10.04.1981
Efri deild: 80. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3604 í B-deild Alþingistíðinda. (3684)

183. mál, kirkjubyggingasjóður

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Út af fsp. hv. 11. landsk. þm. vil ég taka þetta fram:

Í fyrsta lagi er það deginum ljósara að við samþykkt þessa frv. léttist róðurinn fyrir söfnuði landsins að koma upp kirkjum. Ég held að allir hljóti að verða sammála um það. Þeim hefur boðist brattara á undanförnum árum þegar nánast hvergi hefur verið unnt að fá lán til slíkra bygginga eða a. m. k. af svo skornum skammti að það hefur lítt dregið þá að marki.

Að því er varðar sóknargjöld kannast ég ekki við að mikillar íhaldssemi hafi gætt af minni hálfu um hækkun þeirra. A. m. k. man ég það, að fyrir ári eða svo bárust mér tilmæli um hækkun sóknargjalda héðan úr Reykjavík sem ég samþykkti nánast alveg samkv. því sem farið var fram á.

Loks vil ég geta þess, að það er von á nýju frv. einmitt um sóknargjöld sem væntanlega verður sýnt á þingi þessu áður en því lýkur. Og þó að ekki vinnist tími til að samþykkja það vænti ég þess, að hv. 11. landsk. þm. sjái þó roða fyrir nýjum degi í þessum efnum.