10.04.1981
Efri deild: 80. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3610 í B-deild Alþingistíðinda. (3689)

293. mál, söluskattur

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Þó að ég hafi ekki haft tækifæri til fyrr en núna, þegar ég kom hingað inn, að skoða þetta mál verð ég að lýsa því hér yfir, að ég er þessu frv. efnislega sammála og þekki vel þann aðstöðumun sem þarna er um að ræða. Söluskatturinn er lagður á á síðasta stigi og þá er líka búið að leggja verslunarálagningu á flutningskostnaðinn, þannig að þarna er um mikinn aðstöðumun að ræða sem þarf að finna einhverjar leiðir til þess að leiðrétta. Þess vegna vil ég láta það koma hér fram, að ég er þessu sammála þó að ég muni, vegna þess hve ég á stutta setu hér, ekki koma til með að taka þátt í afgreiðslu málsins að öllum líkindum.

Hins vegar vil ég nota tækifærið til þess að vekja athygli á aðstöðu dreifbýlisverslunar almennt. Hún er mjög slæm, og það er rétt sem kom fram hér áðan, að eitt af því sem veikir hana er að missa verslun utan frá landsbyggðinni hingað til þéttbýlissvæðanna einmitt út af þessum aðstöðumun. Ég hefði kosið kannske að þessu fylgdi heildarendurskoðun á söluskattsinnheimtu. Það er á fleiri sviðum sem einmitt aðstöðumunurinn er skattlagður og það er óviðunandi ranglæti fyrir landsbyggðarmenn.

Ég ætla ekki að tala um þetta langt mál núna. Ég vildi aðeins lýsa hug mínum í þessu máli og vona að hv. þm. finni einhverjar leiðir til þess að koma leiðréttingum hér fram.