28.04.1981
Efri deild: 85. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3776 í B-deild Alþingistíðinda. (3877)

11. mál, fiskvinnsluskóli

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég vil aðeins láta það koma fram þegar, að ég mun greiða atkvæði gegn þeirri brtt. sem sjútvn. hefur nú lagt hér fram. Ég tel hér vera um mjög hæpna meðferð á þessu máli að ræða. Hér er um að ræða skólanefnd eins skóla, en ekki spurningu um það, hvaða hagsmunaaðilar eigi að koma inn varðandi þessi mál í heild. Sé ég því ekki ástæðu til að bæta fleirum þar inn í. Ég fagna hins vegar mjög þeirri brtt. sem gerð var milli 1. og 2. umr., þegar sjútvn. breytti frv. um Fiskvinnsluskólann á þá leið að Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins fengi þarna fulltrúa. Það er sjálfsagður aðili til þess að koma inn í skólanefnd slíks skóla. Ég skil hins vegar vel að það hefur verið töluvert vandamál fyrir sjútvn. þegar menn fara að sækjast eftir því hver á fætur öðrum að komast í þessa skólanefnd og ýmiss konar metnaðaratriði komast þarna inn í. En ég tek undir það með frsm., að það hlýtur að fara svo að úr þessu verði eitt félag fyrr eða síðar, og þess vegna hefði verið fyllilega nóg að Fiskiðn hefði átt þarna sinn fulltrúa.

Ég efast ekki um að einhvern tíma hafi fiskmatsmenn hér á landi barist fyrir því að svona fiskvinnsluskóli kæmist á. Ég bendi hins vegar á það, að síðan Fiskvinnsluskólinn tók til starfa hafa það fyrst og fremst verið ýmsir aðilar innan skólans sem hafa barist fyrir vexti hans og viðgangi og að hann kæmi undir sig fótunum, ásamt svo Fiskiðn fyrrv. nemendum þessa skóla. En ég held að einmitt sá aðili, sem þarna er verið að setja inn í skólanefndina, fiskmatsmennirnir, þessir eldri, þeir hafi ekki sýnt skólanum þann velvilja og þann áhuga sem þeim hefði kannske borið og því sé síst ástæða til þess að verðlauna þá með því að hleypa þeim inn í þessa skólanefnd.