10.11.1980
Efri deild: 10. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í B-deild Alþingistíðinda. (388)

33. mál, málefni Flugleiða hf.

Frsm. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Það kom fram í ræðu hæstv. sjútvrh. áðan, að hann teldi að hann hefði sem hæstv. samgrh. ekki gefið neinar yfirlýsingar sem gætu talist vafasamar. Ég benti á tvennt í inngangsræðu minni sem renndi stoðum undir það, að ýmiss konar misskilningur hefði verið uppi og að ástæða væri til að ganga sem traustlegast frá málum. Því er ekki heldur að neita, að mikill óróleiki hefur verið í þessu máli í hugum hæstv. ráðh., því að það kom fram í viðtali við hann í Ríkisútvarpinu t.d., að honum virtist málið vera að taka nýja stefnu svo að segja daglega síðustu vikurnar, eins og hann orðaði það. Og hann sagði eitthvað á þá leið, að annaðhvort hafi stjórnendur félagsins ekki gert sér grein fyrir raunverulegri stöðu þess eða þeir hafi kosið að fela ýmsar staðreyndir. Ég held nefnilega að sá óróleiki, sem ríkti í þessu máli, og þær miklu yfirlýsingar, sem gefnar voru af ýmsum aðilum, m.a. hæstv. samgrh., hafi orðið til að skaða þetta mál og flækja.

Eins og ég gat um áðan verður ekki ráðið af gögnum, sem frá félaginu bárust allt frá því að nefndin hóf að starfa, og á grundvelli þeirra áætlana, sem voru lagðar fram í byrjun sept., að verulegt ósamræmi væri í þeim tölulegu gögnum sem frá nefndinni fóru. Ég ætla ekki að bera neitt saman við bréf frá því í febrúarmánuði — þá var sjálfsagt allt annað uppi á teningnum — heldur leggja til grundvallar þau gögn, sem unnin voru á samræmdan hátt frá því að málið kom til umfjöllunar í nefndinni og þau gögn, sem til nefndarinnar bárust. Ég held að sú óró, sem fram kom í orðum hæstv. samgrh. á sínum tíma, hafi verið til marks um það, að menn hafi misskilið málið. Það var einmitt um þessar mundir sem greiðsluþörf í nóv. var áætluð 9–10 millj. dollara. En þegar menn bera það saman við önnur þau gögn sem höfðu verið lögð fram — hvort heldur var skýrslan frá því í sept., sem gerði ekki ráð fyrir neinu Ameríkuflugi, eða skýrslan sem barst seinna, þar sem gert var ráð fyrir Ameríkuflugi — og stöðu fyrirtækisins í þessum skýrslum, þá var þetta ekki í neinu ósamræmi við það, enda hafði verið tap í millitíðinni sem þurfti að brúa. Ég held að þessi óróleiki hafi líka birst í því, að einmitt um þessar mundir talaði samgrh. um að samanburður á rekstraráætlunum, sem hann hefði séð, gæfi til kynna að meira tap væri á s.l. mánuðum en gert hefði verið ráð fyrir í áætluninni. En þá var bara því miður ekki verið að bera saman við þær áætlanir sem voru lagðar til grundvallar frá því í septembermánuði o.s.frv., heldur við eldri áætlanir. Þarna var greinilega misskilningur á ferðinni sem olli fjaðrafoki og óróleika. Ég held að einmitt við þessar aðstæður og eins og þessi mál hafa þróast eigi Alþingi að ganga skýrt og skilmerkilega frá þessum málum og það eigi að sjá virðingu sína í því að setja í lög þau skilyrði sem það vill setja.

Hæstv. ráðh. sagði að honum fyndist ekki viðeigandi að það yrði sett í landslög að viðræður skuti hefjast. Það er nú t.d. í landslögum, í svonefndum ólafslögum, að viðræður skuli fara fram milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstj., svo að það eru til fordæmi fyrir því í landslögum að menn tali saman. En í annan stað er ekkert sem hindrar að þessi grein, eins og hún er orðuð, sé í landslögum. Hún er nákvæmlega eins orðuð eða því sem næst nákvæmlega eins orðuð í till. minni um breytingar á lagagreininni eins og hún er í framkvæmdalista meiri hl. nefndarinnar. Og það sem meira er, þegar verið er að tala um að það þurfi að fjalla um fyrirtækið og samþykktir félagsins og því um líkt og þess vegna sé vafasamt að setja þetta í lög, þá ættu menn að gera sér grein fyrir því, hvernig þetta atriði er orðað. Það fjallar um það, að fram fari viðræður á milli ríkisstj. og Flugleiða um nýjar reglur varðandi hlutafjáreign í fyrirtækinu. Það er ekki gefin nein niðurstaða sem brjóti í bága við lög, heldur einungis stefnumið í þessum viðræðum, svo að það er ekkert sem hindrar, úr því að menn vilja setja þetta skilyrði, að það sé sett fram og þá einmitt með þessum hætti.

En það var athyglisvert í ræðu ráðh., að hann sagði öðrum þræði að það væri misskilningur hjá mér, að þessi skilyrði yrðu teygð og toguð, úr þeim yrði dregið eða við þau bætt, en hinum þræðinum sagði hann að margvísleg framkvæmdaatriði í sambandi við þessi skilyrði þyrfti að athuga og þess vegna mætti ekki setja þau í lagagreinina. Hvað þýðir þetta annað en það,að það eigi að teygja og toga skilyrðin? Það getur ekki þýtt neitt annað.

En hann sagði meira. Hann sagði að það kæmi e.t.v. til álita — þó að hann vonaði ekki — að setja fleiri skilyrði. Hann vonaði að það þyrfti ekki að setja fleiri skilyrði, en hann gaf fyllilega í skyn að það kæmi til álita. Og ef þetta er ekki að bæta við skilyrðum, þá veit ég ekki hvað það er, þannig að málflutningur hæstv. ráðh. í þessu máli stangast svo gersamlega á sem hugsast getur. Og það sem meira er, það er einmitt þetta sem ég er að vara hv. deild við, nefnilega að verið sé að afgreiða mál án þess að afgreiða það, það sé verið að gefa í skyn að svona muni þetta verða, en síðan, þegar til kemur, verði annaðhvort bætt við eða dregið úr af því að framkvæmdin verði að vera þannig. Nei, það er alveg sérstaklega við þær aðstæður sem ríkja í samskiptum ríkisvaldsins og Flugleiða sem þessi atriði eiga að vera skýr, og það er engum greiði gerður með því að láta teygja þetta og toga síðar. Ráðh. lendir bara í klemmu. Flugleiðir búa við enn þá meiri óvissu en ella. Bæði fyrir ráðh. og Flugleiðir er langtum betra að málið sé frágengið. Þar að auki kemur svo til álita heiður deildarinnar, að vera ekki að afsala sér völdum að óþörfu. Málin eiga að vera skýr.

Hæstv. ráðh. talaði líka um að fyrirtækið þyrfti starfsfrið til þess að þetta gæti gengið. Það væri einn liðurinn í því að tryggja starfsfrið, að hvorki væri hægt að teygja né toga þessi skilyrði og þau væru kvitt og klár. Og hæstv. ráðh. viðurkenndi að sambandið væri ekki nógu gott. Þá þarf ekki að vera með neitt samband um það, hver skilyrðin eru, ef þau eru í lögum. Einmitt þess vegna á að setja þessi skilyrði í lög.

Ég vil þakka Eyjólfi Konráð Jónssyni fyrir það, að hann var í rauninni efnislega sammála mér um að það væri langtum betra að hafa þetta í lögum. (EKJ: Ekki sagði ég það nú.) Ja, ég held að hv. þm. hafi komist eins nálægt því að segja þetta eins og hann gat án þess að segja það með nákvæmlega þessum orðum. Hann talaði um að ef það hefði verið betri tími, þá hefði hann gjarnan viljað fara þessa leið eða hugleiða það a.m.k. að fara þessa leið.

En hvað um það, það hefur legið fyrir sem afstaða okkar Alþfl.-manna alveg frá því við 1. umr. málsins og í umr. um skýrslu Flugleiða, að við teldum að það ætti að ganga tryggilegar frá 5. gr. og breyta henni þannig, að það kæmi fram í greininni sjálfri hvaða skilyrði væri verið að setja. Ég bendi t.d. á ræðu hv. þm. Eiðs Guðnasonar hér í deild við 1. umr. um þetta mál. Ég talaði líka fyrir þessu og benti á þetta nokkrum sinnum á nefndarfundum. En það er rétt, að það var ekki fyrr en við lokaafgreiðslu málsins sem ég hafði komið þessu í það form sem mér fannst hæfa.

Það kom fram í ræðu hæstv, samgrh. áðan, að sérfræðiaðstoðar hefði notið við mat á eignum félagsins. Tiltók hann sérstaklega erlenda sérfræðinga varðandi mat á flugvélunum. Þetta er alveg rétt. Hann talaði líka um að það hefði verið sérhæfður endurskoðandi, sem var að kanna fjárhagsstöðu félagsins. En herra forseti og ágæta þingdeild, ég var ekki að tala um þetta. Ég var ekki að tala um eignamat. Ég var ekki að tala um fjárhagsstöðu félagsins. Ég var að tala um rekstrarlega stöðu félagsins, markaðsstöðu og hvernig ætti að stýra því með tilliti til framtíðarinnar á þessum tveimur sviðum. Ég skal ekki draga í efa — enda hef ég ekki gert það — þær peningalegu niðurstöður um fjárhagsstöðu fyrirtækisins sem fram hafa komið, eða halda því fram, að við mat á eignum félagsins sé nokkuð að athuga. Það var hin rekstrarlega hlið, það var hin markaðslega staða, sem ég lagði áherslu á að æskilegt væri að fá óháðan aðila til að fjalla um. Ég get í því sambandi t.d. vitnað til þess, að nú er uppi deila um hver hafi beðið hvern, eins og kunnugt er, og mér skilst helst að hvorki ráðh. né Flugleiðir geti kveðið upp úr með það, hvort þeir vilji eða vilji ekki. Það er í raun og sannleika staðan í málinu. Og þá segi ég: Ef þessi óháði aðili, sem hefði ráðgjöf á hendi fyrir ríkisstj. og væri tengiliður milli hennar og félagsins, liti á þetta mál, þá gæti hann kannske komið með uppástungu sem báðir gætu svo sætt sig við. Þarna virðist sem sagt vanta einn lið í þríliðuna, svo að segja. Og ég held að gott væri ef hann fyndist.

Hæstv. ráðh. minntist á að stefna hefði verið mörkuð 1975. Mér brá í brún. Hafði ekki eitthvað gerst síðan 1975? Það kom reyndar fram í máli ráðh., að hann teldi að svo væri. Það hefur gífurlega mikið gerst síðan 1975. Mér dettur ekki í hug að það takist að marka stefnu á einni nóttu. Ég tel að það sé mikil vinna og þess vegna gerði ég þetta sérstaklega að umtalsefni. En mér er stórlega til efs, að það sé nóg í þessum efnum að skipa nefnd. Ég held að það, sem skiptir meginmáli til þess að takast á víð þennan vanda og marka stefnuna skýrt, sé að eiga kost á sérfræðilegri ráðgjöf og að finna aðila sem allir aðilar geta treyst, hvort heldur er rn. eða fyrirtæki, að ég nú ekki tali um varðandi blessaðan almenning.