14.04.1981
Sameinað þing: 75. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3742 í B-deild Alþingistíðinda. (3841)

384. mál, hjöðnun verðbólgu 1981

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svörin, að svo miklu leyti sem hann svaraði þessum fsp. mínum. Ég held að það verði því miður að segja, eins og hann sagði hér sjálfur við umr. um lánsfjárlög, að það verði að hafa allan fyrirvara á þeim tölulegu upplýsingum sem hann kom fram með hér. Enda þótt hann flytti þær í nafni Þjóðhagsstofnunar koma þær svolítið spánskt fyrir sjónir. En það er kannske fróðlegast fyrir þingheim að fá þau svör nú, eftir að ríkisstj. er búin að starfa á annað ár raunverulega og setja í sinn stjórnarsáttmála að hún hyggist fara þá leið að telja niður verðbólguna á árinu 1981 — eins og hún gerði í fyrra með þeim hörmulegu afleiðingum sem það hafði — að hæstv. ríkisstj. hefur ekki enn gert sér grein fyrir því, hvernig þessi niðurtalning eigi að vera á árinu 1981. Og eftir alla þá umr., sem fram hefur farið um verðbólgu- og verðlagsmál á þessu ári, segir hæstv. forsrh. núna að þess megi vænta, að þessi tölusettu mörk verði sett fram um næstu mánaðamót, eða mér skildist það. Þetta sýnir náttúrlega að upphafleg áætlun ríkisstj. hefur farið úr böndum, eins og reynslan hefur sýnt, því að það má eiginlega segja að niðurtalningin hafi orðið að háðsupphrópunarmerki fyrir hæstv. ríkisstj. Það kemur glöggt fram í þessu svari hæstv. ráðh.

Það er annars nokkuð merkilegt að hæstv. ríkisstj. segir að stefnt sé að 40% verðbólgu á þessu ári, en hæstv. ráðh. kom hér fram með upplýsingar í sinni framsöguræðu um það, að verðbólgan yrði sennilega ekki nema 30 og eitthvað prósent án þess að nokkuð yrði gert á þessu ári. Þetta er því að verða meiri háttar sjónarspil, þessar aðferðir og aðgerðir ríkisstj. í viðureigninni við verðbólguna. En menn vita það þá, að um næstu mánaðamót má búast við að markmið verði sett, tölusett markmið eins og stjórnarsáttmálinn lofaði.

Í máli hæstv. ráðh. lagði hann áherslu á að svara ekki þeim spurningum sem ég bar fram í 2., 3. og 4. lið. Ég spurði um þennan kaupmátt á öðrum ársfjórðungi eftir að skerðingarákvæði brbl. tóku gildi. Hann lagði áherslu á að svara því hver kaupmátturinn hefði verið áður en skerðingarlögin tóku gildi. Það kom þó í ljós í hans svörum, að kaupmáttur tímakaups hefur skerst verulega frá því að ríkisstj. tók við völdum, og fer þá að verða spurning hvernig hv. þm. Alþb. geta haldið því fram alls staðar, hvar sem er, að það sé aðalerindi þeirra og verkefni í ríkisstj. að koma í veg fyrir skerðingu kaupmáttar almennings. Það er fróðlegt að gera sér grein fyrir þessari þróun vegna þess að viðskiptakjör hafa farið mjög batnandi að undanförnu og engin efni til þess að viðskiptakjararýrnun haldi áfram að skerða kaup manna á þessu ári.

Það er líka fróðlegt að gera sér grein fyrir því, að kaupmáttur bótaþega elli- og örorkulífeyrisþega hefur minnkað enn þá meira en kaupmáttur tímakaups verkamanna á tímabili því sem ríkisstj. hefur setið að völdum.