13.04.1981
Neðri deild: 80. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3701 í B-deild Alþingistíðinda. (3795)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil fyrst taka undir það sem hv. 1. þm. Vestf. sagði fyrr í kvöld, að þm. hljóti að búast við því, þegar þeir flytja fsp. bæði við 2. og 3. umr. málsins, eins og hv. 2. þm. Suðurl. gerði áðan varðandi framkvæmdir á Suðurlandi, varðandi Ölfusárbrú, að einhver af hæstv. ráðh. beri sig til við að reyna að svara því sem um er spurt. Lánsfjáráætlun liggur hér fyrir til afgreiðslu, þetta er 3. umr., og ég hlýt að taka undir þau ummæli 1. þm. Vestf., að þeir hæstv. ráðh., sem fylgja þessu frv. úr hlaði og bera ábyrgð á því, ekki síst forsrh., sýna ekki landi og þjóð mikinn sóma með framkomu sinni. Ekki svo að skilja að við því sé að búast að frekar yrði að marka orð hæstv. forsrh. í þessari deild en í „Beinni línu“ í símanum. En það er þó alltaf skemmtilegt að heyra hvað hann hefur til málanna að leggja og hversu hann kemst að orði í hvert sinn því maðurinn er vel máli farinn.

En ástæðan til að ég kvaddi mér hljóðs var kannske ekki síður önnur, að hæstv. félmrh. var að reyna að gera lítið úr þeirri skerðingu sem þessi ríkisstj. og stuðningsmenn hennar hafa lögfest varðandi framlög til Framkvæmdasjóðs þroskaheftra. Mér er afskaplega vel kunnugt um að fyrir norðan hefur mjög verulega munað um þessa skerðingu og hún hefur valdið því, að framkvæmdir Sjálfsbjargar hafa dregist á langinn og orðið dýrari en ella og valdið margvíslegum óþægindum og skaða. Það þarf ekki að hafa mörg orð um það. Ríkisstj. stendur ekki við þau fyrirheit, sem gefin eru í lögum, og reynir að breiða yfir það með því að bera fram skerðingarákvæði frá ári til árs til að reyna að láta minna bera á því. Miklu heiðarlegra hefði verið af stuðningsmönnum ríkisstj. og ríkisstj. sjálfri að breyta þeim lögum, sem um ræðir, og taka burt vonina, því þegar þroskaheft fólk væntir þess að fá þessar tekjur óskertar gerir það líka áætlanir sínar í samræmi við það. En það er sem sagt ekki einu sinni hægt að láta þetta fólk í friði. Skattlagning ríkisstj. og græðgi er svo mikil að það er nánast nákvæmlega sama hvar borið er niður í þjóðfélaginu. Það er alveg sama hvaðan peningarnir eru. Ef hægt er að hrifsa þá til sín stendur ekki á því. Svo var myndarskapurinn ekki meiri en svo á s. l. ári, þrátt fyrir alla skattana, að ríkissjóður skilaði greiðsluhalla. Mátti þó skilja ummæli ráðh. svo sem þeim þætti það eitt varða einhverju að á pappírnum skilaði ríkissjóður greiðsluafgangi. Það vantar ekki að margt hafi verið um það talað hvílíka óskaplega áherslu hæstv. ríkisstj. legði nú á að hafa ríkisfjármálin í lagi. Þá var það náttúrlega grundvallaratriði og útgjöld ríkissjóðs yrðu minni en tekjurnar. En það tókst sem sagt ekki.

Ég vil svo í öðru lagi, herra forseti, rifja það upp að við 2. umr. málsins varpaði ég fram elskulegum fsp. til hæstv. dómsmrh. varðandi till. sem þá lá fyrir þinginu. Nú hefur þessi till. verið endurflutt, að vísu í heimildarformi, og víst hefði það verið fróðlegt ef þessi hæstv. ráðh. hefði gefið sér tíma til að vera hér í kvöld og gera grein fyrir afstöðu sinni, af því hann vissi að eftir því var leitað. En sennilega eru málin þannig vaxin að þeim hinum vísu mönnum finnst ástæðulaust að vera að tíunda skoðanir sínar og röksemdafærslur hér á Alþingi. Sennilega vegna þess að þeir leggja hvort eð er ekki svo mikið upp úr því hvað þeir segja hverju sinni eða hvernig þeir greiða atkvæði, ef þeir geta einungis tryggt það eitt að fá að sitja í stólunum ögn lengur. Við flokksbræður þeirra verðum á hinn bóginn að horfa upp á að völd Alþb. og kommúnista fari mjög vaxandi í þessu þjóðfélagi. Það, sem er kannske verst í sambandi við það, er að þeir menn, sem leiddu þá til öndvegis í ríkisstj., skuli hafa verið kosnir á Alþingi af kjósendum Sjálfstfl.

Ég sá að hæstv. forsrh. hafði haft orð á því einhvers staðar á fundi, er hann var um það spurður, að hann hefði boðið formanni Sjálfstfl. að vera utanrrh. í sinni stjórn. Þessi yfirlýsing hans ber þess glöggt vitni, hvernig hann lítur á ríkisstjórnir, hvernig hann lítur á Alþingi. Það skiptir í hans huga engu hvernig efni máls er vaxið. Það eina, sem hann horfir á, er að geta dillað sér pínulítið fyrir framan sjónvarpsskerminn, og skal ég ekki tíunda það hér — til þess að hafa ekki óþinglegt orðbragð — hvaða skepna það er sem mér dettur í hug þegar ég nota sögnina „að dilla“.