10.11.1980
Efri deild: 10. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í B-deild Alþingistíðinda. (387)

33. mál, málefni Flugleiða hf.

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að tala langt mál við afgreiðslu þessa máls. En ég vil taka undir með þeim, sem hér hafa stigið í ræðustól, og fagna víðtækri samstöðu að mínum dómi um málefni Flugleiða. Ég verð að játa, að við 1. umr. málsins sem og umr. í Sþ. á sinni tíð mátti ráða að samstaða yrði ekki eins víðtæk og raun hefur orðið á.

Það er enginn ágreiningur um efnisatriði þeirra skilyrða sem sett eru. Ég vil vekja enn og aftur athygli á því, eins og aðrir ræðumenn hafa gert. Ég lít á þann mun, sem fram kemur, að einn nm. hefur skilið sig frá rétt við lokaafgreiðsluna, vill hafa skilyrðin í lagagreininni, — ég lít á þennan mun aðeins sem blæbrigðamun, ég segi það hiklaust. Ég leit allan tímann á þetta mál þannig, miðað við samstöðu um efnisatriði skilyrðanna, að flestir hugsuðu á þann veg að alger samstaða til loka yrði tekin fram yfir atriði eins og það að knýja þetta inn í lagagreinina. Svo viðkvæmt hefur þetta mál verið í allri umfjöllun. Fram hefur komið í umr. að menn hafa skoðað þetta frá ýmsum sjónarhornum. Raunverulega hygg ég að enginn okkar sé á því, að með þessum hætti séum við um alla framtíð að móta stefnu í flugmálum okkar Íslendinga. Hér er fyrst og fremst verið að tryggja flugsamgöngur við landið í bráð. Ég er ekki að staðhæfa að til lengdar munum við tryggja flugsamgöngur við landið á forsendum fyrirtækisins Flugleiða, en á þessari stundu gerum við það. Og ég lít svo á, að samstaða innan nefndarinnar um efnisatriði sé á þeim forsendum, að nm. allir hafi gert sér grein fyrir því, að við áttum engra annarra kosta völ.

Að gefnu tilefni vil ég taka það fram, að hv. þm. Guðmundur Bjarnason var fjarverandi lokaafgreiðslu málsins. Nafn hans er ekki undir nál. meiri hl. Ég vildi geta þessa til að það ylli ekki neinum misskilningi.

Ég ætla að vona að sá blæbrigðamunur, sem ég kalla varðandi afstöðu hv. þm. Kjartans Jóhannssonar, verði ekki til þess að hér upphefjist háværar umr. sem að mínum dómi leiddu eingöngu til þess að málið yrði dregið á langinn og allir hlytu ómældan skaða af, — ekki aðeins álitshnekki fyrir okkur alþm., heldur og ekki síst skaða fyrir það fyrirtæki sem við þó ætlum að sameinast um að hafi á höndum um næstu framtíð flugsamgöngur okkar Íslendinga.