10.04.1981
Neðri deild: 78. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3640 í B-deild Alþingistíðinda. (3717)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég þakka virðulegum forseta fyrir þann velvilja sem hann sýnir mér með því að gefa mér orðið, en ég sá ekki beint ástæðu til að kveðja mér hljóðs fyrr en síðasti ræðumaður lauk máli sínu, og þá geri ég það til þess að bera af mér það orð sem hann með orðum sínum reynir að festa við mig.

Allt, sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson lét hér falla í minn garð, er að sjálfsögðu rétt. En ég tel að sú till., sem fram hefur komið í sambandi við lánsfjáráætlunina og varðar upphaf framkvæmda við umrædda flugstöð á Keflavíkurflugvelli, sé ekkert í áttina að þeirri hugmynd sem ég kom fram með hér. Ég vil taka það fram, að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson upplýsti að öll úfboðsgögn væru tilbúin til byggingarframkvæmda vegna þessarar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli, og dreg ég það ekki í efa. Líklega er það rétt, enda voru upplýsingarnar fengnar hjá utanrrn. og varnarmálanefnd.

Þá taldi þm. furðulegt að Alþingi skuli láta lítinn minni hl. á Alþingi ráða í þessu máli. Hinn virðulegi þm. er ekki að láta lítinn minni hl. á Alþingi ráða þessu máli eða framgangi málsins með þeirri till. sem hann flytur hér. Hann er að láta enn þrengri hóp þm., ríkisstj., ráða í þessu máli. Og það er hægt að þrengja þann hóp ráðh. enn þá meira, því að eftir upplýsingum, sem fyrir liggja, er hver ráðh. í ríkisstj. með neitunarvald, þannig að hann er að afhenda hér ákvörðunarvald til einstakra ráðh. í ríkisstj., og einmitt því var ég að mótmæla. Ég hef verið á móti því, að þessi till. kæmi fram í því formi sem hún er núna. En ég hef líka lýst því yfir, að það kemur ekki til mála annað en meiri hluti Alþingis ráði í þessu máli eins og öðrum. Ef Alþb. heldur að það geti ráðið að fengnum meiri hl. Alþingis, þegar Alþingi hefur tekið ákvörðun um að bygging skuli fara fram, þá er það misskilningur hjá Alþb.-mönnum eða öðrum þeim minnihlutahópum sem halda sig sterkari en meirihlutavald á Alþingi. En ef þið hafið ekki kjark, kæru vinir úr Alþfl., til að bera fram þá till. sem kæmi hugmyndum ykkar og vilja á framfæri, þá skuluð þið ekkert vera að koma með sýndarmennskutillögur, því að þessi till. leysir ekki þau mál sem þið viljið leysa. Við skulum láta reyna á það þegar þar að kemur.

Ég vil sem sagt mótmæla því, að sú tillaga, sem hér hefur verið lögð fram í sambandi við lánsfjáráætlunina, geri neitt annað en að þrengja vald til ákvörðunar um framkvæmdir við hina nýju flugstöðvarbyggingu á Keflavíkurflugvelli, alveg þveröfugt við það sem till. á Alþingi segði til um ef Alþingi væri að taka ákvörðun um að hefja byggingarframkvæmdir. Þessi till., eins og hún liggur fyrir núna, gerir ekkert annað. Ég harma að hæstv. utanrrh. skuli vera fjarstaddur. Hún gerir ekkert annað en fullnægja því sem hann þarf að fullnægja sjálfum sér með, þ. e. að fylgja eftir ákveðnum ummælum sem hér hafa verið viðhöfð á Alþingi.