10.04.1981
Efri deild: 80. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3602 í B-deild Alþingistíðinda. (3680)

291. mál, almannatryggingar

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Það stendur síst á mér að taka undir að við eigum að gera allt það sem í okkar valdi stendur fyrir íslenska sjómenn. Ég vil taka undir orð hv. þm. Stefáns Guðmundssonar um eigin sjóferðabók, ég teldi það mjög til athugunar. Hins vegar vil ég ítreka það, að í frv. þessu er byggt á sömu reglum og gilda í lögum um Lífeyrissjóð sjómanna, nr. 49/1974, en þar er gert ráð fyrir að starfsár sjómanns skuli miðast við eigi færri en 180 lögskráða daga á íslensku skipi. Þó er hér lagt til að lögskráningardagar skuli vera 180 að meðaltali í 25 ár. Það breytir hins vegar ekki því, að sjómennsku verða sjómenn að hafa stundað í 25 almanaksár. Ég vildi aðeins koma því að, að hér er um sömu reglu að ræða að hluta til eins og er um Lífeyrissjóð sjómanna.