13.04.1981
Neðri deild: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3674 í B-deild Alþingistíðinda. (3748)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég heiti forseta samvinnu minni og skal vera stuttorður.

Ég tel að hv. þm. Jóhann Einvarðsson hafi flutt hér mjög góða ræðu og sterkan röksemdaflutning fyrir byggingu flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli. Það var allt fram undir lok ræðunnar sem unnt var að taka undir hvert einasta orð ræðumanns. En niðurstaðan og ályktunin var því miður þveröfug við röksemdaleiðsluna sem var hin prýðilegasta í alla staði.

Ég hlýt að óska þeim Alþb.-mönnum til hamingju með að hafa getið setið á strák sínum og þagað í þessum umr., svo að ekki færi eins og í Ed. þar sem þeir urðu sér til skammar. En þeir hafa líka til mikils að vinna vegna þess að framsóknarmenn hétu þeim því, að ef þeir þegðu við þessa umr. skyldu framsóknarmenn greiða atkv. eftir fyrirmælum Alþb.-manna. Framsóknarmenn gerðust í þessu máli strengjabrúður í höndum Alþb.-manna.

Það eru auðvitað rök fyrir heimild til lánsfjáröflunar þegar í stað, að úfboð og undirbúningur málsins, frá því að ákveðið er að byggja flugstöðina, tekur alllangan tíma. Það er teflt á tæpasta vaðið ef málinu er skotið á frest, annað hvort til afgreiðslu fjárlaga fyrir 1982 eða fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar fyrir það sama ár, að ég tali nú ekki um ef sú fjárfestingar- og lánsfjáráætlun verður svo seint á ferðinni sem er nú í ár. Ef hins vegar fengist yfirlýsing frá framsóknarmönnum, að ég tali nú ekki um hæstv. utanrrh., um að það þætti eðlilegt að bjóða þessar framkvæmdir út án þess að lánsfjárheimild væri til, þá væri öðru máli að gegna. En ég tel samt að það sé hæpið að sú aðferð verði valin þótt mér finnist hún vel geta komið til mála. Sannleikurinn er sá, að framsóknarmenn segja að stjórnarsáttmálinn kveði á um að flugstöðin skuli byggð, en hins vegar að stjórnarsáttmálinn kveði á um að það sé á valdi hvers stjórnaraðila að kveða á um hvenær flugstöðin skuli byggð. Ef þetta er réttur skilningur á stjórnarsáttmálanum verður að fara til Alþb.-manna, eina stjórnmálaflokksins sem hefur lýst sig andvígan byggingu flugstöðvar, og fá samþykki þeirra. Þeir hafa kveðið upp úr um að þeir muni aldrei veita samþykki sitt til byggingar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli með þeim hætti sem nú er ráðgerður. Hins vegar hafa framsóknarmenn, bæði með bókun sinni í Ed. og með skýringum hv. þm. Jóhanns Einvarðssonar nú í Nd., gert það lýðum ljóst að þeir eru skuldbundnir til að fylgja fram byggingu flugstöðvar ekki síðar en við afgreiðslu fjárlaga fyrir 1982 eða í allra síðasta lagi við afgreiðslu fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar fyrir það ár.

Ég lýsi vonbrigðum mínum yfir ístöðuleysi og stefnuleysi framsóknarmanna við afgreiðslu þessa máls ef svo fer fram sem horfir. En ég hlýt þó að fagna þeirri fyrirvaralausu yfirlýsingu framsóknarmanna í Ed. og Nd., að þeir muni fylgja fram byggingu flugstöðvar með fjárveitingu og/eða lánsfjárheimild við afgreiðslu fjárlaga og fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar næsta árs. Það er út af fyrir sig ákveðinn áfangi að hlýða á slíkar yfirlýsingar sem þeir geta þá ekki hlaupið frá. Ég vona samt sem áður, herra forseti, að einhverjir séu þeir úr hópi stjórnarsinna og framsóknarmanna sem greiða fram kominni till. atkv. svo að mál þetta megi nú þegar fram ganga með því að hafnar verði byggingarframkvæmdir við nýja flugstöð á Keflavíkurflugvelli sem er svo brýn nauðsyn sem hv. þm. Jóhann Einvarðsson lýsti einmitt áðan.