14.04.1981
Neðri deild: 81. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3733 í B-deild Alþingistíðinda. (3821)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins taka fram að ég fylgdist mjög grandgæfilega með þessari atkvgr. og þessar niðurstöður eru nákvæmlega í samræmi við það sem atkv. féllu hér áðan, eins og hljóðritun á atkvgr. mun geta fært mönnum heim sanninn um. Mér er sagt, herra forseti, að um það leyti sem fyrst var tekin upp hljóðritun á umr. hér frá Alþingi hafi maður í flokki hv. þm. Páls Péturssonar dregið í efa að segulböndin störfuðu rétt og tækju rétt upp það sem menn sögðu hér. Það var gerð sérstök athugun á því að tilhlutan viðkomandi Framsóknarþingmanns og tæknimanna hér í þessari virðulegu stofnun, og hann fékk sjálfur að ganga úr skugga um það, að segulbandsspólan breytti ekki jái, sem hér væri mælt, í nei. Ég fer því fram á það við hæstv. forseta, að hann beiti sér fyrir því að hv. þm. fái að ganga úr skugga um að segulbandsupptakan fari rétt með. Og ég sé enga ástæðu til að endurtaka hér atkvgr. þó að hv. þm. Páli Péturssyni líki ekki niðurstaðan. (Forseti: Hv. þm. ræður því að vísu ekki.)