13.04.1981
Neðri deild: 80. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3697 í B-deild Alþingistíðinda. (3789)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Hæstv. ríkisstj. heldur þeirri stefnu áfram í þessu frv. til lánsfjárlaga, sem mjög var ríkjandi við samþykkt lánsfjárlaga fyrir um ári, að skera niður framlög til ýmissa sjóða sem hafa félagsleg markmið og gert er ráð fyrir að eigi að styðja ákveðna starfsemi, sem er í mikilli fjárþörf, og mörg mikilvæg verkefni á þessum sviðum bíða framkvæmda.

Ég vil sérstaklega beina spurningu til hæstv. félmrh. Mér bárust spurnir af því núna í kvöld, að fyrir skömmu hafi verið haldinn fundur í endurhæfingarráði þar sem hæstv. félmrh. hafi mætt og þar hafi verið umræðuefni m. a. sú ákvörðun, sem felst í frv. til lánsfjárlaga, eins og það liggur fyrir nú, og reyndar er endurtekning á því sem gerst hefur undanfarin ár, að tekjur þær, sem endurhæfingarráð hefur af erfðafjárskatti úr Erfðafjársjóði, hafa verið skertar allverulega. Mér er tjáð að hæstv. félmrh. hafi lýst því yfir á stjórnarfundi í endurhæfingarráði að hann mundi beita sér fyrir því, að þessi skerðing mundi ekki verða látin fram fara á þessu ári eins og undanfarin ár, ekki síst með tilliti til mikilvægra verkefna sem bíða á þessu sviði. Ég vil nú spyrja hæstv. félmrh. að því, hvort hér sé rétt með farið, hvort hann hafi gefið slíka yfirlýsingu á stjórnarfundi í endurhæfingarráði, en þetta mál mun hafa verið tekið fyrir á fundi í þessari stjórn í dag einnig og menn þar lýst mikilli óánægju sinni með að þetta frv. væri nú komið á lokastig í afgreiðslu og ekkert bólaði á því, að þessarar stefnu hæstv. ráðh. sæi stað í þessu frv. eins og það liggur nú fyrir. Þess vegna vildi ég mjög gjarnan fá skýringar hæstv. ráðh. á þessu efni.

Til þess að enginn velkist í vafa um hver sé raunverulega stefna eða skoðun ráðh., — við skulum vona að hvort tveggja fari saman hjá hæstv, félmrh. þó það virðist ekki fara saman hjá öllum hæstv. ráðh., — til þess að það komi alveg glögglega í ljós viljum við freista þess hér, þrír þm. í deildinni, hv. 7. landsk. þm., Halldór Blöndal, og hv. 1. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, ásamt mér, að flytja brtt. þess efnis, að 20. gr. þessa lagafrv. falli niður, en sú grein fjallar um skerðingu á tekjum Erfðafjársjóðs af erfðafjárskatti.

Við viljum einnig flytja aðra brtt., um Framkvæmdasjóð öryrkja. Vitað er að hann er mjög fjárþurfi og þess vegna óeðlilegt að skera niður framlag til hans eins og gert er ráð fyrir í þessu lánsfjárlagafrv. Í 22. gr. er fjallað um að aðstoð við þroskahefta skuli takmarkast, en ekki verði fylgt lögum sem gilda um það efni. Vitað er, að þessi lög eru ekki komin til framkvæmda nema að litlu marki, og vitað er um margar stofnanir sem bíða í þessu efni. Brtt. okkar er samhljóða till. sem flutt var í Ed., en náði ekki fram að ganga þar. Við viljum freista þess, að stjórnarliðar sýni henni meiri skilning hér í deildinni nú en gert var í Ed.