06.11.1980
Sameinað þing: 15. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 532 í B-deild Alþingistíðinda. (369)

1. mál, fjárlög 1981

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hæstv. viðskrh., sem var að ljúka máli sínu, lýsti svo ástandi ríkisfjármálanna þegar hann var fjmrh., að þá hefði hallast á merinni, eins og hann orðaði það. Ef það er rétt lýsing á ástandinu þegar hæstv. viðskrh. fór með fjármál ríkisins, sem ég efast ekki um, þá hygg ég að segja megi að nú sé að snarast af merinni. Það frv., sem hér liggur fyrir, er einmitt glöggur vottur þess.

Hæstv. viðskrh. lauk ræðu sinni með því að segja að allt ylti núna á því, að gerðar væru samræmdar ráðstafanir í efnahagsmálum. Allt veltur á því. Ég er hæstv. viðskrh. algerlega sammála um þetta. En það, sem er að því frv. til fjárl. sem við erum hér að ræða, er að það byggir ekki á neinum samræmdum aðgerðum í efnahagsmálunum. Það, sem er að, er að það er engin heildarstefna í efnahagsmálunum. Það er vonlaust verk að ætla að leggja fram gott fjárlagafrv. ef það byggist ekki á ákveðinni stjórnarstefnu. Og heldur var dræmt lofið hjá hæstv. viðskrh. um þetta frv. Hann sagði að það væri sæmilega ábyrgt. Af ráðh. í ríkisstj. geta þetta ekki talist harla góð meðmæli, enda getur enginn haldið því fram, að hér sé um slíkt frv. til fjárl. að ræða sem við hefðum viljað vænta og mjög hefði verið þörf á.

Hæstv. fjmrh. er á vissan hátt vorkunn að hann skuli ekki hafa lagt annars konar frv. hér fram en raun ber vitni um, — vorkunn að því leyti, að það er ekki hægt að aðlaga þetta frv. neinni heildarstefnu. Þetta frv. er ekki andsvar við þeim mesta vanda sem við eigum núna við að stríða, þvert á móti. Þetta er ekki frv. sem boðar ný og öflug viðbrögð og viðnám gegn verðbólgunni, heldur er þetta frv. sem er eins og olía á verðbólgubálið.

Hæstv. fjmrh. reynir að forða sér í þessu efni með því að segja að þetta frv. þýði ekki að heildarútgjöld ríkisins í hlutfalli við þjóðarframleiðslu séu meiri en áður, heildarútgjöldin séu ekki meiri en hann sagði, 28.5%, og það er mjög svipað ef ekki það sama og verið hefur á undanförnum árum. Með þessu móti vill ráðh. segja að það sé ekki verið að auka ríkisumsvifin. Þetta vill hann segja af því að hann gerir sér ljóst að einn meginverðbólguvaldurinn er ríkisfjármálin. Hæstv. ráðh. segir: Þetta er ekki meira en hefur verið. En í þessari fullyrðingu og í þessari tölu er argasta blekking. Þessi tala segir í raun og veru ekkert sem máli skiptir. Og vegna hvers er það? Vegna þess að í ríkisútgjöldunum er reiknað með bæði rekstrarútgjöldum og fjárfestingarútgjöldum og þetta er hvort tveggja innifalið í þessari prósentutölu. En það, sem er að ske núna og hefur raunar skeð á undanförnum árum, er að hlutur rekstrarútgjaldanna, sem þýðir ríkisbáknið sjálft, hið eiginlega ríkisbákn, hefur alltaf verið að aukast.

Árið 1975 námu fjárfestingarútgjöld af ríkisútgjöldunum 25%. En hvað eru þau samkv. þessu frv.? Þau eru 16.6%. Þó að heildarútgjöldin hafi staðið í stað hlutfallslega við þjóðarframleiðslu hefur hið eiginlega ríkisbákn stórkostlega aukist. Og þegar við erum að tala um of mikil umsvif ríkisins, þá er það það sem við eigum við, en við eigum ekki við að það séu minni framkvæmdir í landinu, það sé gert minna í skólamálum, minna í vegamálum, minna í heilsugæslumálum. Það er ekki það sem átt er við.

En það er ekki nóg með það, að þessi tala sé í sjálfu sér argasta blekking þegar verið er að tala um hlutfallið af þjóðarframleiðslunni. Innan þessara marka, sem menn eru að berjast við að hafa þetta hlutfall í, eru framkvæmdirnar orðnar lítið brot af ríkisútgjöldunum. Þá er leiðin til þess að mæta því sú, eins og við þekkjum allir, að fjármagna framkvæmdir með lánum og fyrst og fremst erlendum lánum, sem eru þess eðlis að það er ekkert sem orkar meir sem olía á verðbólgubálið en einmitt þetta. Þetta frv., sem við hér ræðum, er með þessum einkennum. Þess vegna er það ekki viðnám gegn verðbólgunni. Það felur ekki í sér úrræði gegn þeim mesta vanda sem við eigum nú við að stríða, heldur þvert á móti, það eykur vandann, það er olía á verðbólgubálið.

En nú vilt alveg sérstaklega til. Það eru núna að gerast hlutir sem eiga sér ekki fordæmi. Og þá á ég við að um leið og þetta frv. tekur gildi sem lög kemur til framkvæmda breyting á verðgildi íslensks gjaldmiðils. Það hefur ekki skeð áður. En hvaða þýðingu hefur þessi ráðstöfun? Hún hlýtur að hafa mjög mikla þýðingu og annaðhvort verður þessi ráðstöfun til þess að efla traust okkar á íslenskum gjaldmiðli og liður í ráðstöfunum til þess að koma á jafnvægi í efnahagsmálum landsmanna eða að áhrif af þessari ráðstöfun verða þveröfug, þau verða til þess að auka vantraustið á gjaldmiðlinum, þau verða til þess að auka upplausn og jafnvægisleysi í efnahagsmálum. Hvað er það, sem skiptir máti um það, á hvern veg áhrif gjaldmiðilsbreytingarinnar verða? Það er að sjálfsögðu augljóst mál, þó að ríkisstj. hagi sér ekki í samræmi við það. Það er frumskilyrði og forsenda þess, að nokkurt vit sé að gera þessa breytingu á verðgildi gjaldmiðilsins, að sú ráðstöfun sé liður í margháttuðum aðgerðum, markvissri stefnu til þess að koma efnahagsmálum okkar á traustari grundvöll en núna er og treysta gjaldmiðilinn og auka traust þjóðarinnar og almennings í landinu á honum.

En hvar eru þessar ráðstafanir? Það vill svo til, að fyrir tveim dögum svaraði hæstv. viðskrh. hér í Sþ. fsp. frá mér varðandi gjaldmiðilsbreytinguna. Við vorum sammála um það í þeim umr., að ekki væri búið að gera þær ráðstafanir til nýrrar stefnumörkunar í efnahagsmálunum, sem nauðsyn væri að fylgdu verðgildisbreytingunni. Við vorum sammála um þetta. Og við vorum sammála um að þetta yrði að gera. Hæstv. viðskrh. sagði að það, sem ríkisstj. ætlaði að gera í þessu efni, mundi liggja fyrir um áramótin. (Viðskrh. Ég tiltók ekki dagsetningu.) Tiltók ekki dagsetningu. Varasamur maður, hæstv. ráðh., og ég lái honum það ekkert. En það er ekki aðalatriðið í þessu sambandi, hvort þessar till. líta dagsins ljós hjá ríkisstj. nokkrum dögum fyrr eða síðar fyrir næstu áramót. Það, sem er höfuðatriði í þessu máli, er að þessar till. þurftu að liggja fyrir og vera komnar til framkvæmda, ekki í dag, ekki fyrir nokkrum vikum, heldur fyrir nokkrum mánuðum, vegna þess að það er borin von, að almenningur hafi traust á gjaldmiðilsbreytingunni nema ríkisstj. sé búin að sýna sig áður í því að skapa einhvern grundvöll fyrir því að árangur geti orðið af þessari þýðingarmiklu ráðstöfun. Menn mega ekki halda að það sé einhver hversdagsráðstöfun að breyta gjaldmiðlinum, verðgildi gjaldmiðilsins. Mér er ekki kunnugt um að á síðustu áratugum hafi nema tvær þjóðir í Evrópu gert þessar ráðstafanir. Menn eru ekki að gera þetta á hverjum degi, og það er vegna þess að eina vonin til þess, að slík ráðstöfun hafi jákvæð áhrif, er ef — eins og ég hef áður tekið fram — um er að ræða lið í heildarstefnu og heildaraðgerðum. Þetta verða menn að hafa í huga þegar frv. það, sem hér liggur frammi, er rætt, frv. til fjárl. fyrir árið 1981. Það er höfuðgalli þessa frv., að það hefur ekki verið byggt á neinni heildarstefnu, sem ríkisstj. segir að eigi að koma um áramót, og þess vegna er þetta frv. verðbólgufrv., ef svo mætti að orði komast, eins og áður hefur verið gert í þessum umr., en ekki liður í neinum heildaraðgerðum.

Ég vildi segja þessi almennu orð um fjárlagafrv. í heild. Ég held að það verði ekki komist hjá að vekja athygli á þessari hlið málsins. Þetta er aðalatriðið í sjálfu sér. Auðvitað er svo hægt að ræða og þörf á að ræða einstaka þætti þessa fjárlagafrv., en ég mun ekki gera víðreist í þeim efnum. Það er nokkurt álitamál hvað ætti að taka og hverju ætti að sleppa í ekki mjög langri ræðu sem ég flyt hér. En mig langar þó að víkja að tveim málum. Þessi mál eiga það sammerkt, að þau eru ein helstu mál sem núv. ríkisstj. hefur lofað að taka traustum tökum og hefur viljað telja að eigi að njóta forgangs. Þegar ég vík að þessum tveim málum, þá er ég þess vegna ekki að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur eða þar sem hæstv. ríkisstj. ætti að standa höllustum fæti, heldur þvert á móti. Þessi mál eru húsnæðismálin í fyrsta lagi og í öðru lagi orkumálin.

Það er gert ráð fyrir fjárframlögum til Byggingarsjóðs ríkisins í þessu fjárlagafrv., þó það nú væri, þegar það er haft í huga, að Byggingarsjóður ríkisins stendur undir meginþorra af öllum íbúðarbyggingum, lánum til yfir 90% íbúðarbygginga í landinu, og hefur gert á undanförnum árum og áratugum. Ber nú þetta frv. vott um að hæstv. ríkisstj. hafi haft þessa staðreynd í huga, þegar frv. var samið?

Ég vil minna á það, að núna eru í gildi lög um launaskatt. Þessi lög voru fyrst sett árið 1965 og hafa verið framlengd og aukin síðan. Samkv. gildandi lögum á að leggja á 3.5% launaskatt. Til hvers var þessi launaskattur lagður á? Hann var lagður á til þess að efla Byggingarsjóð ríkisins. Það var talið réttlætanlegt að leggja þennan aukaskatt á landsmenn vegna þess að hér væri um svo þýðingarmikið mál að ræða, að menn hlytu jafnvel af nokkuð fúsum vilja að taka á sig byrðar af þessum sökum. Ef þessi 3.5% launaskattur kæmi nú allur í Byggingarsjóð ríkisins, þá ætti Byggingarsjóður ríkisins að fá 26 milljarða kr. af þessum tekjustofni. En það er nú ekki svo mikið. Það er ekki neitt sem Byggingarsjóður ríkisins fær af þessum tekjustofni, ekki neitt.

Það skal tekið fram, að Byggingarsjóður ríkisins fékk aldrei allan þennan tekjustofn, því miður. En hann fékk 2%, og samkv. gildandi lögum um launaskatt frá 1977 á Byggingarsjóður ríkisins formlega séð að fá þessi 2% eða um 15 milljarða. En Byggingarsjóður ríkisins fær ekki það, hann fær ekki neitt. Þegar húsnæðislöggjöfinni var breytt, eða sett ný löggjöf á síðasta þingi, þá var yfirlýst stefna hæstv. ríkisstj. að það ætti að taka annað prósentið af launaskattinum, sem Byggingarsjóður ríkisins hefur fengið, og færa Byggingarsjóði verkamanna það prósent, en hitt prósentið ætti að standa. Eftir því ætti Byggingarsjóður ríkisins að fá 7 milljarða og 500 millj. af þessum tekjustofni. En fær hann það? Nei, hann fær ekki neitt af þessum tekjustofni. Þetta fær ekki staðist að óbreyttum lögum. Það er ekki hægt að svipta Byggingarsjóð ríkisins algerlega þessum tekjustofni nema að breyta lögum. Í grg. með fjárlagafrv. segir um þetta efni, með leyfi hæstv. forseta:

„Í lögunum er ekki kveðið á um hvernig leggja skal á byggingarsjóðsgjöld. Því er litið svo á, að markaðir tekjustofnar Byggingarsjóðs séu engir, en framlag ríkissjóðs aftur á móti ákveðið þannig, að sjóðurinn geti staðið undir áætluðum útlánum.“

Hérna eru tvær skekkjur. Byggingarsjóðsgjald kemur þessu máli ekki við og í öðru lagi verður ekki litið neitt á í þessu sambandi, það verður að fylgja lögum. Ef þetta á að ná fram að ganga verður að breyta lögum um launaskatt.

Ég hef greint frá því, að Byggingarsjóður ríkisins er samkv. frv. sviptur þessum tekjustofni. En náðarsamlegast er gert ráð fyrir því, að ríkissjóður greiði í Byggingarsjóð ríkisins 4.3 milljarða. Það er allt og sumt. Ég fæ ekki séð að nokkur ríkisstj. geti leyft sér að fara jafngáleysislega með Byggingarsjóð ríkisins eins og gert er ráð fyrir í þessu fjárlagafrv. Þetta verður einfaldlega að laga. Og ég leyfi mér að segja; Ég vil hreinlega ekki trúa því fyrr en ég tek á, að þetta verði ekki lagfært.

Þetta er um Byggingarsjóð ríkisins, sem stendur undir og hefur staðið undir íbúðarlánum til íbúðarhúsabygginga í landinu að mestu leyti eða yfir 90%. En víkjum þá að öðrum byggingarsjóði. Það er Byggingarsjóður verkamanna.

Ég vék að því áðan, að það hefði verið stefna ríkisstj. og komið fram á síðasta þingi og litið svo á, að Byggingarsjóður verkamanna ætti að fá 1% af launaskattinum, og hér er gert ráð fyrir því, 7.5 milljörðum kr. Ég hef ekki á móti því, að Byggingarsjóður verkamanna sé efldur og styrktur. Ég hef sagt það margoft áður og ég ætla ekki að fara að ítreka hér rök mín fyrir þeirri afstöðu. Ég var með ákveðnar till. í þessu efni, þegar húsnæðislöggjöfin var til umr. á síðasta þingi Og ég gerði þá aths. við ákvæði um tekjuöflun til Byggingarsjóðs verkamanna. Á það var ekki hlýtt, og það frv., sem hér liggur fyrir, tekur ekki heldur mið af þeirri ábendingu sem ég gerði þá. En það verður ekki, þegar á hólminn er komið, lokað augunum fyrir þessu máli.

Samkv. hinum nýju lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins er gert ráð fyrir að til Byggingarsjóðs verkamanna renni úr ríkissjóði tekjur af 1% launaskatti og auk þess framlag á fjárlögum, ef með þarf, til þess að framlag ríkisins ár hvert nemi samtals 30% af ráðstöfunarfé sjóðsins. Það er ekki heimilt samkv. þessum lögum, að framlag ríkisins, í hvaða formi sem er, nemi meiru en 30% af ráðstöfunarfé Byggingarsjóðs verkamanna. Það er gert ráð fyrir því í lögunum að hitt ráðstöfunarféð komi með lántöku, hvernig sem það á að ske, þegar höfð eru í huga vaxtakjör, sem sjóðurinn hlyti að búa við varðandi lán sem hann tekur, og þeir lágu vextir sem hann er skyldur að lána út á. Nú er gert ráð fyrir því, að ríkissjóður leggi til byggingar verkamannabústaða af þessum tekjustofni launaskatti, 7.5 milljarða kr. Samkv. lögunum ber sjóðnum að útvega sér annað ráðstöfunarfé upp á 15 milljarða samkv. beinum ákvæðum um sjóðinn. Og þá ætti sjóðurinn að lána á næsta ári í samræmi við það og viðfangsefni hans að vera þrefalt meiri en gert er ráð fyrir í þessu fjárlagafrv., ekki 400 íbúðir heldur 1200 íbúðir. Hvað ætlar hæstv. ríkisstj. að gera? Ætlar hún að lækka framlagið úr ríkissjóði? Eða ætlar hún að fylgja ákvæðum laganna eða ætlar hún að fá lögunum breytt, lögunum um Húsnæðisstofnun ríkisins?

Ég verð að segja að þetta, sem ég hef hér drepið á, sýnir nokkuð hvers konar vinnubrögð eru viðhöfð í þessu þýðingarmikla máli sem húsnæðismálin eru. Ég fæ ekki séð að það sé neitt vit í þessum ákvæðum, hvorki varðandi Byggingarsjóð ríkisins né Byggingarsjóð verkamanna, eins og þetta liggur nú fyrir. Það er nauðsynlegt að gera einhverjar breytingar. Ef það er ekki annað gert þarf að gera breytingar bæði á lögum um launaskatt frá 1977 og lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins frá þessu ári.

Þetta var um húsnæðismálin og skal ég ekki ræða þau frekar, en koma þá að lokum að hinum málaþættinum sem ég sagðist ætla að víkja að, og það eru orkumálin. Það er auðvitað margt sem hægt væri að ræða um þennan þýðingarmikla málaflokk. Það er hægt að ræða ýmislegt frá mörgum hliðum og það er hægt að ræða gildi orkumátanna almennt. Ég ætla ekkert að gera af þessu, en ég ætla að víkja að tilteknum atriðum sem mér finnst að ekki verði komist hjá að ræða um nú þegar við 1. umr. fjárlagafrv.

Það er gert ráð fyrir því samkv. þessu fjárlagafrv. að veita 1.7 milljarða úr ríkissjóði til styrkingar dreifikerfa í sveitum. Orkuráð lagði til að í þessu skyni yrðu veittir 3.2 milljarðar. Hvers vegna var það? Það var vegna þess að orkuráð gerði samþykkt, sem byggð var á ítarlegri sérfræðilegri athugun sem unnin var í nokkur ár á vegum orkuráðs, um það, að gerð yrði átta ára áætlun um styrkingu dreifikerfa í sveitum um allt land. Talið var og það er enginn vafi á því og því neitar enginn í dag, að það væri brýn þörf á að hefjast handa að þessu þýðingarmikla verkefni og ljúka því á ekki lengri tíma en átta árum. Till. orkuráðs var miðuð við þetta. En hæstv. fjmrh. sker þetta niður um nálega 50%. Að öðru óbreyttu ætti það að þýða að með þessu áframhaldi, ef það yrði þó ekki enn lakara á hinum síðari árum, tæki þetta verkefni 20 ár. Þetta er algerlega óhæft.

Ég held að hvaða ríkisstj. sem er verði að taka mið af þeim þörfum sem hér er um að ræða, hvað þá sú ríkisstj. sem hefur það svo mjög á orði sem þessi ríkisstj., að hún vilji láta orkumálin hafa forgang, að hún vilji vinna að því að leysa okkur sem mest undan notkun erlendra orkugjafa, notkun olíunnar. Slík ríkisstj. getur ekki gert þetta, ef hún hefur einhvern snefil af sómatilfinningu og vill láta eitthvert mark á sér taka. Framkvæmd þessa máls varðar það, hvort við getum notað íslenska orkugjafa, notað rafmagn til upphitunar í sveitum landsins, þannig að sá hluti þjóðarinnar, sem í sveitunum býr, megi vænta þess að sitja við svipað borð og þeir sem eru í þéttbýlinu og njóta m.a. jarðvarmans sem orkugjafa til upphitunar. Afstaðan til þessa máls er afstaða til þess, hvort menn vilja vinna að þessu, hvort mönnum er alvara, þegar þeir eru að tala um að þetta sé nauðsyn, eða hvort þeim er ekki alvara.

Ég vil svo víkja að sveitarafvæðingu. Það er ekki stórt mál fjárhagslega og það er ekki vegna þess sem ég minnist á það mál hér. Samt sem áður er það ákaflega stórt í mínum huga og margra, margra fleiri, vegna þess að afstaðan til þess er um það, hvort þegnar þjóðfélagsins eigi að njóta jafnréttis, svo sem allir hafa sagt að þeir ættu að njóta í þessu tilfelli og allir stjórnmálaflokkar eru stöðugt að segja að eigi að koma í framkvæmd. Og hvað er hér um að ræða? Það er um að ræða að ljúka sveitarafvæðingunni, því sem á að gera til þess að tengja sveitabæi við samveitur, — ljúka því verkefni sem orkuráð samþykkti þegar á árinu 1975 fyrir sitt leyti að unnið skyldi, og allir stjórnmálaflokkar hafa lýst fylgi við. Og hvað er eftir af þessu verkefni, þ.e. að ljúka tengingu þeirra bæja þar sem ekki er meiri meðalvegalengd á milli bæja en 6 km? Hvað er eftir? Bæirnir eru innan við 30. Þeir eru nánar tiltekið núna 27. Orkuráð gerði tillögu um að nú á næsta ári skyldi þessu verkefni lokið. Það skyldi ekki lengur láta fólkið á þessum sveitabæjum bíða í óvissu um afdrif þessa máts og búa við byrði olíukyndingarinnar. Þess vegna gerði orkuráð till. um að í þessu skyni yrði varið 800 millj. kr. á næsta fjárhagsári. Það var gert líka ráð fyrir að það yrðu 400 millj. sem þyrfti vegna heimtauga við gamlar orkuveitur, þ.e. þar sem byggt er upp á sveitabæjum, byggðir nýir bæir og annað slíkt. Þetta voru samtals 1 200 millj. kr. Hvað gerir hæstv. fjmrh. í þessu efni, sem þekkir þetta mál að sjálfsögðu alveg eins vel og ég? Þetta er skorið niður í 500 millj., sem þýðir að þetta gerir ekki meira en að mæta þeim þörfum sem orkuráð bjóst við í upphafi þessa árs, ársins 1980, að þyrfti 400 millj. til á næsta ári. Það má gera ráð fyrir því, að í það, sem reiknað var með að þyrfti 400 millj. til, muni þurfa 500 millj. Þetta þýðir að það á ekkert að gera í hinni eiginlegu sveitarafvæðingu á næsta ári. Ég spyr nú hæstv. fjmrh.: Er þetta hægt? Er hægt að gera þetta?

Ég hef nú vonast til að þetta yrði lagfært og raunar vil ég naumast trúa því, að það verði ekki gert. Hér er ekki um stórt fjárhagslegt mál að ræða, en það er stórt siðferðislega og stórt hagsmunamál fyrir þá aðila sem hér koma við sögu.

Á þetta að vera erfitt fyrir hæstv. ríkisstj.? Hvernig hefur ýmislegt verið fjármagnað fyrir Orkusjóð? Það hefur verið þannig á undanförnum árum, að Orkusjóði hefur verið ætlað að taka að láni með þeim vaxtakjörum, sem nú eru, annaðhvort allt eða meginhluta af því sem til sveitarafvæðingar hefur farið og til styrkingar rafdreifikerfi í sveitum fór á síðasta ári. Orkusjóði hefur verið gert að afhenda þetta fjármagn sem óafturkræft framlag. Þetta er ekki til fyrirmyndar. Þetta eru forkastanleg vinnubrögð og þau hljóta að miða að því að veikja og grafa undan sjálfstæði Orkusjóðs, sem er sjóður á þeim vettvangi þar sem við teljum mest um vert í dag að framkvæmdir eigi sér stað. Ég er ekki að segja þetta í fyrsta skipti á þessum vettvangi. Orkuráð hefur varað við þessum vinnubrögðum árlega að undanförnu. Það væri ósanngjarnt af mér ef ég ætlaði að skrifa þessar syndir allar á hæstv, núv. fjmrh. Það væri ósanngjarnt og það væri ekki heldur rétt. En það varðar miklu hvort hæstv. núv. fjmrh. ætlar að vaða núna gegndarlaust út í þetta foræði. Það varðar miklu, vegna þess að það er verið að eyðileggja þennan mikilvæga sjóð orkumálanna, orkuiðnaðarins í landinu. Í árslok 1979 var hann kominn með neikvæðan höfuðstól, og þegar hann er gerður upp nákvæmlega eins og staðan er, þá er hann orðinn neikvæður um síðustu áramót yfir 5 milljarða kr. Varðar hæstv. fjmrh. ekkert um þetta mál, að einn þýðingarmesti fjárfestingarsjóður landsmanna hefur við síðustu áramót neikvæðan höfuðstól um yfir 5 milljarða kr.? Hver eiga að vera viðbrögð stjórnvalda við þessu? Hvað ætlar hæstv. ríkisstj. að gera í þessum mátum? Hvaða skoðun hefur hæstv. fjmrh. á þessu máli? Það væri fróðlegt að heyra hverjar þær eru.

Ég skal ekki fara út í fleiri atriði varðandi orkumálin þó að full ástæða væri til. Og ég ætla ekki að fara út í aðra málaflokka á þessu stigi málsins. En ég vænti þess, að þegar ég hef haldið mig sérstaklega við tvo af mikilvægustu málaflokkunum í hug okkar allra og sérstaklega í huga ríkisstj. og samkv. stjórnarsáttmálanum, þar sem eru húsnæðismál og orkumál, þá taki hæstv. ríkisstj. eitthvert mið af staðreyndum í þessum þýðingarmiklu málum.