10.04.1981
Efri deild: 80. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3601 í B-deild Alþingistíðinda. (3678)

291. mál, almannatryggingar

Stefán Guðmundsson:

Herra forseti. Ég kem hér aðeins til þess að lýsa ánægju minni með þetta frv. og hversu skjóta afgreiðslu það hefur fengið. Og ég vona vissulega að svo verði einnig í meðförum í hv. Nd. Með þessu frv. um breytingu á lögum um almannatryggingar, er varðar m. a. rétt sjómanna til ellilífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins, er leitast við að rétta nokkuð hlut sjómannsins. Með því er sérstaða hans viðurkennd og að nokkru metin.

Eitt meginefni þessa frv. er, eins og kom fram í framsögu hv. þm. Davíðs Aðalsteinssonar, að tryggja þeim, er stundað hafa sjómennsku í 25 ár, ellilífeyri frá og með 60 ára aldri. Starfsár sjómanns skal í þessu sambandi miðast við að sjómaður hafi verið lögskráður á íslenskt skip í eigi færri en 180 daga að meðaltali í 25 ár. Ég vek athygli á því, m. a. vegna ákvæða þessa frv., hversu nauðsynlegt er að skráningartími sjómanna sé eðlilega færður. Í aths. með þessu frv. segir m. a.:

„Vitað er hins vegar að lögskráningarbækur eru ófullkomin heimild um starfstíma sjómanna víða og á vissum tímum. Verulegar gloppur hafa fundist í lögskráningum sjómanna og lögskráningin sjálf er aðeins vitnisburður um þá daga sem verið er á sjó, en ekki vitnisburður um heildarstarfstíma sjómanns hjá útgerðarmanni.“

Hér er komið að athyglisverðum þætti, — þætti sem ekki má vanrækja eins og nú virðist hafa verið gert í kannske æðimörgum tilfellum.

Við athugun og yfirlestur á þessu frv. og í framhaldi af því, sem ég hef áður vitnað til, kom upp í huga minn hvort ekki væri bót að því að taka upp þann hátt, að hver sjómaður hefði sína sjóferðabók, og hvort ekki mætti með þeim hætti komast hjá alvarlegum mistökum í þessum efnum, eins og dæmi eru til um.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um þetta. Ég endurtek ánægju mína með, að þetta frv. skuli vera flutt, og minni um leið á að sumt er enn hálfgert og margt ógert í félags- og réttindamálum íslenskra sjómanna. Því er þeim tíma, sem þm. verja hér til umræðu og íhugunar um málefni þeirrar stéttar, vissulega vel varið.