10.04.1981
Neðri deild: 78. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3623 í B-deild Alþingistíðinda. (3711)

281. mál, lífeyrissjóður sjómanna

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég veit að allir þm. meta það mikils þegar hv. þm. Guðrún Helgadóttir býðst til þess að aðstoða formenn annarra nefnda við úrlausn mála. Og sumar þeirra ábendinga, sem hv. þm. kom með hér í ræðu sinni, ber vissulega að skoða, en sumt er óþarft vegna þess að getið er um þau atriði í lögunum eins og er sem hún var að tala um. Vera má að frv., eins og það kemur fyrir, skari eitthvað, en til þess að útskýra fyrir hv. þm. hlutföll greiðslna í sjóðinn, þá er greiðsla sjóðfélaga eins og segir í 10. gr. laganna, 1. mgr., 4% og launagreiðanda 6%. Og á öllum stærri fiskiskipum en 500 rúmlestir og einnig á kaupskipum og hjá undirmönnum á varðskipum ríkisins er borgað af öllum launum í lífeyrissjóðinn, bæði af yfirvinnu og aukahlutum og aflahlut eins og á stærri togurunum. Hins vegar hefur það verið frá því að minni fiskiskipin eða félög þeirra gerðust aðilar að sjóðnum — þó eru þar ekki öll, en sama regla mun gilda alls staðar — að um er að ræða samningsatriði um þá upphæð sem kemur til sjóðsins frá þessum aðilum. En skiptin hafa verið hin sömu samt sem áður, 6% og 4%. Í síðustu kjarasamningum náðist veruleg hækkun á þessari greiðslu fyrir fiskimenn á hinum minni skipum, enda voru þeir fjarri öllu samræmi við aðra lífeyrissjóði fram að því og eru reyndar enn þá langt undir.

Ég vildi aðeins láta þetta koma fram hér, en að sjálfsögðu vænti ég þess ásamt hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur, að sú nefnd, sem fær þetta til meðferðar, lesi gildandi lög jafnframt því að hún fer yfir tillögur þessa frv.