13.04.1981
Neðri deild: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3651 í B-deild Alþingistíðinda. (3739)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Frsm. minni hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég skal gjarnan verða við tilmælum forseta um að verða stuttorður um þetta mál til þess að greiða fyrir framgangi málsins. Ég hygg að nm. í fjh.- og viðskn. muni standa við það, sérstaklega í þeirri von að ráðherrar í hæstv. ríkisstj. geri ekkert til þess að tefja fyrir afgreiðslu málsins, eins og þeim hættir oft og tíðum til þegar verið er að reyna að koma málum þeirra fram hér á Alþingi.

Nefndin hefur fjallað um mál þetta á mjög; mörgum sameiginlegum fundum. Það hafa komið fram í nál. frá fjh.- og viðskn. Ed mjög ítarleg gögn varðandi fjárfestingar- og lánsfjáráætlun. Ég sé ekki ástæðu til að fara að rekja allar þær upplýsingar og öll þau atriði sem hafa komið fram í störfum nefndarinnar. Það liggur allt saman fyrir í þskj. sem þm. hafa fyrir framan sig.

Eftir að sameiginlegum fundum lauk kom á fund nefndarinnar Helgi Ágústsson, formaður byggingarnefndar flugstöðvar fyrir millilandaflug, og svaraði spurningum, en fyrir nokkrum dögum, eins og frægt er orðið, skilaði sú byggingarnefnd niðurstöðum sínum og lagði fram tillögur um byggingu flugstöðvar sem lágu ekki fyrir meðan fjh.- og viðskn. var að störfum.

Hv. þm. Matthías Bjarnason gerði grein fyrir því, hverju Helgi Ágústsson svaraði varðandi undirbúning þess máls. Ég sé ekki ástæðu til að rekja það frekar. Þar kom greinilega fram, að ekki er hægt að búast við að framkvæmdir geti hafist við þá byggingu að neinu marki á árinu 1981 nema þá alveg í árslok, því að það mun taka 4–6 mánuði að hans mati að ganga frá útboðum og fara yfir þau. Eins og fram kom hjá þeim framsóknarmönnum í Ed., sem gerðu þar grein fyrir atkv. sínum, eru því litlar líkur fyrir því, að sú framkvæmd geti hafist að neinu marki á þessu ári.

Hv. þm. Matthías Bjarnason gerði hér að umtalsefni samþykkt miðstjórnar Framsfl. Það er alveg rétt, að framsóknarmenn lögðu á það mikla áherslu við stjórnarmyndunina 1974 að það yrðu breytingar á ýmsu á Keflavíkurflugvelli. Sem betur fer tóku sjálfstæðismenn því vel og ég heyri á máli þeirra að þeir eru orðnir enn þá meiri áhugamenn um þessi mál en þeir voru áður. Þeir höfðu ekki mikið við það að athuga áður fyrr þótt það væri sent út sjónvarpsefni og þar væru hermenn í hliðinu. Því er gleðilegt að sjálfstæðismenn hafa einnig orðið áhugamenn um að her og þjóð væru algerlega aðskilin. Framsfl. mun halda áfram að vinna að þeirri stefnu sem menn náðu saman um 1974. Samþykkt miðstjórnarfundarins er að sjálfsögðu í fullu samræmi við það og í fullu samræmi við það sem við munum vinna að áfram. Því miður hefur það verið svo, að Alþb. hefur ekki haft jafnmikinn áhuga á því, að þessi aðskilnaður gæti farið fram og menn höfðu vonast til.

Það lá fyrir þegar þessi ríkisstj. var mynduð að ekki yrði ráðist í framkvæmdir við flugstöðvarbyggingu á Keflavíkurflugvelli nema með samkomulagi allrar ríkisstj. Nú er hins vegar ljóst að það er aðeins fyrir nokkrum dögum að þetta mál er komið í þann búning að um það sé hægt að fjalla í ríkisstj. Það liggur ekkert fyrir enn um hvort þar næst samkomulag um að í þessa byggingu verði ráðist, en það hlýtur að vera alger forsenda þess, að framkvæmdir geti hafist. Við munum að sjálfsögðu vinna að því áfram, að þessi aðskilnaður eigi sér stað og bygging flugstóðvarinnar geti hafist, en slíkt samkomulag liggur ekki enn fyrir og þess vegna er að mínu mati ekki tímabært að samþykkja heimild til lántöku vegna þessarar byggingar.

Herra forseti. Ég sagði áðan að ég mundi ekki taka mikinn tíma til þess að ræða þetta annars mjög svo ítarlega frv., svo að málið gæti náð fram að ganga sem fyrst, en ítreka að við, sem skipum minni hl. n., ég ásamt hv. þm. Ingólfi Guðnasyni og hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni, leggjum til að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir eftir umfjöllun Ed.