10.04.1981
Efri deild: 80. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3612 í B-deild Alþingistíðinda. (3692)

293. mál, söluskattur

Helgi Seljan:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég ætla ekki að fara í neinar kappræður um mál þetta. Ég vil hins vegar lýsa því yfir, að ég hef ítrekað rætt það við hæstv. fjmrh. að hann beitti sér fyrir því, að hér yrði breyting á gerð, og geri mér raunar vonir um að af því geti orðið og er hreint ekki vonlaus um að hans menn gangi þannig frá málum til hans að þarna sé um vel framkvæmanlegt verk að ræða, því að það er vissulega svo, að það þarf eflaust að ýmsu að huga í framkvæmd þessa mál. Ég er ekkert að draga úr því. Ég ætla ekki heldur að fara í neinn meting í sambandi við þetta mál. En hv. þm. Albert Guðmundsson var hér inni áðan og gat þess við mig svona í leiðinni, að hans ágætu flokksbræður — og flokkssystur sennilega líka — hefðu fellt svona frv. fyrir mér á sínum tíma þegar þeir voru í stjórn og hann vann þar með þeim og ég flutti frv. svipaðs eðlis — það var að vísu kannske ekki eins vel útfært og þetta og það var vegna þeirra orða sem ég sagði að kannske væri þetta dæmigert stjórnarandstöðufrv., að svona mál eins og þetta skyldi ekki þá ná fram að ganga með auðveldum hætti. Ég gerði mér vonir um í fyrra að það gerði það, en varð ekki.

En ég ætla aðeins að lýsa því yfir, að ég hef beitt mér fyrir því við hæstv. fjmrh. að hann tæki þetta mál alveg sérstaklega út úr. Söluskattsmálin eru öll í athugun, eins og menn vita, en þetta mál verði tekið sérstaklega út úr vegna þess að þetta er svo ótvírætt sanngirnismál að það hlýtur að vera unnt að taka það eitt út af fyrir sig út úr. En ég skil það líka mætavel, að hans svör eru svipuð og ég fékk hjá hæstv. fjmrh. Matthíasi Á. Mathiesen á sínum tíma, þegar hann sagði að öll þessi söluskattsmál væru í athugun og það skyldi svo sannarlega verða tekið tillit til þessa. Síðan var hann ráðh. í tvö ár eftir það eða þrjú, og sú söluskattsathugun, sem þá var á ferðinni, komst ekki lengra en þetta, að þetta mál var ekki komið í höfn og er ekki komið enn. Allir bera því hér á nokkra sök. Við skulum þess vegna spara okkur öll köpuryrði í sambandi við þetta, en reyna að einhenda okkur á málið eftir þeim leiðum sem við hvert um sig getum farið bestar.