06.11.1980
Sameinað þing: 15. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í B-deild Alþingistíðinda. (373)

1. mál, fjárlög 1981

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Ég skal ekki blanda mér inn í umr. um bókhaldið, en ég er þeirrar skoðunar, að þegar láni er breytt úr gengistryggðu láni yfir í lán með verðbótaþætti sé eðlilegt að fara með verðbótaþáttinn eins og með gengisbreytinguna áður en breytingin átti sér stað. Ég átti orðræður einmitt við fyrrv. fjmrh. á sínum tíma þegar ríkisreikningurinn um seinustu áramót var gerður. Ég held að uppfærsla ríkisreikningsins staðfesti að það, sem ég sagði þá, hafi verið rétt. Þannig hef ég ekki neinar aths. við það, hvernig uppsetningin á frv. er, en vitaskuld færast á milli annars vegar rekstrarjafnaðar og hins vegar lánahreyfingar þær tölur sem mismunur gengisbreytingar eða verðbótaþáttur hefði í för með sér.

Ég ætlaði að þakka ráðh. svör hans við fsp. minni. Ég vona að ég hafi skilið svar hans rétt, að ákvarðanir í efnahagsmálum á næstunni verði með þeim hætti að markmið fjárlagafrv. náist fram, — ég vona að ég hafi skilið það rétt, — en ákvarðanir þar að lútandi hafi ekki verið teknar og svo hitt, að ákvarðanir varðandi myntbreytinguna í sambandi við efnahagsmálin hafi ekki heldur verið teknar. Ef ég hef tekið rangt eftir, þá veit ég að ráðh. leiðréttir. Ég vildi aðeins fá það skýrt fram, til þess að það færi ekki á milli mála, að það er skoðun ráðh. að ákvarðanir í efnahagsmálum á næstunni verði þannig að markmiði fjárlagafrv. verði náð, en að þær ákvarðanir hafi ekki verið teknar. (Gripið fram í.) Já, og að varðandi myntbreytinguna hafi enn ekki verið teknar neinar ákvarðanir. (SighB: Að því er stefnt að taka þær ekki.) Það er að því stefnt að ná fram markmiðum fjárlagafrv. með efnahagsaðgerðum samkv. því sem ráðh, segir.