14.04.1981
Sameinað þing: 76. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3749 í B-deild Alþingistíðinda. (3849)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Mér skildist að hér væri lagt upp í stuttar umr., en hv. málshefjandi hefur nú farið allmörgum orðum um það mál, sem hann hefur borið hér fram, og reifað fsp. til mín. Ég skal nú freista þess að svara þeim í ekki mjög löngu máli þó að hægt væri að gera það.

Ég vil fyrst taka þar til að málefni Orkustofnunar hafa verið til meðferðar á vegum stjórnvalda um nokkurt skeið. Þegar ég var starfandi sem iðnrh. hið fyrra sinn, frá sept. 1978 til okt. 1979, setti ég hóp manna til þess að líta á málefni Orkustofnunar með tilliti til þeirra fyrirhuguðu lagabreytinga varðandi skipulag raforkuöflunar og raforkudreifingar í landinu sem þá voru á döfinni, stofnun nýrrar Landsvirkjunar eins og hún var kölluð. Verkefni þessa hóps skyldi vera að gera tillögur um eðlileg mörk á milli Orkustofnunar sem rannsóknaraðila og framkvæmdaaðila sem við tækju til þess að reisa og reka virkjanir sem spryttu upp af því almenna starfi sem Orkustofnun stæði fyrir. Þessi vinnuhópur hafði ekki skilað áliti þegar ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar fór frá haustið 1979 og það gerðist einnig skömmu síðar, að viðleitni til þess að koma upp einu raforkuöflunarfyrirtæki í landinu var stöðvuð, tillögur um það voru felldar með tilstyrk Sjálfstfl. í borgarstjórn Reykjavíkur og eins fulltrúa Alþfl. í þeirri borgarstjórn. Ég veit að hv. fyrirspyrjandi, hv. 4. þm. Vestf., mun hafa verið mjög sáttur við þær málalyktir, því að hann hefur beitt sér sem hann hefur mátt gegn því að koma skipulagsmálum raforkuöflunar í landinu í það horf sem þarna var að stefnt, en í staðinn viljað hólfa þau niður eftir landshlutum samkv. sjónarmiðum sem ég tel að séu úrelt orðin og ekki orkumálum í landinu til framdráttar. Enn ber hann fram till. hér á Alþingi um þessi efni eins og hv. alþm. þekkja.

Það var síðan í ársbyrjun 1980, á starfstíma þáv. iðnrh., að ríkisendurskoðun — sem raunar heyrir ekki undir iðnrn., heldur fjmrn., þó sem nokkuð sjálfstæður aðili að ég hygg — ákvað að fara ofan í stjórnsýslumálefni Orkustofnunar á grundvelli laga nr. 13/1979, svokallaðra Ólafslaga, að ég hygg, þar sem gert er ráð fyrir að ríkisendurskoðun ásamt fjárlaga- og hagsýslustofnun geti tekið að sér stjórnsýsluendurskoðun. Mér var ekki kunnugt um það fyrr en liðið var á vetur 1979–1980, líklega í aprílmánuði, að slík vinna væri í gangi á vegum ríkisendurskoðunar að því er varðaði stjórnsýsluhætti og innra skipulag Orkustofnunar. En um það leyti var mér greint frá því — og raunar í framhaldi af því leitað eftir samstarfi við iðnrn. um það mál. Var ljúflega við því orðið, því að sjálfsögðu höfðum við ekki á móti því, að á þessum málum væri tekið, þó með nokkuð öðrum hætti væri en til var stofnað sumarið 1979 af mér sem iðnrh.

Þessi vinna fór fram undir forustu ríkisendurskoðunar og hún skilaði um þetta vinnugögnum og gerði tillögur um vissa málsmeðferð í þeim áfangaálitum. Eftir að ríkisendurskoðun hafði borið sig saman við iðnrn. varð að ráði að rn. ásamt fleirum tæki við málinu, þar sem ríkisendurskoðun hafði skilað sínu áliti. Varð það að samkomulagi þessara aðila að settur yrði á fót vinnuhópur til þess að fjalla um málefni Orkustofnunar, m. a. með hliðsjón af þeirri vinnu og áfangaáliti sem ríkisendurskoðun hafði látið frá sér fara þar að lútandi. 1. ágúst 1980 voru skipaðir í starfshóp til að gera tillögur um endurbætur á innra skipulagi og stjórnsýslu á Orkustofnun eftirtaldir aðilar með svofelldu bréfi, með leyfi hæstv. forseta:

„Í samráði við Orkustofnun, ríkisendurskoðun og fjárlaga- og hagsýslustofnun hefur rn. ákveðið að setja á fót starfshóp er geri tillögur um endurbætur á innra skipulagi og stjórnsýslu á Orkustofnun. Eftirtaldir menn hafa verið tilnefndir í hópinn: Kristmundur Halldórsson, frá iðnrn., Tryggvi Sigurbjarnarson, frá iðnrn., Jakob Björnsson, frá Orkustofnun, Axel Björnsson, frá Orkustofnun, Stefán Sigurmundsson, frá Orkustofnun, Rúnar P. Jóhannsson, frá ríkisendurskoðun og Jón E. Böðvarsson, frá fjárlaga- og hagsýslustofnun. Páll Flygenring ráðuneytisstjóri mun kalla starfshópinn saman. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili áfangatillögum undir lok septembermánaðar n. k. og lokatillögum fyrir árslok 1980.“ — Undir þetta ritaði ég ásamt ráðuneytisstjóra, Páli Flygenring.

Þessi starfshópur skilaði í des. 1980 að vísu ekki lokaáliti en áfangatillögum ásamt greinargerð um breytingar á stjórnskipulagi Orkustofnunar. Það væri efni út af fyrir sig að kynna þær tillögur, en ég mun aðeins grípa niður í upphaf þessara tillagna, það sem varðar tillögur starfshópsins um stjórn Orkustofnunar. Þar segir í upphafi um markmið, með leyfi hæstv. forseta:

„Markmiðið með skipulagsbreytingunum er að bæta almenna stjórnun og stjórnsýslu á Orkustofnun og skapa þannig grundvöll fyrir árangursríkari rekstri. Orkustofnun hefur stækkað verulega á s. l. áratug, bæði hvað varðar starfslið, fjármagn til ráðstöfunar og fjölda einstakra verkefna. Skipulag stofnunarinnar hefur hins vegar ekki að sama skapi þróast til aðlögunar breyttum aðstæðum. Á þetta sérstaklega við um yfirstjórn stofnunarinnar. Megininntakið í þessum áfangatillögum er breikkun efsta stigs stjórnar á Orkustofnun, aukin áhrif almennra starfsmanna á stjórnun og starfshætti og efling stjórnsýslu og fjármálastjórnunar á stofnuninni. Auk þessa er hér um að ræða ráðstafanir til að efla tengsl stofnunarinnar við iðnrn. og til að skapa möguleika á betri samhæfingu við hina ýmsu orkumálaaðila landsins.

Helstu þættir skipulagsbreytinganna í þessum áfanga eru fjórir: Í fyrsta lagi verði komið á fót stjórn Orkustofnunar sem í umboði ráðh. hafi á hendi yfirstjórn stofnunarinnar. Í öðru lagi verði sett á stofn framkvæmdaráð sem verði samráðs- og samhæfingarvettvangur innan stofnunarinnar. Í þriðja lagi verði stjórnsýsla og fjármálastjórn efld með því að auka verksvið og starfslið núverandi skrifstofu- og hagdeildar. Í fjórða lagi eru í þessum áfanga gerðar tillögur um breytingar á skiptingu stofnunarinnar í deildir.

Í 2. áfanga tillagna starfshópsins verður fjallað nánar um innra skipulag deilda.“

Ég bæti því við, að þessi starfshópur vinnur nú að þessum 2. áfanga tillögugerðar, sem hér var greint frá, eftir að hafa skilað þessum tillögum sem nú eru komnar til framkvæmda, eins og hér hefur verið rakið. En ég vil vitna hér í tillögur þessa starfshóps um stjórn Orkustofnunar. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn Orkustofnunar skal hafa með höndum yfirstjórn stofnunarinnar, marka henni stefnu, fjalla um skipulag og starfshætti og fara ásamt orkumálastjóra með tengsl stofnunarinnar við iðnrn. Iðnrh. kveður nánar á um verkaskiptingu stjórnar og orkumálastjóra í erindisbréfi. Fundargerðir og samþykktir stjórnar skulu kynntar framkvæmdaráði Orkustofnunar. Ráðh. skipar án tilnefningar þrjá menn í stjórnina til eins árs í senn.

Í verkahring stjórnarinnar verða allir þættir stjórnunar, almennrar starfsemi og starfsmannahalds á stofnuninni, þ. á m. stefnumótun, samþykkt verkefna og fjárhagsáætlana og stefnumörkun í samskiptum við aðila utan stofnunarinnar. Ætlast er til að orkumálastjóri og framkvæmdaráð ráði fram úr þeim vandamálum og viðfangsefnum sem upp koma í daglegum rekstri.“

Ég tel ekki meira upp úr áfangatillögum þessa starfshóps, en þar er m. a. kveðið á um starfshætti hins svonefnda framkvæmdaráðs sem fjalla skal um innri starfshætti á Orkustofnun með aðild starfsmanna hennar. Um þessar tillögur var full eining í þessum starfshópi að öðru leyti en því, að orkumálastjóri tók ekki undir till. meiri hl. nefndarinnar, 6 af 7 í þessum starfshópi, að stofnuninni yrði sett sérstök stjórn með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir, og skilaði um það efni séráliti.

Þessar tillögur lágu fyrir iðnrn. eftir að starfshópurinn hafði skilað áliti. Ég ræddi um þær við ýmsa aðila, þ. á m. við orkumálastjóra og ýmsa lögfræðinga, bæði innan míns rn. og utan, til þess m. a. að spyrja þá álits á því, hvort eðlilegt væri að stíga það skref að setja stofnuninni stjórn með svipuðum hætti og gert væri ráð fyrir í þessum till. Svarið var á þá leið, að það væri ekkert sem mælti gegn því, að slíkt væri gert, og á grundvelli slíks álits var það bréf ritað og þær ákvarðanir teknar sem hv. 4. þm. Vestf. hefur hér rifjað upp. En ég vil aðeins til ítrekunar vitna í bréf ráðuneytisins frá 24. febr. 1981, þar sem vísað er í áfangatillögur þessa starfshóps ásamt grg., með leyfi hæstv. forseta:

„Í samræmi við þessar tillögur er ákveðið að skipa þriggja manna stjórn Orkustofnunar er starfi á ábyrgð iðnrh. Þannig skal stjórnin hafa með höndum yfirstjórn stofnunarinnar, fjalla um stefnu hennar, skipulag og starfshætti og fara ásamt orkumálastjóra með tengsl við iðnrn.“ — Tilvitnun lýkur í þetta skipunarbréf.

Eins og hér kemur fram er ekki verið að ávísa ábyrgð ráðh. á þessari stofnun, sem hann ber lögum samkvæmt, til annarra aðila en þessarar stjórnar sem starfar undir rn. og á ábyrgð iðnrh. Og það er að mínu mati fyrirkomulagsatriði, en á ekki að vera ásteytingarefni, hvort framkvæmdavaldið, í þessu tilfelli ráðh., kveður aðila sér til aðstoðar í sambandi við tengsl við viðkomandi stofnun, til þess að þau geti verið sem greiðust að hans mati, og viðkomandi rn. Þetta útilokar að sjálfsögðu engan veginn það, að taka megi með öðrum hætti á þessum málum og setja Orkustofnun þingkjörna stjórn, ef Alþingi svo ákveður. Það þarf ekki að hafa um það orð hér og stangast á engan hátt á við hugmyndir þar að lútandi. Ég bendi á að sú stjórn, sem hér hefur verið skipuð, var aðeins skipuð til eins árs — eða til loka árs 1981, og með það alveg sérstaklega í huga, að rn. vinnur að því að móta hugmyndir um breytingu á Orkulögum, sem ég hygg að okkur greini ekki á um, hv. fyrirspyrjanda, hv. 4. þm. Vestf., og mig, að þurfi endurskoðunar við. Og þó að ekki sé víst að við séum að öllu leyti sammála um í hverju þær breytingar eigi að vera fólgnar, þá hygg ég að þar geti ýmis sjónarmið farið saman, og ég vænti þess, að svo verði þegar á þessi efni reynir.

Ég tel að með þeim aðgerðum, sem hér hefur verið greint frá og hér hafa verið gerðar að umræðuefni, einnig varðandi deildaskipan innan Orkustofnunar, sé stigið skref sem að bestu manna yfirsýn hafi verið rétt að stíga og verði stofnuninni til framdráttar. Á meðan unnið er að endurskoðun orkulaga, og frv. liggur m. a. hér fyrir hv. Alþingi þar að lútandi, fæst með þessum hætti verðmæt reynsla í þessum efnum sem menn geta þá tekið mið af áður en breytingar eru gerðar á lögum eða breytingar festar í lög frá því horfi sem verið hefur, frá þeim bókstaf sem þar stendur.

Segja má að ýmislegt í þessum orkulögum sé ekki í samræmi við þá þróun sem orðið hefur, og raunar ýmis atriði laganna sem hafa ekki komið til framkvæmda, þ. á m. um svonefnda tækninefnd Orkustofnunar, og hafa þó þessi lög gilt um áratugi. Skal ég ekki dæma um ástæður fyrir því, að ekki hefur verið framfylgt ákvæðum laganna þar að lútandi. En þar hafa margir komið við sögu síðan þessi lög voru sett og virðast ekki hafa haft áhuga á því að hagnýta heimildir í því efni.

Ég hef ekki orðið var við gagnrýniraddir í sambandi við þessi efni fyrr en nú, að hv. 4. þm. Vestf. kveður sér hér hljóðs utan dagskrár til að finna að þessum gerðum og krefst skýringa af minni hálfu. Ég tel mig hafa hér reitt fram skýringar á því, hvernig að þessu hefur verið staðið og hvernig undirbúningi hefur verið háttað í þessum efnum. Þar hafa fleiri komið við sögu en tilkvaddir aðilar af iðnrn. Og varðandi fsp. hans um það, hvers vegna frekar sé ráðið þessum ráðum með því að nota fyrirliggjandi tillögur sem grundvöll en með því að gera hér tillögur á Alþingi um aðra tilhögun, þá vísa ég til þess, að orkulögin þarf að endurskoða í ljósi þeirra breytinga, sem orðið hafa, og þ. á m. þarf að taka afstöðu til þess, hvort Orkustofnun verði sett stjórn sem beri þá ábyrgð með öðrum hætti, gagnvart þinginu þá væntanlega, fremur en iðnrh., eins og sú stjórn sem ég hef skipað til eins árs, þ. e. til loka þessa árs, eins og fram hefur komið.

Ég vil geta þess, að þó að nokkur ágreiningur hafi verið í umræddum starfshópi, milli eins úr þeim hópi, þ. e. orkumálastjóra, og þeirra sem með honum störfuðu í þessum hópi, þá var þessi stjórn, sem á að vinna með orkumálastjóra undir iðnrn., sett á með fullri vitund orkumálastjóra og með að ég tel vera góðu samkomulagi. Ég vænti þess, að þær tillögur, sem hún gerir til rn. sem hún starfar undir, á hvers ábyrgð hún starfar, verði til þess að bæta úr nokkrum annmörkum sem ýmsir hafa talið að væru á starfsháttum þessarar þýðingarmiklu stofnunar, og vil ég þó ekki hafa uppi hér neina gagnrýni á einn eða annan í því efni. En fram hafa komið skýrslur þar að lútandi, m. a. frá ríkisendurskoðun. Ég vil út af fyrir sig ekki gera þær álitsgerðir eða þau orð að mínum, því að ég hef ýmsar aths. fram að færa við það sem þar kemur fram.

Ég held að það skipti mjög miklu máli, að jafnfjölmenn og þýðingarmikil stofnun og Orkustofnun geti rækt sitt hlutverk. Og ég vænti þess, að sú reynsla, sem fæst af þeim breytingum sem þar hafa verið ákveðnar af rn. að undanförnu, verði til þess að starfsemi stofnunarinnar eflist. Og ég vænti þess, að fjárlaga- og hagsýslustofnun, sem tók þátt í þeirri tillögugerð sem þessar ákvarðanir taka mið af, sjái sér fært að mæla með því, að stjórnsýslulið innan stofnunarinnar verði eflt, en það er m. a. einn þátturinn sem bent hefur verið á að ekki hafi verið ræktur sem skyldi, þ. e. að í yfirstjórn stofnunarinnar og hjálparliði í sambandi við stjórnsýslu hafi ekki fjölgað í réttu hlutfalli við sérfræðinga og umfang í starfsemi stofnunarinnar og eigi það nokkurn þátt í vissum erfiðleikum sem að margra mati hafa verið þar á innri starfsemi.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar, en vænti að þessi grg. mín hafi varpað nokkru ljósi á þetta og veitt hv. 4. þm. Vestf. nokkra úrlausn.