14.04.1981
Sameinað þing: 75. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3741 í B-deild Alþingistíðinda. (3840)

384. mál, hjöðnun verðbólgu 1981

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Í fsp. þessari er spurt um kaupmátt næstu mánuði án þess að tekið sé tillit til annarra atriða er munu hafa áhrif á kaupmátt á árinu 1981, t. d. beinna skatta. Þetta ber að hafa í huga við útreikning og svör við þessum fsp.

Varðandi 1. liðinn í fsp. vil ég taka þetta fram:

Í efnahagsáætlun ríkisstj. frá 31. des. s. l. er m. a. sett það markmið að draga svo úr hraða verðbólgunnar að hún lækki í um 40% á árinu 1981. Í efnahagsáætlun er jafnframt gerð grein fyrir ýmsum aðgerðum sem mótast af markmiðum áætlunarinnar. Þar segir m. a. að á næstu mánuðum verði ákveðin tímasett mörk fyrir hámark verðhækkana í samræmi við hjöðnun verðbólgu. Með þeim ráðstöfunum, sem þegar hafa verið framkvæmdar á grundvelli efnahagsáætlunar ríkisstj., er stefnt að því að draga svo sem kostur er úr verðhækkunum á fyrstu mánuðum ársins. Þetta er mikilvægt í ljósi þess að framvindan á fyrri hluta ársins mun hafa mikil áhrif á þróunina á síðari hluta ársins að öllu óbreyttu. Það er því nauðsynlegt að fylgjast vel með verðlagsþróuninni og framkvæmd verðlagsmála, m. a. í því skyni að setja ákveðin mörk fyrir hámark verðhækkana þegar ástæða þykir til. Tímasett mörk eru í undirbúningi og verða tillögur í því efni væntanlega tilbúnar fyrir næstu mánaðamót. En meginatriðið er þó að framkvæmd verðlagsmála og efnahagsáætlunar allrar verði með þeim hætti er best tryggi að markmiði hennar verði náð.

Varðandi 2. liðinn vil ég taka fram að kaupmáttur tímakaups verkamanna á öðrum ársfjórðungi 1981 ræðst m. a. af verðlagsbreytingum mánuðina apríl — júní. Því verður ekkert fullyrt um kaupmátt á þessu tímabili fyrr en tölur um verðlagsbreytingar liggja fyrir. Ríkisstj. hefur gripið til margvíslegra aðgerða til að draga úr verðhækkunum á þessu tímabili. Sumar þessara ráðstafana hafa þegar haft áhrif, en óvissa ríkir um árangur annarra.

Kaupmáttur kauptaxta verkamanna var heldur meiri á fyrsta ársfjórðungi 1981 en á fyrsta ársfjórðungi 1980, tæp 101% eða 100.9% á fyrsta ársfjórðungi 1981 miðað við 100 fyrsta ársfjórðung 1980. Skerðing á verðbótum 1. mars hefur þau áhrif, að kaupmáttur á öðrum fjórðungi þessa árs verður nokkru minni en á fyrstu þremur mánuðum ársins, eða 98.5 samkv. lauslegri áætlun Þjóðhagsstofnunar. Þessari minnkun kaupmáttar verður að nokkru mætt með lækkun beinna skatta sem ákveðin hefur verið í samráði við samtök launþega, og enn fremur verða verðbætur á laun siðar á árinu rýmri en verið hefði að óbreyttum lögum. Síðast en ekki síst ber að hafa í huga að kaupmáttur á hverju verðbótatímabili rýrnar minna eftir því sem tekst að draga úr verðbólgu.

Það er nauðsynlegt að taka tillit til þessara þátta, sem hér voru nefndir, þegar meta á þróun kaupmáttar á þessu ári.

Varðandi 3. og 4. lið fsp.: Kaupmáttur elli- og örorkulífeyris á fyrsta fjórðungi þessa árs er heldur minni en á fyrsta ársfjórðungi 1980. Miðað við 100 á fyrsta ársfjórðungi 1980 eru tölurnar 97.7 á fyrsta ársfjórðungi 1981 og samkv. lauslegri áætlun Þjóðhagsstofnunar 95 á öðrum ársfjórðungi 1981. Á hinn bóginn er kaupmáttur þeirra lágmarkstekna, sem lífeyrisþegum eru tryggðar með almennum lífeyri og tekjutryggingu, um 2% meiri á fyrsta ársfjórðungi 1981 en á sama tíma í fyrra. Kaupmáttur þessara tekna mun líklega haldast nokkurn veginn óbreyttur á öðrum ársfjórðungi vegna þeirrar sérstöku hækkunar sem varð á tekjutryggingu 1. mars. Tölurnar varðandi þetta atriði, miðað við 100 á fyrsta ársfjórðungi 1980, eru 102.2 á fyrsta ársfjórðungi 1981 og svipað samkv. áætlun fyrir annan ársfjórðung 1981. Þessar tölur, sem ég hér hef greint, eru byggðar á útreikningum og áætlunum Þjóðhagsstofnunar.