, sem færður er á lánabreytingar, og hins vegar vaxtagreiðslur, sem færðar eru til gjalda á rekstrarreikningi ríkissjóðs. Þetta er skýringin. Það er búið að gera þarna ákveðna bókhaldsbreytingu. Hvaða áhrif skyldi þetta hafa á niðurstöðutölur hæstv. ráðh.? Veit hæstv. ráðh. það eða veit hann það ekki? Mér er spurn. Ef hann veit það ekki er alveg sjálfsagt að sýna honum það. Ef hann veit það hins vegar eru allar yfirlýsingar hans og hæstv. forsrh. um einhverja nýbreytni í fjárlagagerðinni harla broslegar.

Það má áætla að verðbótaþáttur vaxta, sem áður var færður á rekstrarreikning sem greiddir vextir, nemi á árinu allt að 6–7 milljörðum eða eitthvað þar um bil. Ef þetta fjárlagafrv. væri gert upp í 1. gr. eins og öll fjárlagafrv. þar á undan mundi gjaldaliðurinn í þessu fjárlagafrv. eiga að hækka um 6–7 milljarða kr., þ.e. þau vaxtagjöld sem kallast nú verðbótaþáttur vaxta og færast sem greidd lán, en ekki vaxtagjöld eins og áður gerðist. Ef notuð er sú aðferð, sem notuð hefur verið við uppgjör allar götur fram að þessu fjárlagafrv., ættu vaxtagjöld að koma inn á rekstrarreikning sem útgjöld, bæði verðbótaþáttur vaxta og vextirnir. Þetta mundi hafa þau áhrif, að gjöldin mundu hækka um það sem verðbótaþætti vaxta nemur, 6–7 milljarða kr., og þá er rekstrarjöfnuðurinn orðinn ekki neitt. Þá eru tekjur umfram gjöld á reikningnum núll. Þessi bókhaldsbreyting hefur haft það í för með sér, að svo virðist vera að tekjur umfram gjöld samkv. þessum nýju bókhaldsreglum séu 7.1 milljarður, en ef sama regla hefði verið notuð við færsluna í ár og notuð hefur verið öll árin þar á undan mundi á þessum stað, fyrstu síður fjárlagafrv., ekki standa tekjur umfram gjöld á rekstrarreikningi 7.1 milljarður, heldur tekjur umfram gjöld á rekstrarreikningi nánast núll. Mér er spurn: Hefur ekki hæstv. fjmrh. séð þetta einnig eða er hann að gera sig broslegan með því að halda þessu fram?

Hvaða áhrif hefur þetta frekar? Jú, verðbótaþáttur vaxta, þessir 6 milljarðar sem áður voru, — ég sé að hæstv. fyrrv. fjmrh. áttar sig á þessu, því hann brosir í sæti sínu, glottir við tönn, — þessi upphæð, sem áður var færð til gjalda á rekstrarreikningi ríkissjóðs, þessi verðbótaþáttur, hún er núna færð upp bókhaldslega sem afborgun af lánum, þ.e. hækkar afborgun af lánum úr u.þ.b. 15 milljörðum í u.þ.b. 21 milljarð. Og hvaða áhrif hefur þessi bókhaldsaðferð á lánahreyfingar ríkissjóðs? Jú, hún hefur þær breytingar í för með sér, að í þessu fjárlagafrv. stendur að afborganir af lánum umfram tekin ný lán nema samkv. þessu uppgjöri 2 milljörðum. Svo kemur hæstv. forsrh. og hrósar sér af því, að ríkisstj. ætli að fara að borga mikið af skuldum. En ef sama uppgjör hefði verið notað og í öllum fjárlagafrv. þar á undan, hvernig mundi þessi tala þá hafa verið? Jú, þá hefði hún snúið öfugt. Þá hefði staðið þarna: innborganir umfram útgreiðslu 4 milljarðar kr. Ríkisstj. mundi þá hyggjast taka ný lán að upphæð 4 milljarðar kr. umfram þau lán sem hún ætlaði sér að greiða. Þetta skilur hæstv. fyrrv. fjmrh. líka því hann situr hér og skellihlær.

Þetta er nýja stefnan hæstv. fjmrh. Barnalega brosleg fullyrðing sem er í þeirri einföldu bókhaldsbreytingu fólgin, að í staðinn fyrir, eins og áður var gert, að færa alla vexti til gjalda á rekstrarreikningi er nú aðeins hluti vaxtanna færður þar til gjalda, en meginhlutinn, hinn svokallaði verðbótaþáttur, er færður sem lánabreytingar, sem afborganir af greiddum lánum.

Það er ein tala sem ekki mundi breytast við þessi uppgjör, þ.e. greiðsluafgangurinn. Hann yrði áfram 3.8 milljarðar kr. En hvað mundi hann tákna miðað við uppsetningu eins og allir aðrir fjmrh. hafa þurft að sætta sig við? Hann mundi tákna það mjög einfaldlega, að greiðsluafgangur væri fenginn með lántöku upp á sömu upphæð. Greiðsluafgangurinn er 3.8 milljarðar, en innkomin lán umfram afborganir af lánum um 4 milljarðar. M.ö.o.! greiðsluafgangurinn er búinn til með því að auka lántökur ríkissjóðs um 4 milljarða umfram það sem ríkissjóður borgar af lánum.

Ef nokkuð er Matthíasarfrv., svo notað sé orðalag hæstv. fjmrh., þá er það þetta. Það er nákvæmlega svona sem hv. þm., þáv. fjmrh., Matthías Á. Mathiesen fór að. Hann bjó til greiðsluafgang með því nákvæmlega að taka meiri lán en hann greiddi, með sama hætti og hæstv. núv. fjmrh. gerir. Og mér er enn spurn: Situr nú hæstv. ráðh. þarna og er að fá nýjar upplýsingar sem koma honum á óvart? Það gerir hann ekki. Hann veit þetta allt saman. Hvað í veröldinni er þá hæstv. fjmrh. að boða þegar hann segir að þetta sé einhver stefnubreyting? Er það stefnubreyting í ríkisfjármálum að skila rekstrarjöfnuði upp á nánast núll í fjárlagafrv.? Er það stefnubreyting í ríkisfjármálum að ætla sér að taka 4 milljarða til láns umfram það sem menn greiða af lánum? Og er það stefnubreyting í ríkisbúskap að skila greiðsluafgangi sem er búinn til með lántökum? Nei, svo er ekki.

En það bætist svolítið við þessa sögu alla saman. Á bls. 7 er gert ráð fyrir að leggja á sérstakt aðlögunargjald að upphæð 2.7 milljarðar kr., sem samkv. samkomulagi Íslands við önnur ríki á að falla úr gildi um áramótin og við vitum að ekki verður framlengt í samkomulagi við aðra, enda er raunar tekið fram í aths. fjárlagafrv. að þetta sé allt í endurskoðun. En hæstv. fjmrh. er með gjaldið teknamegin, en gerir ekki ráð fyrir að neinu af því sé ráðstafað útgjaldamegin. Útgjaldamegin er nefnilega aðeins verið að ráðstafa um það bil 1 milljarði vegna aðlögunargjalds, sem er skuld frá því í fyrra. Það er skuld, endurgreiðsla á tekjum sem innheimtar voru í fyrra og ríkissjóður lofaði að standa skil á í ár. M.ö.o.: hæstv. ráðh. býr þarna til tekjustofn, sem á ekki að vera til og verður ekki til, að upphæð 2.7 milljarðar kr. sem ætti þá að ráðstafa til sérstakra þarfa, en er ekki ráðstafað. Hann aflar peninganna, sem eru markaður tekjustofn, og ráðstafar þeim síðan ekki. Og hvað þýðir þetta? Það þýðir að rekstrarafgangurinn hjá hæstv. ráðh. miðað við þetta er orðinn neikvæður. Lántakan 4 milljarðar umfram afborganir af erlendum lánum dugar sem sé ekki til þess að færa hæstv. ráðh. greiðsluafgang. Þetta er ekki heldur nein nýbreytni í ríkisfjármálum. Þetta er fjármálabúskapur sem hæstv. núv. fjmrh. hefur kennt við hv. þm. Matthías Á. Mathiesen.

Það er hins vegar mál vert umhugsunar, að vextir og afborganir af lánum eru nú komin upp í um það bil 40 milljarða í útgjöldum ríkissjóðs, þar af vextirnir um 20 milljarða og afborganir um það bil 20 milljarða. Menn sjá í hendi sér að þegar svo mikið af aflafé ríkissjóðs fer í að greiða vexti og afborganir af lánum, sem fyrst og fremst eru erlend lán, má engu muna í sambandi við gengisforsendur fjárlagafrv. til þess að allt fari á hliðina. Aðeins óveruleg breyting á t.d. gengissigs- og verðlagsforsendum frá því, sem frv. gerir ráð fyrir, gæti kostað það, þegar um svona miklar tölur er að ræða, að ríkissjóður hreinlega fari yfir um og hagkvæm niðurstaða breytist í óhagkvæma.

Á bls. 182 í þessu fjárlagafrv. er nokkuð rætt um hvernig hæstv. ríkisstj. hyggst standa að lánsfjáröflun vegna fjárlagagerðarinnar. Þar kemur m.a. fram að innlend fjáröflun á alls að vera um 23 milljarðar kr., sem skiptist þannig, að útgáfa spariskírteina og happdrættisskuldabréfa á að gefa 9 milljarða, innheimta af endurlánuðu spariskírteinafé mínus innlausn spariskírteina á að gefa aðra 9 og önnur innlend fjáröflun 5 milljarða kr. Það kemur ekki fram í þessu yfirliti hvernig hæstv. ríkisstj. hyggst skipta „annarri innlendri fjáröflun“ milli lífeyrissjóðanna annars vegar og viðskiptabankanna hins vegar. Hvernig hyggst hæstv. ríkisstj. ná í þetta fé? Hve mikið á að leggja á lífeyrissjóðina í landinu af skyldukaupum og hve mikið á að leggja á viðskiptabankana'? Ég tel að það væri mjög æskilegt að fá upplýst á eftir hjá hæstv. ráðh. hvernig þessi tala er fengin. En ég skal taka það fram, að mér þykir ekki ástæða til annars en að vænta þess, að áætlunin um innlenda fjáröflun geti staðist. Ég vil hins vegar vekja athygli á því að til þess að dæmið gangi upp hjá hæstv. ráðh. verður hann að áætla erlenda lántöku í þessu skyni um 35 milljarða kr. Það er það sem gerir að verkum að dæmið gengur upp hjá hæstv. ráðh.

Í fyrra námu erlendar lántökur vegna ríkissjóðs og ríkisstofnana um 11.7 milljörðum kr. Þessi erlenda lántaka vegna ríkissjóðs er nú hækkuð úr 11.7 milljörðum í 35 milljarða á einu ári eða meira en þrefölduð. Þetta lét hæstv. fjmrh. hjá líða að benda á í ræðu sinni áðan, að ríkisbúskapurinn í hans höndum gengur ekki upp nema vegna ríkissjóðs og ríkisstofnana sé næstum því þrefölduð erlend lántaka á einu ári. Er það ekki áhyggjuefni, eins og stendur nú bæði í efnahagsmálum þjóðarinnar almennt og í erlendum lántökumálum, að gera verði ríkissjóð upp með þeim hætti, dæmið gangi ekki nema erlend lántaka hans vegna sé þrefölduð?

Þá eru nokkur mál sem mig langar til að víkja að. Ég leyfi mér að benda á að í fjárlagafrv. eru niðurgreiðslur mjög gróflega vanáætlaðar ef ríkisstj. ætlar sér að standa við ákvæði í stjórnarsáttmála sínum um niðurgreiðslur, sem vissulega eru búnar að binda hana í báða skó. Í sjálfu frv. er áætlaður 31 milljarður til niðurgreiðslna, en það þýðir óbreytt niðurgreiðslustig frá því sem var í sept. s.l., að niðurgreiðslustigið frá því, sem það var í sept. s.l., eigi að gilda allt næsta ár. Slíkt væri brot á ákvæðum stjórnarsáttmálans og mundi hafa í för með sér verulega kjararýrnun fyrir allan almenning. Ég tel að til að standa við ákvæði stjórnarsáttmálans vanti um það bil 4 milljarða kr. til að halda niðurgreiðslustiginu óbreyttu á næsta ári, miðað við það auk þess, að verðlagsforsendur fjárlagafrv. standist. Standist verðlagsforsendur fjárlagafrv. ekki vantar mun hærri fjárhæð en þessu nemur.

Hæstv. fjmrh. bendir á í þessu sambandi að ráðstafa eigi 12 milljörðum í fjárlagafrv. til sérstakra aðgerða. Ef niðurgreiðslurnar eiga að koma af þessum lið þýðir það að hæstv. ráðh. og ríkisstj. hans ætla sér að láta almenning í landinu og verkalýðshreyfinguna kaupa sama niðurgreiðslustigið upp aftur og aftur í kjaraskerðingum. Það á sem sé að selja launþegahreyfingunni niðurgreiðslurnar sem hún keypti í fyrra, hittiðfyrra og árið þar áður. Öðruvísi verður þetta ekki skilið en eigi að nota sama gjaldmiðilinn aftur og aftur upp á nýtt, láta launþega landsins kaupa sömu niðurgreiðslurnar aftur og aftur í rýrðu kaupi. — En ætli tilgangurinn sé ekki annar þegar betur er skoðað?

Heyrst hefur að nýr vísitölugrundvöllur væri á leiðinni. Í þessum nýja vísitölugrundvelli skipta þær neysluvörur, sem nú eru niðurgreiddar, miklu minna máli. Ætli það sé ekki á bak við að þegar Alþýðusambandsþingi er lokið og átök þar hafa gengið sinn gang og ríkisstj. búin að sitja þegjandi allar götur þangað til eigi að tilkynna að frá og með n.k. áramótum gangi í gildi nýr vísitölugrundvöllur þar sem þarf ekki að kaupa þau niðurgreiðslustig sem keypt hafa verið með sama hætti og gert hefur verið og ríkisstj. ætli sér að hagnast á þeim viðskiptum. Ég vil gjarnan óska eftir svari hæstv. fjmrh. við því. Takið nú vel eftir, þeir sem áhuga hafa á að hlusta á svarið, hvort hann svarar eða ekki. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. í þessu sambandi tveggja spurninga:

1. Getur hann á þessu stigi máls eitthvað um það sagt, hvort ríkisstj. hans hyggst taka upp nýjan vísitölugrundvöll um n.k. áramót?

2. Ef það verður mun þá ekki hæstv. ríkisstj. sjá svo um að Alþýðusambandsþingi verði frá þeirri aðgerð skýrt þannig að Alþýðusambandsþing geti gert sér grein fyrir áhrifum hennar á kjör launþega?

Eins og hæstv. ráðh. tók fram eru útflutningsbætur í frv. miðaðar við að fullnýta þá heimild sem ríkisstj. hefur til greiðslu á útflutningsbótum. Hins vegar tók hæstv. landbrh. fram, að mig minnir í umr. hér á Alþ. í fyrradag, að hæstv. ríkisstj. mundi greiða auk leyfilegra útflutningsuppbóta um 30–33% af viðbótarþörf. Þetta mál var leyst þannig í fyrra að Framleiðsluráð landbúnaðarins var látið taka 3 milljarða kr. lán sem allir vissu að Framleiðsluráði var ekki ætlað að endurgreiða. Endurgreiðslunni verður þannig hagað að Byggðasjóður greiðir helming lánsins, allt annað, þ. á m. vextir, hlýtur að falla á ríkissjóð. Með þessum hætti, að láta aðila úti í bæ, sem allir vissu að ekki gat staðið skil á slíkri lántöku, taka lánið þó að ætlunin væri ávallt sú að ríkissjóður stæði undir þeim hluta þess sem Byggðasjóður ekki greiddi, eru tekin upp ný vinnubrögð í sambandi við fjárlagagerð sem eru stórhættuleg. Nú vil ég af þessum tilefni spyrja hæstv. fjmrh.: Eru líkur á að höggvið verði í þann sama knérunn, að málið verði á árinu 1981 leyst með sama hætti og á árinu 1980, þar sem að yfirvarpi verði haft að Framleiðsluráð landbúnaðarins taki marga milljarða kr. lán sem í raun réttri ríkissjóður tekur og á að greiða af, en haldið er fyrir utan útgjöld á fjárl., eins og gert var í fyrra?

Þá vil ég enn fremur vekja athygli á því, herra forseti, að olíustyrkurinn til íslenskra heimila er í þessu frv. aðeins hækkaður um 25%, þó að verðbólgan hafi aukist um 58% frá því að síðasta fjárlagafrv. var lagt fram. Mér er kunnugt um að ástæðan er m.a. sú, að menn telja að aukin notkun annarra orkugjafa muni draga svo mikið úr olíunotkun að það þurfi ekki að auka styrkinn meira til að halda verðgildi hans. Þá áætlun viljum við þm. að sjálfsögðu fá að sjá. En það er ekki meginatriði málsins eða þarf ekki að vera, heldur hitt, að tekjurnar, sem raunverulega eru eyrnamarkaðar til þessara þarfa, 1.5% söluskattur sem lagður var á í fyrra til að mæta þessari þörf, þessar tekjur sem olíuvandi íslenskra heimila var notaður sem yfirvarp til þess að afla, þessi tekjustofn skilar ríkissjóði a.m.k. 12 milljörðum á næsta ári, en aðeins 5 milljarðar af þeim tekjustofni eiga að fara í olíustyrkinn. Afgangurinn, 7 milljarðar, fer í ríkishítina. Þarna er m.ö.o. verið að leika þann ljóta leik, að mikill vandi íslenskra heimila, sem þurfa að hita hús sín með innfluttu eldsneyti, er notaður sem yfirvarp til að leggja á skatt að upphæð 12 milljarðar kr., en af þessu skattfé er ráðstafað aðeins 5 milljörðum til að mæta þeim vanda sem látið er í veðri vaka að skatturinn sé á lagður til þess að mæta. Þetta er að sjálfsögðu algert hneyksli sem er í mjög góðu samræmi við allt það hneyksli sem verið hefur og var hjá þessari ríkisstj. frá því að hún var stofnuð. En þetta er ljótur leikur. Þetta er leikur þar sem verið er að hafa vanda nokkurra heimila í landinu að yfirvarpi fyrir allsherjar tekjuöflun fyrir ríkiskerfið, eins og ég hef hér sýnt fram á.

Þá vil ég enn fremur benda á að í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að erlend lántaka vegna vaxta og afborgana af öðrum erlendum lánum vegna Kröfluvirkjunar eigi á næsta ári að nema 6 milljörðum 275 millj. kr. Gera menn sér grein fyrir því, hvílíkur baggi þetta heimskulega fyrirtæki er orðið á íslensku þjóðinni? Hér er um arðlausa fjárfestingu að ræða sem engu skilar í þjóðarbúið, en þessi arðlausa fjárfesting kostar okkur á ári 6 milljarða 275 millj. kr. í afborgunum af erlendum lánum sem borguð eru með öðrum lántökum. Hvað þýðir þessi baggi? Hvað er Kröfluvirkjun orðinn þungur baggi á Íslendingum? Hún er jafnþungur baggi og nemur öllum samanlögðum bifreiðaskatti á landsmenn. Allur samanlagður bifreiðaskattur landsmanna rennur nú í það að borga fjármagnsútgjöldin af hinni arðlausu Kröfluvirkjun. Hún nemur 1/6 hluta af öllum samanlögðum rekstrarhagnaði Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. 1/6 hluti af öllum rekstrarhagnaði Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins fer í það eitt að standa undir fjármagnskostnaðinum af hinni arðlausu Kröfluvirkjun. Og svo á að framkvæma nýtt við þessa virkjun upp á 3.5 milljarða kr. 1981, þannig að framlög af almannafé til Kröfluvirkjunar á árinu 1981 vegna afborgana, vaxta og nýrra framkvæmda nema sem svarar tekjuskatti allra félaga í landinu. Tekjuskattur allra félaga í landinu hellist niður í hinar ónýtu borholur í Kröflu.

Hverjir báru ábyrgð á þessu? Hverjir voru það sem ábyrgðina báru? Hæstv. þáv. iðnrh. var sá maður sem í fylkingarbrjósti þeirra stóð sem báru ábyrgðina á Kröfluvirkjun. Hvað er hann nú? Hann er forsrh. Íslands. Hver var varaformaður Kröfluvirkjunar, sem fór með framkvæmdir í umboði ráðh.: Hvað er hann nú? Hann er æðsti yfirmaður allra vísindarannsókna á Íslandi, hæstv. menntmrh. Hvað er sá þriðji Kröflunefndarmaður sem á þingi situr? Hann er æðsti yfirmaður allra fjármála íslenska ríkisins. Það er búið að leiða Kröflustefnuna til öndvegis í þessari ríkisstj. Þeir, sem ferðinni réðu um þá heimskulegu framkvæmd, stjórna nú íslensku þjóðfélagi. Hvar í veröldinni annars staðar en hér mundi slíkt geta gerst? Og hvernig halda menn að slík ríkisstj. nái öðrum árangri en þeim sem hún hefur náð eða öllu heldur ekki náð á umliðnum mánuðum?

Vissulega eru, eins og ég sagði áðan, ýmis atriði í þessu fjárlagafrv. sem horfa til góðs. Ég vil í því sambandi sérstaklega benda á málefni ríkisspítala og daggjaldakerfið.

Undanfarin ár hafa ríkisspítalarnir verið mikið vandamál í rekstri ríkissjóðs og er líklegt að í ár fari þeir um það bil 2 milljörðum fram úr áætlun fjárl. Nú hefur tekist samkomulag á milli fjmrn. og heilbrrn. um málefni þessara spítala þannig að telja má að áætlun vegna þeirra sé með talsvert betri hætti í núv. frv. en verið hefur áður. M.a. varð samkomulag um hve mörg prósent af launum beri að áætla yfirvinnu- og álagsgreiðslur. Ég tel því nokkuð vel fyrir ríkisspítölunum séð í þessu fjárlagafrv. Það er atriði sem horfir til góðs og ástæðulaust að vera að draga fjöður yfir það.

Enn fremur er ástæða til að lýsa sérstakri ánægju yfir því, að það virðist vera orðið samkomulag á milli heilbrrn. og fjmrn. hvernig skuli taka á daggjaldakerfinu, sem hefur reynst ríkissjóði myllusteinn um háls. Þetta er líka atriði í fjárlagafrv. sem ástæða er til að vekja athygli á og fagna.

Í þriðja lagi má benda á að í fjárlagafrv. er stefnt að því að taka innheimtumenn ríkissjóðs sérstökum tökum, þannig að setja þá inn á fjárlög eins og ríkisstofnanir í staðinn fyrir að láta þá reka embætti sín út úr kassa eða af innheimtum tekjum sínum, eins og því miður hefur gerst. Þetta hefur gert það að verkum, að ýmsir innheimtumenn ríkissjóðs hafa skuldað ríkissjóði og skulda nú ríkissjóði hundruð millj. kr. Hæstv. ríkisstj. ætlar að taka á þessu máli og er það vel. Þannig eru ýmis atriði í þessu fjárlagafrv. sem horfa til heilla, og það er ástæðulaust að draga fjöður yfir það.

Ég vildi í örfáum orðum víkja að því sem hæstv. ráðh. ræddi um áðan, þ.e. um skattamál starfsmanna utanríkisþjónustunnar. Þetta starfsfólk þurfti ekki að greiða skatta samkv. eldri skattalögum. Með síðustu skattalagabreytingu var þessu starfsfólki gert að greiða sömu skatta og öllum öðrum landsmönnum, og er það út af fyrir sig ekkert óeðlilegt. Hins vegar var á það bent, að óeðlilegt væri að ekki yrði litið til þess, að sú kerfisbreyting væri gerð á þessum málum að nú væri starfsmönnum utanríkisþjónustunnar í fyrsta sinn gert skylt að greiða skatta af aflafé sínu. Sambærilegar breytingar voru, eins og hæstv. fjmrh. tók fram, gerðar gagnvart starfsfólki utanríkisþjónustu á Norðurlöndum, og í öllum þeim tilvikum var þannig á málinu tekið, að komið var í veg fyrir að starfsfólk utanríkisþjónustunnar yrði fyrir fjárhagslegu skakkafalli af þeim sökum með því að greiða því sérstaka launauppbót. Þessi mál voru rædd í minni ráðherratíð milli utanrrn. og fjmrn., og skrifstofustjóri fjmrn., Þorsteinn Geirsson, lagði til við mig að sami háttur og sama afgreiðsla yrði á höfð hjá okkur og hjá öðrum, sem búið hafa við svipaðar aðstæður. Ég gekk að sjálfsögðu frá því, með þeim fyrirvara þó, að það yrði samþ. hér á þingi. Eins og hæstv. fjmrh. hefur tekið fram, hefur hann óskað eftir því við þingið að það tæki þessi mál til sérstakrar skoðunar.

Við skulum gera okkur grein fyrir því, að ef við ekki gerum aðgerðir af þessu tagi verður að meta öll launamál starfsmanna utanríkisþjónustunnar upp á nýtt, skilja á milli þess, sem raunverulega er laun þessa fólks, og hins, sem er til þess að sjá fyrir útgjöldum varðandi starf þeirra. Til dæmis að nefna býr einn sendiherra íslenska ríkisins í yfir 600 fermetra húsnæði. Ef hann og kona hans réðu verustað sínum sjálf þætti mér mjög ólíklegt að þau mundu velja sér slíkan bústað, að þau mundu vilja búa í rúmlega 600 fermetra íbúð. Ætli konan mundi ekki gjarnan vilja hafa húsnæðið eitthvað minna. Þetta er hins vegar sá bústaður sem þeim er fenginn í hendur af íslenska ríkinu, og þau eiga að reka þennan bústað, m.a. að greiða af því fé, sem þau taka við af ríkinu bæði laun ýmiss starfsliðs og ræstingu. Að sjálfsögðu er ekki hægt að gera ráð fyrir því, ef laun eru skilin venjulegum skilningi þess orðs, að þá sé íslenska ríkið að skikka fólk, sem er í störfum fyrir það erlendis, til að standa af sínum eðlilegu launatekjum straum af kostnaði við rekstur slíks húsnæðis, enda var það aldrei ætlunin. Ef sá háttur verður ekki á hafður í sambandi við þessi mál sem hafður var á öllum öðrum Norðurlöndum undir hliðstæðum kringumstæðum, þá verður einfaldlega að meta launamál starfsmanna utanríkisþjónustunnar algerlega frá grunni og upp á nýtt, gera þeim þá fært að reka sendiráð sín og heimili af því tagi sem ég hér nefndi, gera þeim kleift að standa undir slíkum rekstrarkostnaði með endurgreiðslu á þeim kostnaðarliðum sem það krefst, þannig að laun starfsmanna utanríkisþjónustunnar verði þá raunveruleg laun, en feli ekki í sér alls konar kostnaðarliði eins og hér um ræðir. Hins vegar er þetta að sjálfsögðu ekkert stórmál, heldur mjög einfalt framkvæmdamál sem ég held að hljóti að vera unnt að leysa. Ég hef ekki trú á öðru en að hæstv. núv. utanrrh. hafi áhuga á að málið verði leyst.

Herra forseti. Það frv., sem hér er lagt fram, boðar engin stórtíðindi og engar breytingar. Ég hef í máli mínu sýnt fram á hvernig þær niðurstöður í 1. gr., sem ríkisstj. hrósar sér af, eru fengnar. Hér er aðallega um að ræða breytingar á færslum vegna þess að vaxtagreiðslur eru nú teknar öðrum tökum en þær hafa verið teknar á umliðnum árum. Ef nokkuð er, þá er frv. því miður veikara en mörg eldri frv. sem lögð hafa verið fram, bæði af þessum sökum og eins vegna þess að ekkert bendir til þess, að hæstv. ríkisstj. ætti sér að standa við þær forsendur í verðlags- og gengismálum sem þetta frv. byggir á. Ef hæstv. ríkisstj. hefur ekkert aðhafst fyrir 1. des. n.k. er enginn mannlegur máttur sem getur ráðið við það, að við forsendur frv. í gengis- og verðlagsmálum verði staðið. Menn þurfa ekki að bíða fram á árið 1981 til að ganga úr skugga um það. Menn þurfa ekki að bíða nema í nokkra daga, í hæsta lagi örfáar vikur. Reynist svo vera, eins og hingað til hefur verið, að hæstv. ríkisstj. bresti kjark, dug og hugkvæmni til þess að hafast að á næstu örfáum vikum, er allt þetta plagg gagnslaust og merkingarlaust pappírsplagg sem eins gott er fyrir alþm. að henda í ruslakörfuna.