13.04.1981
Neðri deild: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3681 í B-deild Alþingistíðinda. (3763)

220. mál, tímabundið olíugjald til fiskiskipa

Frsm. 2. minni hl. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Alþfl. hefur talað gegn olíugjaldi. Ég hef ekki tölu á því hversu oft hv. þm. Alþfl. hafa snúist í olíugjaldsmálinu. Hvenær byrjaði olíugjaldið? 2. mars 1979. Þá var sjútvrh. núv. formaður Alþfl. Hann gerði það með stuðningi sinna félaga að lögum. Síðan hefur hv. þm. Karvel Pálmason hamast á þeim eftir mætti, sem er sem betur fer lítill.

Það hvimleiðasta við meðferð þessa máls hér í hv. Alþingi að mínum dómi er að sífellt hafa menn fundið að þessu fyrirkomulagi þó að þeir hafi ekki enn þá komið auga á neina betri aðferð. Þess vegna höfum við, sem skiljum þennan vanda, metið það í rauninni nauðsynlegt eins og á stendur, á meðan annað kemur ekki í staðinn, að samþykkja gjaldið. Eins og nú stendur á getum við raunar ekki annað gert vegna þess að gjaldið er afturvirkt frá áramótum.

Yfirleitt er varla sæmandi að hafa þennan hátt á við meðferð slíkra mála, að láta frv. koma svo seint sem í fjórða mánuði þó þau eigi að gilda sem lög frá áramótum. En það er komið sem komið er og við gátum varla afgreitt þetta fyrr frá nefndinni. Þar hef ég notið góðrar samvinnu við alla nm. Þó að n. hafi klofnað í afstöðu til málsins væri rangt að segja að nm. hefðu með nokkrum hætti reynt að tefja fyrir afgreiðslu þessa máls.

Hæstv. ráðh. talaði fyrir olíugjaldinu síðari hluta ársins 1980 og fann þá gjaldinu ýmislegt til foráttu. Það höfum við tekið undir að ýmsu leyti. Það hefur verið í mörg horn að líta í meðferð mála og kannske ekki unnist tími til að finna lausn á þessu. En ég vil mælast til þess, að þess verði freistað, þegar annir verða minni og fer að líða á vorið, að hugsa upp aðra lausn sem sé aðgengilegri. Sannleikurinn er sá, að föst prósenta af þessu tagi í olíugjald kemur afar misjafnlega niður. Það er hugsanlegt og raunar staðreynd að sum fiskiskip þurfa lítinn sem engan olíukostnað að greiða af sínum veiðum með 7.5% gjaldi af aflaverðmæti. Þannig getur staðið á og hefur staðið á hjá ýmsum að þeir þurfa litlu til að kosta til að keyra skip sín á olíu. Ég er ekki heldur viss um að það væri rétt að greiða olíuna niður til fiskiskipa með jafnri niðurgreiðslu. Það hefur líka sina ókosti. Það hvetur ekki til sparnaðar. En þarna þurfum við að hugsa upp leið sem yrði til bóta.

Annar galli við meðferð þessa máls hér í þinginu finnst mér einnig vera að það hefur verið hringlað býsna mikið með þetta og á tímabili fannst manni þetta fylgja Rotterdam-verðinu á hverjum tíma. Það er afleitt. Um það gat ég í ræðu þegar þetta mál var til afgreiðslu síðast. Þetta er nú í sjöunda skipti sem við fjöllum um þetta mál í deildinni og við höfum þar allmikla æfingu og ástæðulaust að fjölyrða um þetta. — En mér finnst alveg óþarfi fyrir hv. þm. Karvel Pálmason að býsnast svo mjög yfir þessu máli. Flokksbræður hans hafa hvað eftir annað verið með olíugjaldi og einnig á móti, eftir því hvernig vindurinn blæs hverju sinni. Það er ekki mjög stórmannleg málsmeðferð.

Herra forseti. Við í 2. minni hl. sjútvn. — það er nú ekki svo vel að hæstv. ríkisstj. hafi meiri hl. í nefndinni — höfum rætt þetta mál á fundum okkar og leggjum til að það verði samþykkt. Undir það nál. á þskj. 619 skrifa Garðar Sigurðsson, Halldór Ásgrímsson og Páll Pétursson.

Hv. þm. Karvel Pálmason gat um fylgiskjöl, yfirlýsingu frá Sjómannafélagi Ísfirðinga og bréf frá Sjómannasambandi Íslands, sem hefði kannske verið rétt að lesa frá orði til orðs þannig að betur skildist hvað þar stendur. En það stoðar ekki að geta þess, að nú vitum við það í n., eftir að hafa fengið til okkar ágætan mann á fund okkar í dag, Ingólf Ingólfsson, að fulltrúar sjómanna létu þetta kyrrt liggja að þessu sinni við ákvörðun fiskverðs í vetur.