27.04.1981
Neðri deild: 82. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3757 í B-deild Alþingistíðinda. (3855)

264. mál, Norðurlandasamningur um félagslegt öryggi

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til þess að fullgilda fyrir Íslands hönd Norðurlandasamning um félagslegt öryggi. Þetta frv. hefur verið afgreitt í hv. Ed. án athugasemda.

Sá samningur, sem hér er um að ræða, var undirritaður í Kaupmannahöfn 5. mars s. l. Í athugasemdum þeim, sem fylgja frv., er gerð grein fyrir tilurð þessa samnings, hverja samninga og hver lagafyrirmæli honum er ætlað að leysa af hólmi ef að lögum verður, og loks er gerð grein fyrir helstu nýmælum sem í samningum felast, en þau eru nokkur og allþýðingarmikil. Ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það hér, sem segir í þessum athugasemdum, og leyfi mér að vísa til þeirra. Gert er ráð fyrir því og ákveðið í 2. gr. þessa lagafrv., að þegar samningur sá, sem um ræðir í 1. gr., þ. e. þessi Norðurlandasamningur um félagslegt öryggi, hefur öðlast gildi að því er Ísland varðar skuli ákvæði hans gilda sem lög hér á landi.

Ég sé ekki, herra forseti, ástæðu til þess að fjölyrða um þetta mál frekar, en endurtek að hér er um gott mál að ræða sem ég geri ekki ráð fyrir að ágreiningur verði um.

Leyfi ég mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.