06.11.1980
Sameinað þing: 15. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í B-deild Alþingistíðinda. (375)

1. mál, fjárlög 1981

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það stóð svo illa á að hér í næsta herbergi við þingsalinn var haldinn fundur um Flugleiðamálið með ráðh. og nm. í fjh.- og viðskiptan. Ed. rétt um sama leyti og hv. þm. flutti sitt mál, þannig að ég verð að viðurkenna að ég missti af því að verulegu leyti eða a.m.k. heyrði ekki nema seinni hluta ræðu hans og vildi því mega geyma mér að gera aths. við hans mál þar til síðar.

Ég veit að hv. þm. gerir sér grein fyrir því, að stigin hafa verið stór spor í húsnæðismálum með eflingu Byggingarsjóðs verkamanna, en vissulega þarf fleira að gera og ég mundi vilja ræða það mál á síðara stigi, þegar ég hefði kynnt mér það sem hv. þm. hefur fram að færa.

Í sambandi við sveitarafvæðinguna er ekki margt að segja annað en það, að það er ákveðin upphæð ætluð í fjárlögum og lánsfjáráætlun í þessu skyni. Það má vel vera að hún sé ekki nægilega há til að ljúka ákveðinni áætlun sem hv. þm. hefur í huga og orkuráð hefur stefnt að að yrði lokið. Ég verð að játa það, að ég hef fengið aðrar upplýsingar um þetta mál en komu fram hjá hv. þm. Í þeim gögnum, sem lágu fyrir þegar ákvarðanir voru teknar um fjárveitingar til sveitarafvæðingar, var gert ráð fyrir því, að 800–900 millj. þyrfti til þess að ljúka rafvæðingu á þau býli þar sem vegalengdin er allt að 7 km. Það er sem sagt önnur uppsetning en hann var með, og kostnaður við þessa rafvæðingu virðist vera um 30 millj. á hvert býli eða tæplega það. Ég held að menn þurfi að fá glöggar og góðar upplýsingar um það frá orkuráði og Orkusjóði um, hvað er skynsamlegast að gera í þessum efnum. Það er auðvitað alveg gefið mál, að þegar vegalengdin fer að verða ískyggilega mikil — skulum við segja — milli bæja, þá hljóta að koma til greina aðrir möguleikar til að útvega þessu fólki rafmagn en þeir að leggja linu. Þetta er auðvitað spurning um reikningsdæmi sem þarf að reikna út, hvar á að láta staðar numið, hvað borgar sig að ganga langt í þeim efnum að leggja línu milli bæja þegar vegalengdin er komin yfir 5–6 km. Ég held að sjálfsagt sé að athuga þessi mál nánar í tengslum við gerð lánsfjáráætlunar, vegna þess að hún er ekki endanlega frágengin og það hefur auðvitað verið gert ráð fyrir því, að einmitt þetta atriði, sem fyrst og fremst er í lánsfjáráætlun, verði tekið til nánari athugunar. En ég er ekki frá því, að gott væri að fá ný gögn frá Orkuráði um þetta efni áður en endanlegar ákvarðanir verða teknar.