10.11.1980
Efri deild: 10. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 555 í B-deild Alþingistíðinda. (385)

33. mál, málefni Flugleiða hf.

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég fagna því, að svo víðtæk samstaða hefur náðst í fjh.- og viðskn. þessarar deildar um þetta viðkvæma mál, — samstaða sem væntanlega verður til þess að málið fær hraða meðferð í gegnum Alþingi, og þá væntanlega án mjög mikillar umr., sem oft er erfið þegar um svo viðkvæmt mál er að ræða. Mér sýnist að nefndin hafi unnið mjög vel að þessu máli. Ég átti þess kost að koma á tvo fundi hennar og fá þær upplýsingar, sem hún hafði aflað sér, og láta henni í té annað. Hins vegar verð ég að harma það, að einn nm. hefur kosið að skapa sér sérstöðu í þessu máli. Og sumt af því, sem hann sagði hér áðan, er þess eðlis, að mér sýnist nauðsynlegt að ég geri við það aths. þótt þær verði ekki margar.

Ég er hv. þm. Kjartani Jóhannssyni ósammála um að það sé eðlilegt og rétt að setja slík skilyrði í landslög. Ég fæ varla séð að hægt sé að setja það í landslög, svo að ég nefni dæmi, að viðræður skuli hefjast um takmörkun á atkvæðisrétti einstaklinga og fyrirtækja. Einnig er svo um annað, sem hér er um að ræða, að um það þarf að fjalla við fyrirtækið. Sum þessara atriða geta þýtt breytingu á stofnsamningi fyrirtækisins, og mér sýnist eðlilegt að um það sé við það rætt, hvernig slíkt er framkvæmt. Hitt verð ég svo að segja, að a.m.k. gagnvart mér sem samgrh. eru þessi ákvæði, sem svo skilmerkilega eru talin í nál., sama og lög. Ég get ekki sagt annað. Það er framkvæmd þeirra sem þarf að athuga betur sem von er. Þess er ekki að vænta, að því máli hafi verið fyllilega lokið á fáum dögum, en að sjálfsögðu lít ég svo á að lögin, ef frv. verður samþ., séu háð þeim ákvæðum sem um getur í áliti meiri hl. nefndarinnar. Á því er ekki nokkur vafi þannig að það er jafngilt að þessu leyti.

Hv. þm. taldi að æskilegt væri að telja upp endanlega það sem að skilyrðum ætti að setja í frekari meðferð málsins. Ég skal ekkert um það segja á þessu stigi, hvort frekari skilyrði þarf að setja, en vafalaust þarf að ræða við fyrirtækið um önnur atriði. Ég vona að þau atriði leysist án þess að setja þurfi um þau skilyrði. Ég nefni sérstaklega þær vinnudeilur sem verið hafa innan fyrirtækisins. Vitanlega verður að fást þarna starfsfriður og bæði fyrirtækið og starfsmenn að leggja nokkuð af mörkum til þess að svo megi verða. Ég leyfi mér að fullyrða að öll sú aðstoð, sem verið er að ræða um, er til einskis ef ekki fæst starfsfriður. Á það verður því að leggja mjög ríka áherslu og nauðsynlegt að tryggja áður en endanlega er gengið frá þessari ríkisábyrgð. En ég endurtek: Vonandi þarf ekki að setja nein skilyrði um það. Ég treysti því, að báðum aðilum sé ljóst mikilvægi þess.

Hv. þm. reyndi að gera mér upp einhverjar yfirlýsingar, án þess að nefna þær, sem hefðu verið vafasamar eða hvernig hann orðaði það. Ég er undrandi á því. Ég hef ekki farið út í ádeilur á fyrirtækið. Ég hef ekki rætt um þau atriði sem hafa verið nefnd manna á meðal um mistök stjórnar op fjölmargt annað. Ég hef kosið að láta slíkt kyrrt liggja. Ég er hv. þm. sammála um að ástæða er til að efast um hæfni stjórnar fyrirtækisins á þessum erfiðu tímum, eins og kom fram hjá honum. Ástæða er til þess, en ákvörðun um nýja stjórn verður að bíða hluthafafundar og því ótímabært að vera með nokkrar fullyrðingar um það.

Ég vil líka taka undir hitt með hv. þm., að samband á milli stjórnvalda og fyrirtækisins hefur ekki verið eins og þarf að vera þegar um er að ræða fyrirtæki sem fer með allan flugrekstur okkar Íslendinga við önnur lönd. Þær yfirlýsingar, sem ég hef gefið þar að lútandi, hafa einmitt byggst á þessari staðreynd sem ég er sammála hv. þm. um. Það er líka rétt hjá hv. þm., að þær upplýsingar, sem við höfum fengið, hafa fyrst og fremst verið frá fyrirtækinu sjálfu komnar. Þó vek ég athygli á því að mat á flugvélum fyrirtækisins er fengið frá sérfræðingum erlendis sem til voru kvaddir. Þeir meta flugvélakost fyrirtækisins á 59 millj. dollara, en í bókhaldi þess sjálfs eða þeirri skýrslu, sem kom 8. sept., var þessi sami flugvélakostur metinn á 63 millj. dollara. Auk þess eru óháðir aðilar, sem skipaðir hafa verið af hæstv. fjmrh., nú að ljúka mati á eignum fyrirtækisins, svo að þessi mikilvægi þáttur er einmitt í athugun af óháðum aðilum, eins og hv. þm. leggur til.

Ég vek einnig athygli á því, að skipaðir voru eftirlitsmenn með fyrirtækinu. Þeir hafa skilað nokkrum skýrslum, m.a. skýrslu sem birtist í skýrslu minni til Alþingis. Þeir hafa nýlega skilað um þetta viðbótarskýrslu og haft sér til aðstoðar sérhæfðan mann, endurskoðanda, til að meta fjárhagsstöðu fyrirtækisins. Því miður hefur komið fram að fyrirtækið hefur ekki veitt þessum eftirlitsmönnum þær upplýsingar sem þeir hafa beðið um, eins fljótt og þarf að vera. Ég verð hins vegar að endurtaka það og taka undir það, að sambandið þarna hefur ekki verið nægilega gott. Nauðsynlegt er að ríkisvaldið hafi aðstöðu til að fylgjast með þróun innan þessa mikilvæga rekstrar betur en verið hefur. E.t.v. kemur þetta skýrast fram í því, sem lesa má úr ýmsum yfirlýsingum fyrirtækisins. Í bréfi þess frá 28. febr. 1980 segir, með leyfi forseta:

„Í þeim áætlunum, sem gerðar hafa verið á vegum fyrirtækisins fyrir árið 1980, er ljóst, að rekstur mun verða mjög erfiður áfram á þessu ári, en vonir standa til að unnt reynist að ná endum að mestu leyti saman, og eru líkur á því að skila rekstri mjög nálægt jöfnuði á árinu.“

Þetta er sagt í lok febr. Hinn 8. sept. fáum við skýrslu sem sýnir rekstrartap upp á rúmar 11 millj. dollara þannig að þessi von hefur ekki staðist. En það er ekki fyrr en 15. sept. að við fáum að vita að fyrirtækið vanti ríkisábyrgð fyrir 12 millj dollara til að rétta við sinn rekstur. Og í þeim upplýsingum, sem fyrirtækið lætur Landsbankanum í té, kemur í ljós að greiðsluþörfin í nóvembermánuði einum er nálægt 10 millj. dollara. Mér sýnist því ljóst að það, sem ég hef sagt um þetta, hafi verið á rökum reist.

Ég verð að endurtaka að ég er ákaflega óánægður með, að upplýsingar skuli berast svona til ríkisvaldsins, og tel að úr því þurfi að bæta. Um þetta hef ég gefið yfirlýsingar og ef þær eru ekki á rökum reistar, þá veit ég ekki hvað er í raun og veru á rökum reist. Þessi þróun er slík að hún er óviðunandi. En til að bæta úr þessu er einmitt eitt af skilyrðunum að ríkisvaldið eignist 20% hlutafjárins og geti þar með átt einn til tvo menn í stjórn. Þetta tel ég mjög mikilvægt einmitt til að bæta upplýsingastreymi frá fyrirtækinu til stjórnvalda.

Ég mótmæli því, að yfirlýsingar um þetta efni hafi verið byggðar á misskilningi eins og kom fram hjá hv. þm.

Ég tek undir það með honum, að óþarft er að vera að deila um það, hvort beðið hafi verið um aðstoð eða ekki. Það er skjalfest í fjölmörgum bréfum fyrirtækisins sem ég hef rakið annars staðar og ætla ekki að endurtaka hér, enda hefur fyrirtækið svarað bréfi mínu og segir þar nokkurn veginn orðrétt, að stjórn fyrirtækisins staðfesti þá ákvörðun hluthafafundar, að haldið verði áfram Norður-Atlantshafsfluginu, og þá ósk hluthafafundar, að aðstoð verði veitt í þessu sambandi. Þetta kemur fram í því sem síðast kom frá stjórn félagsins.

Ég vil upplýsa það, að ég ræddi við stjórn félagsins um þau skilyrði sem hér eru sett. Ég gerði þeim grein fyrir þeim, skýrði þau og svaraði spurningum sem fram komu. En ekki hefur komið staðfesting frá stjórninni á því, að hún vilji vinna að því að þessi skilyrði fái framgang. Að sjálfsögðu eru sum þeirra háð samþykkt hluthafa, t.d. takmörkun á atkvæðisrétti einstakra fyrirtækja eða einstaklinga.

Ég vil svo segja þetta að lokum um stefnumörkunina: Hv. þm. sagði að engin stefna væri til í flugmálum. Það er mikill misskilningur hjá hv. þm. Stefna var mörkuð 1975 og það er út af fyrir sig ekki ýkjalangt síðan. Samkv. þeirri stefnu, eins og greinilega kemur fram í bréfi samgrh. frá þeim tíma, er Flugleiðum m.a. ætlað að sinna þeim áætlunarleiðum sem það kýs að sinna við önnur lönd, og reyndar gildir það bæði innanlands og erlendis. Þetta er sú stefna sem fylgt hefur verið. Síðan þetta gerðist hafa hins vegar m.a. umræddir erfiðleikar félagsins komið í ljós. Félagið hefur eignast það eina fyrirtæki annað, sem veitti því samkeppni með leiguflugi, og upp hafa risið í landinu og eflst allmörg lítil flugfélög, sem hafa fengið flugleiðir, en þá aðeins þær, sem Flugleiðir hf. hafa ekki kosið að sinna. Það er af þessari ástæðu að ég tel tímabært að endurskoða stefnu landsins í flugmálum. En það gerist ekki á einni nóttu. Það er viðamikið mál. Ég vil hins vegar upplýsa að ég hef rætt um það við hæstv. forsrh. m.a., að ég muni skipa nefnd færustu manna sem við eigum völ á til að gera tillögur um stefnumörkun í flugmálum. Að því ber ekki að rasa. Það er m.a. töluvert viðkvæmt mál innanlands, hvernig á að skapa litlu flugfélögunum, sem fljúga í hinum ýmsu landshlutum, starfsgrundvöll. Einnig þarf að ákveða hvort eðlilegt er að eitt félag hafi allar samgöngur okkar við umheiminn. Ég hef lýst þeirri skoðun minni, að ég tel æskilegt að annað félag starfi á þeim vettvangi, a.m.k. sem leiguflugfélag. Ég vil einnig vekja athygli á því, eins og ég hef gert í umr. í Sþ., að í öðrum vestrænum löndum — svo að ég nefni þau aðeins — eru öll þau flugfélög, sem hafa einkaleyfi til áætlunarflugs við önnur lönd, í eigu ríkisins eða ríkið á þar meiri hluta. Ég er út af fyrir sig ekki hlynntur slíkri þróun, tel það skref, sem hér er stigið, hins vegar æskilegt og eðlilegt. En vitanlega þarf, um teið og stefna er mörkuð, að athuga og skoða það atriði. Þetta vil ég upplýsa um stefnumörkunina. Að því mun sem sagt verða unnið á næstunni.

Ég legg höfuðáherslu á að það er misskilningur hjá hv. þm. að þessi skilyrði verði teygð og toguð, eins og hann orðaði það. Þau koma greinilega fram og eftir þeim verður unnið. Ef einhverjar breytingar verða á þeim mun ég beita mér fyrir því, að samráð verði haft við fjh.- og viðskn. Slíkar breytingar verða ekki nema í ljós komi að eitthvert þessara skilyrða sé ófullnægjandi eða ekki framkvæmanlegt.