14.04.1981
Neðri deild: 81. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3732 í B-deild Alþingistíðinda. (3814)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Við 3. umr. um frv. til lánsfjárlaga, sem fram fór í gærkvöld, flutti ég ásamt þrem öðrum þm. tillögu til breytinga á lánsfjárlögum sem er að finna á þskj. 656 og felur í sér heimild til handa fjmrh. til að taka lán til styrktar Bjargráðasjóði við bótagreiðslur til þeirra sem urðu fyrir verulegu tjóni í fárviðri sem gekk yfir landið í vetur. Hæstv. félmrh. vildi ekki styðja till. af þeirri ástæðu að hann taldi að enn væri ekki vitað hversu mikils fjár þyrfti við til þess að bæta óveðurstjónið, en lýsti því yfir, að hann mundi bera fram sérstakt frv. til fjáröflunar í þessu skyni strax eftir páskaleyfi þm.

Flm. till. telja að þau rök, sem hæstv. ráðh. færði fram fyrir andstöðu við brtt., séu ekki fyrir hendi. Samkv. bráðabirgðaathugun á bótaþörfum er sú fjárhæð, sem till. heimilar að taka að láni, allt að 25 millj. kr., vel yfir áætluðum greiðslum. Hins vegar er flm. það áhugamál, að almenn samstaða geti tekist á Alþingi um lausn slíkra mála, og fallast því á að draga till. sína til baka í trausti þess, að hæstv, félmrh. flytji, strax þegar Alþingi kemur saman að loknu páskaleyfi þm., sérstakt frv. með heimild til handa ríkisstj. að taka lán til þess að leggja Bjargráðasjóði til nægilega fjárupphæð sem geri honum kleift að bæta óveðurstjónið sem fjölmargir aðilar urðu fyrir á þessum vetri. Till. á þskj. 656 er því dregin til baka.