14.04.1981
Sameinað þing: 75. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3739 í B-deild Alþingistíðinda. (3838)

278. mál, lifnaðarhættir æðarfugls

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Þær aths., sem fram komu frá hv. 11. landsk. þm., eru auðvitað nokkuð sérkennilegar. Hann segir að ekki hafi fengist fé til þess að ráða hlunnindaráðunaut. Hann var ráðinn í fullt starf 1. apríl 1980 og hefur starfað sem slíkur síðan. (Gripið fram í.) — Hv. 11. landsk. þm. segir að ekki hafi runnið ein króna til nýrra búgreina eða hlunninda á síðasta ári. Á síðasta ári var ráðstafað 500 millj. kr. til ýmissa hagræðingarverkefna í landbúnaði og nýrra búgreina. Ég gat þess, að til þess verkefnis sem hér er um rætt, fóru aðeins 2 millj. kr. af þeim 500 sem hér er um að tefla, en þar var ráðstafað fjármunum til fiskræktar, til veiðimála, til hlunnindaafraksturs, til loðdýraræktar og ýmissa annarra verkefna á þessu sviði og er ekki þörf á að rekja það hér. Það hefur verið rakið opinberlega.