27.04.1981
Neðri deild: 82. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3764 í B-deild Alþingistíðinda. (3860)

221. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. minni hl. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Vestf. flutti hér langt mál og gott um þetta mál og ættu hv. alþm. í deildinni að vera nokkurs vísari eftir að hafa hlýtt á mál hans. Ekki er þó alveg fyrir það að synja, að það hafi verið nokkuð einlitt, en gott samt.

Þetta er mikið deilumál sem hér er á ferðinni. Sannleikurinn er sá, að fáir hafa orðið til þess að mæla því sérstaklega bót. Af þeim, sem fengu frv. til umsagnar, er aðeins einn aðili sem mælir með því, að það verði samþykkt, annar lætur það kyrrt liggja hvernig fara muni um frv., en aðrir eru á móti. Það eru auðvitað hagsmunaaðilar sem hvað harðorðastir eru og hv. 1. þm. Vestf. vísaði til.

Það er afar mikil spurning hvort fara eigi þessa leið í þessum efnum þegar ein deild í fiskverkuninni stendur höllum fæti, en önnur virðist — a. m. k. samkv. tölum frá Þjóðhagsstofnun sem ýmsir hafa dregið verulega í efa að séu réttar — skila miklum hagnaði, gífurlegum hagnaði eins og upp var gefið.

Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, einn umsagnaraðila í málinu, lætur það koma fram í sinni umsögn, að hún sé ekki hlynnt því að verið sé að hringla með útflutningsgjaldið eftir markaðsaðstæðum, en bendir á að í raun og veru væri miklu eðlilegra að þetta gjald væri tekið allt af hráefnisverði, en ekki af útflutningsverði vöru.

Við í minni hl. sjútvn. hv. deildar höfum auðvitað kannað vel umsagnir aðila í þessu máli og fengið á okkar fund fulltrúa sjómanna í Verðlagsráði. Við höfum komist að þeirri niðurstöðu að standa saman um það, þrír alþm., að leggja til að frv. verði samþykkt, þvert ofan í góðar ráðleggingar meiri hl. með hv. 1. þm. Vestf. í broddi fylkingar.

Meiri hl. nefndarinnar hefur látið það koma fram, að hann telji þetta hættulegt fyrir framtíðina, að þetta sé fyrsta skrefið í því að eyðileggja Verðjöfnunarsjóðinn, og tekur býsna sterkt til orða í þá veru í sínu nál. á þskj. 652. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Þetta frv. gengur þvert á þá stefnu, sem mörkuð var við endurskoðun sjóðakerfisins um samræmingu útflutningsgjalds, og er í hrópandi mótsögn við hlutverk Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins.

Við teljum frv. þetta ranglátt og verða til þess að rífa niður það sem hefur verið byggt upp á löngum tíma. Því leggjum við til að frv. verði fellt.“

Þarna er mikil fullyrðingasemi á ferðinni án þess að nægileg og haldgóð rök fylgi með að mínum dómi. Frv. er aðeins um það að bæta ákvæði til bráðabirgða við lögin um útflutningsgjald. Frv. er efnislega ekki nema þrjár línur og ég get lesið það, með leyfi hæstv. forseta. Þar segir:

„Þrátt fyrir ákvæði 1. gr. skal útflutningsgjald af frystum sjávarafurðum framleiddum á árinu 1981 nema 4.5% af fob-verðmæti útflutnings og útflutningsgjald af skreið og hertum þorskhausum framleiddum á árinu 1981 10% af fob-verðmæti útflutnings.“

Þarna segir ósköp einfaldlega, herra forseti, að þessari breytingu er einungis ætlað að ná til framleiddra sjávarafurða á árinu 1981. Eftir þetta ár hljóta menn að verða reynslunni ríkari í þessu efni og ef mönnum sýnist það ekki hafa gefið góða raun og hafa orðið til ills, þá verður þetta ekki endurtekið og lögin falla úr gildi í árslok. Þarna er því auðvitað alls ekki um neina stórkostlega hættu að ræða. En um aðferðina er deilt. Og þá kemur upp í hugann hvort rétt væri kannske að íhuga það — og ég beini því til hæstv. sjútvrh. — hugleiða hvort skynsamlegt væri að taka ákveðinn hluta af útflutningsgjaldi, sem ætlað er til hverrar deildar sjóðsins fyrir sig, og leggja í eina nýja deild í viðbót sameiginlega sem hægt væri þá að grípa til ef sérstaklega stæði á. Þá þyrfti ekki með beinum eða óbeinum hætti að flytja á milli deilda sem menn hafa yfirleitt verið andvígir til þessa.

Herra forseti. Það væri kannske full ástæða til þess að ræða bæði þetta mál og önnur betur, varðandi þessa hluti alla, en ég ætla að láta þetta duga og vísa af minni hálfu og minni hl. til þess sem segir á nál. 650, að minni hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt.