28.04.1981
Efri deild: 85. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3780 í B-deild Alþingistíðinda. (3880)

301. mál, umferðarlög

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að fagna því, að þetta frv. skuli fram komið. Ég hafði frá því greint á s. l. hausti, að ég hygðist flytja frv. um þetta sama efni sem gerði ráð fyrir skyldunotkun öryggisbelta. Ég komst hins vegar að því í samtali við dómsmrh., að hann hefði hug á að flytja slíkt frv. sem stjfrv. í framhaldi af skipun nefndar til endurskoðunar á umferðarlögunum. Fannst mér þá eðlilegt, m. a. til þess þá að tryggja framgang málsins, að það yrði frekar flutt sem stjfrv. en sem þmfrv., því að nokkru meiri vissa ætti þá að vera fyrir því, að málið næði fram að ganga. Auðvitað er það meginatriðið að málið nái fram að ganga, ekki hver flytur það. Hins vegar þykir mér miður að frv. skuli ekki hafa komið fram fyrr, þar sem nú er skammur tími til þingloka, en ég vona þó — og mun gera mitt til þess í allshn. þessarar hv. deildar að málið fái gagnrýna og gaumgæfilega athugun — að samt muni vinnast tími til að afgreiða það fyrir þinglok.

Ég mun þá víkja nokkru nánar að þeim breytingum sem frv. gerir ráð fyrir.

Það er í fyrsta lagi að heimilt verði að aka reiðhjóli á gangstígum eða gangstéttum. Þetta er sjálfsögð breyting sem hefði átt að vera komin til framkvæmda fyrir löngu. Síðastliðin 3–4 ár hafa hjólreiðar í þéttbýli aukist gífurlega og af eigin reynslu veit ég að það er hættuspil og háskaleikur á stundum að fara hér á reiðhjóli eftir helstu umferðargötum, eins og t. d. Miklubrautinni. Samtímis því sem maður horfir á hjólreiðamenn hjóla þar innan um bíla, sem aka á 70–80 km. hraða, eru mannlausar gangstéttir beggja vegna götunnar sem eru tilvaldar hjólreiðabrautir, en lögum samkvæmt hafa hjólreiðamenn ekki mátt nota þessar brautir. Þess vegna finnst mér þessi breyting sjálfsögð og eðlileg. Það má vitna hér í Morgunblaðið í dag. Þar er frétt frá lögreglunni og fyrirsögnin er þessi, með leyfi forseta: „Reiðhjólaslysum fjölgar ískyggilega. Því er aðgæslu þörf.“ Og þar segir enn fremur: „Notkun reiðhjóla hefur margfaldast nú seinni árin og er enn að aukast. Taka verður tillit til þess hér á landi, að hér eru engar sérstakar reiðhjólabrautir. Blönduð umferð bifreiða og reiðhjóla er hættuleg.“

Þetta, að leyfa mönnum að fara á reiðhjólum á gangstígum og gangstéttum þar sem það er ekki til hættu eða óþæginda fyrir aðra vegfarendur, er alveg sjálfsagt mál, og ég á ekki von á að slíkt geti mætt nokkurri minnstu andstöðu hér á hinu háa Alþingi.

Hitt, sem er kannske meginatriði þessa frv., er um notkun öryggisbelta í bifreiðum. Menn tala gjarnan um að um það séu skiptar skoðanir. Ég hygg samt að um það séu ekki eins skiptar skoðanir og sumir vilja vera láta. Það hafa komið samþykktir og yfirlýsingar frá ýmsum félagasamtökum um að lögleiða beri notkun öryggisbelta, síðast frá Ökukennarafélagi Íslands nú fyrir fáeinum dögum. Þá er á það að minnast, að landlæknisembættið gaf á s. l. ári út rit, Heilbrigðismál 10, Umferðarslys og öryggisbelti, fylgirit við Heilbrigðisskýrslur frá skrifstofu landlæknis. Þar er mjög ítarlega fjallað um notkun öryggisbelta í bifreiðum og sýnt fram á með gildum rökum hversu brýnt þetta mál er. Þar segir á bls. 15, með leyfi forseta:

„Umferðarmenning Íslendinga hefur nokkur sérkenni miðað við nágrannaþjóðir okkar. Engin einföld skýring er á þessu, en benda má á eftirfarandi:

1. Öryggisbúnaður í bifreiðum er ekki nýttur sem skyldi og þar af leiðandi eru slys á ökumönnum og farþegum algeng.

2. Óaðgæsla: Slys meðal fótgangandi og þá sérstaklega barna og eldra fólks eru algeng. Sjálfsagt má kenna þetta óaðgæslu allra, en óneitanlega er hlutur bifreiðastjóra stærstur. Ökumönnum ber að sjá um að allur öryggisbúnaður sé í góðu lagi og taka tillit til fótgangandi.

3. Erfiðir vegir: Oft er talað um sérstöðu Íslands hvað þetta snertir og benda má á að mörg alvarleg slys hafa orðið á fjallvegum.

4. Skammdegismyrkur og slæmt skyggni hindrar eðlilegt útsýni og eykur þannig slysahættu.“

Landlæknir leggur til að eftirfarandi aðgerðir verði gerðar til að draga úr umferðarslysum:

„1. Umferðarfræðsla verði stóraukin í grunnskólum landsins.

2. Ökukennsla verði bætt mjög frá því sem nú er og námskröfur til ökuprófs verði stórauknar.

3. Notkun öryggisbelta fyrir bifreiðastjóra og farþega í framsæti verði lögleidd hér á landi.

4. Lagt verði bann við því, að börn yngri en 12 ára sitji í framsætum bifreiða við akstur.

5. Hnakkapúðar verði lögleiddir í bifreiðum.

6. Lýsing og merking akbrauta verði bætt.

7. Áróður fyrir slysavörnum verði aukinn.

8. Starfsemi Umferðarráðs verði efld.“

Ég vil hvetja þingmenn til að kynna sér þetta rit skrifstofu landlæknis. Í því eru afar fróðlegar upplýsingar og í rauninni er þar allur sá rökstuðningur sem telja má að skipti höfuðmáli í sambandi við notkun öryggisbelta.

Eins og ég sagði áðan hafa ýmsir aðilar lagst gegn notkun öryggisbelta og telja að þau kunni á stundum að skapa meiri hættu en öryggi. Í erlendum skýrslum, m. a. frá ráðstefnu sem haldin var í Tokyo undir lok ársins 1979, er vikið að þessu atriði. Þar segir að yfirleitt reynist það svo um þau tilvik, þar sem talað er um að belti hafi valdið slysum, að við nánari rannsókn hafi þau tilvik ríka tilhneigingu til að gufa upp, hafa ekki við rök að styðjast eða vera beinlínis röng, þannig að þau tilvik, þar sem hægt er að færa sönnur á að belti hafi beinlínis verið orsök þess að farþegi eða ökumaður beið bana eða hlaut aukin meiðsl, séu afar fá og reynist næstum ómögulegt að henda reiður á þeim þegar til á að taka og málin eru rannsökuð ofan í kjölinn.

S. l. haust var haldinn hér fundur — 24. sept., ef ég man rétt — á vegum Læknafélags Íslands, Alfanefndarinnar og ýmissa fleiri aðila um umferðaröryggismál. Þar kom fram að 28 lönd hafa nú lögleitt skyldunotkun öryggisbelta. Þeirra á meðal eru öll Norðurlöndin og velflest Vestur-Evrópulönd.

Það er miður að þetta mál skuli ekki hafa náð fram að ganga hér enn þá, en vonandi nær það fram að ganga í þetta skipti. Það hefur áður verið flutt hér án þess að ná fram að ganga.

Á þessum fundi, sem haldinn var í Norræna húsinu, flutti sænskur sérfræðingur erindi um þessi mál. Hann komst að þeirri niðurstöðu að hið svonefnda þriggja punkta bílbelti, sem nú er algengast í bifreiðum, væri einhver besta líftrygging sem ökumenn og farþegar eigi völ á. Níu af hverjum tíu mönnum sem kastast út úr bíl við slys eða árekstur hljóta alvarleg meiðsl eða bíða bana. En sá, sem er kyrr inni í bílnum, er yfirleitt ævinlega betur kominn en sá sem kastast út. Það kom fram í máli þessa fyrirlesara, Rune Andreasson, að síðan lögin um skyldunotkun öryggisbelta voru samþykkt í Svíþjóð hefur ekki eitt einasta augnslys af völdum bifreiðaáreksturs komið til kasta læknanna á Karólínska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi, en áður var slíkt næsta algengt þegar fólk lenti með höfuðið í framrúðunni. Heimsóknum þeirra, sem slasast hafa í bifreiðaslysum, á slysavarðstofu fækkaði um 19% og sjúkrahúsvistun vegna bílslysa minnkaði um 29% í Svíþjóð eftir að lögin um skyldunotkun öryggisbelta höfðu verið í gildi í eitt ár. Sparnaður sænska ríkisins af þessum sökum og þjóðfélagsins í heild nam milljörðum sænskra kr. á þessu eina ári.

Þessi grein, eins og hún er í frv., er að verulegu leyti hliðstæð þeim ákvæðum sem eru í löggjöf nágrannalandanna. En ég verð að segja það, að ég er ekki fullkomlega sáttur við það orðalag, sem hér er notað, og skal ég nú gera nánari grein fyrir því. Hér segir, með leyfi forseta:

„Eigi er skylt að nota öryggisbelti við akstur aftur á bak. Sama gildir um akstur á bifreiðastæðum, við bensínstöðvar, viðgerðarverkstæði eða við svipaðar aðstæður.“ — Þetta eru nákvæmlega sömu ákvæði og eru í norrænni löggjöf um þessi mál. Síðan segir: „Ákvæði 1, mgr. tekur ekki til þeirra sem eru yngri en 15 ára eða lægri en 150 sm. Dómsmrh. getur sett reglur er undanþiggi aðra en að framan greinir notkun öryggisbelta.“ — Slíkt undanþáguákvæði mun vera í löggjöf annarra þjóða yfirleitt.

Það, sem mér finnst hér orka tvímælis, er að samkv. þessu, eins og þetta er orðað nú, geta 14 ára unglingar setið óbundnir í framsæti án þess að nota öryggisbelti. Það er allt í lagi lögum samkv. Hæstv. dómsmrh. vék að þessu áðan og ég held að það komi mjög sterklega til greina að hafa hér ákvæði um það, að þeir, sem eru yngri en 15 ára eða lægri en 150 sm, sitji í aftursæti bifreiðar, þeim sé bannað að sitja í framsæti nema því aðeins að þeir séu í belti. Rannsóknir hafa leitt í ljós, m. a. í Svíþjóð, að þau belti, sem nú eru í notkun, eru ekki hættuleg þó að fólk sé lægra en 150 sm eða yngra en 15 ára. Og þau virðast koma að mjög miklu gagni allt niður í 8 ára aldur og koma í veg fyrir meiðsl.

Hér finnst mér vera gloppa í frv. og mun leggja til að nefnd sú, sem þetta fær til athugunar, allshn. þessarar hv. deildar, athugi þetta atriði sérstaklega. Og satt best að segja finnst mér einna helst koma til greina að binda það í lögum, að börn skuli ekki sitja óbundin í framsæti bifreiðar. Það er vægast sagt hálfóhugnanleg sjón, sem hér sést oft á götum, að fólk situr í framsætum bifreiða óbundið haldandi á kornabörnum og kannske gefandi þeim að drekka úr glerpela. Hvað skeður þegar bifreið með slíkan farm lendir í árekstri einhverra hluta vegna? Það, að barnið, sem haldið er á, verður eins konar stuðpúði milli farþegans og mælaborðs eða rúðu bifreiðarinnar. Þetta er satt best að segja eitt af því óhugnanlegra sem sést í umferðinni og sést allt of oft, því miður. Þess vegna finnst mér að þetta ætti að taka til mjög gaumgæfilegrar athugunar þegar nefnd fjallar um málið.

Eins og ég gat um áðan var haldin í Tokyo alþjóðleg ráðstefna um notkun öryggisbelta dagana 13. og 14. nóv. 1979. Þar fluttu fjölmargir fræðimenn fyrirlestra, þeir sem mest hafa rannsakað þessi mál og um þau fjallað. Þar komu fram margháttaðar og svo athyglisverðar upplýsingar að ég held að þær megi ekki liggja í láginni. Því langar mig til að geta hér um fáein atriði úr þeim fyrirlestrum sem þar voru fluttir. Þau rök, sem þar koma fram, eru svo yfirgnæfandi sterk, að eftir að hafa kynnt sér þau sé ég ekki hvernig nokkur maður getur velkst í vafa um að það beri að lögbinda notkun öryggisbelta, a. m. k. í framsætum bifreiða. Staðreyndin er nefnilega sú, eins og hæstv. dómsmrh. gat um áðan, að þó svo að öryggisbelti séu í bifreiðum verður notkun þeirra aldrei nema 10–15% — 10% reyndist hún vera hér í febr. — nema þetta sé bundið í lögum. Ef gerðar eru sérstakar auglýsingaherferðir samtímis í blöðum, útvarpi og sjónvarpi er hægt að koma notkuninni upp í svona 30%. Í hæsta lagi tímabundið, en síðan sækir strax í sama farið aftur.

Til eru þeir sem halda því fram, að það sé skerðing á frelsi einstaklingsins að gera honum að skyldu að vera bundinn í öryggisbelti þegar hann fer í bifreið. Ég er aldeilis andvígur þeirri skoðun. Umferðarlögin og umferðarreglurnar eru viss takmörkun á einstaklingsfrelsi, má e. t. v. segja, eins og ýmsar aðrar nauðsynlegar reglur í nútímaþjóðfélagi. En þegar til er jafneinföld og áhrifarík aðferð til þess að draga úr slysum, fækka banaslysum og draga úr meiðslum eins og notkun öryggisbeltanna er, þá á einstaklingum ekki að vera í sjálfsvald sett hvort þeir valda sjálfum sér skaða, varanlegu tjóni, örorku eða dauða og hvort þeir valda þjóðfélaginu því að inna verður af höndum úr sameiginlegum sjóðum fjármagn þeim til lækninga, endurhæfingar og þjálfunar.

Það kom fram á þeirri ráðstefnu sem ég gat um hér áðan, í fyrirlestri forseta bandaríska öryggisbeltaráðsins, American Seat Belt Council að í Bandaríkjunum eru umferðarslys megindánarorsök fólks undir 24 ára aldri. Talið er að umferðarslys kosti bandaríska skattgreiðendur 24.7 milljarða dollara á ári. Þar í landi bíða 50 þús. manns árlega bana í umferðarslysum. Ef 80% ökumanna í Bandaríkjunum notuðu öryggisbelti mundi það bjarga 13 þús. mannslífum á ári og koma í veg fyrir að 500 þús. manns slösuðust. Þetta er talið mundu spara þjóðfélaginu um það bil 5 milljarða dollara. Margar aðferðir hafa verið reyndar til að auka notkun öryggisbelta og fá meginhluta ökumanna til að nota þau. Skyldunotkun öryggisbelta hefur þar reynst eina varanlega ráðið.

Það var Ástralía sem ruddi brautina að því er varðar skyldunotkun öryggisbelta. Viktoríuríki samþykkti fyrstu lögin sem gerðu notkun öryggisbelta að skyldu árið 1970. Önnur ríki Ástralíu fylgdu fljótlega í kjölfarið. Þetta hefur ekki aðeins reynst þar vel, heldur hefur þetta einnig reynst vinsælt meðal almennings þar.

Talið er að a. m. k. fernt verði að vera fyrir hendi til þess að lög um skyldunotkun öryggisbelta nái tilgangi sínum.

Í fyrsta lagi verður að kynna almenningi rækilega hvernig beltin eru notuð og hvernig þau nýtast best.

Í öðru lagi þurfa í lögunum að vera sektarákvæði. Sektirnar eiga hins vegar ekki að vera mjög háar.

Í Vestur-Þýskalandi og Noregi hafa ekki verið slík sektarákvæði, og þrátt fyrir það að notkun öryggisbelta í þessum löndum hafi aukist verulega hefur hún ekki orðið jafnalgeng og annars staðar.

Í þriðja lagi er auðvitað brýnt að þessi lög verði ekki dauður bókstafur, heldur verði þeim framfylgt. Fyrstu 3–6 mánuðina er eðlilegt, eins og hér er gert ráð fyrir, að beita þeirri aðferð að þeir, sem ekki nota beltin þann tíma, fái aðeins skriflegar aðvaranir, en ekki sektir strax.

Í fjórða lagi þarf stöðugt að minna fólk á lögin og hvað öryggisbeltanotkun hefur í för með sér. Eins og ég gat um áðan hefur verið hægt með auglýsingaherferðum og áróðri að koma notkun öryggisbelta upp í 30%, en talið er nær útilokað að slíkar auglýsingaherferðir geti haft það í för með sér, að notkun öryggisbelta verði hjá 75–80% farþega og ökumanna, eins og reynslan hefur orðið þar sem þetta hefur verið leitt í lög.

Nú eru til ýmsar gerðir af öryggisbeltum og þau eru misjafnlega hentug. Því hentugri sem beltin eru, þeim mun fleiri nota þau auðvitað. Nú eru komin belti sem menn nánast setjast inn í. Beltið kemur yfir sætið og menn setjast í rauninni inn í það og festa það síðan. Gerð var athugun í Bandaríkjunum á notkun á þessari gerð öryggisbelta. Þau eru nánast þannig, að menn komast ekki hjá því að nota þau þegar þeir eru sestir í sætin. Í þessari athugun kom fram að um það bil 42 þús. bílum af gerðinni Volkswagen Rabbit með svona beltum fyrir ökumann og farþega hafði verið ekið um einn milljarð mílna á bandarískum vegum. Í þessum bílum reyndist beltanotkunin vera 78% eða 4–5 sinnum meiri en að meðaltali í Bandaríkjunum og banaslysatíðni í þessum bifreiðum var 0.78 banaslys á hverjar 100 millj. eknar mílur, en í Volkswagenbílum með annars konar beltum var banaslysatíðnin 2.32 slys á hverjar 100 millj. mílur. Frá og með 1982 og 1984 munu allir bílar í Bandaríkjunum verða búnir slíkum búnaði, annaðhvort sjálfvirkum öryggisbeltum af þessu tagi eða loftpúðum.

Ég vék að því áðan, að það væri gloppa í þessu frv. að því er varðar börn. Í fyrirlestri á þessari ráðstefnu, sem Nils Bohlin yfirverkfræðingur umferðar- og öryggismála hjá Volvo-verksmiðjunum flutti, spurði hann m. a.: Eru öryggisbelti, ætluð fullorðnum, hættuleg fyrir börn? Það eru þau ekki, heldur þvert á móti. Rannsökuð voru 822 slys þar sem komu við sögu börn yngri en 15 ára. Börnin, sem voru í beltum, voru 6 ára og eldri. Þessi rannsókn leiddi eftirfarandi í ljós:

1. Börnin, sem voru í beltum, meiddust sjaldnar og minna en fullorðið fólk sem var í beltum.

2. Aðeins einn unglingur í þessum 822 slysum hlaut meira en minni háttar meiðsl. En börn, sem voru ekki í beltum, hlutu meiðsl og sum biðu bana.

Niðurstöðurnar, segir þessi sænski verkfræðingur, benda til þess, að lækka mætti aldurstakmarkið í sænsku lögunum niður í um það bil 8 ára aldur. 80% af börnum í Volvo-bílum ferðuðust óbundin, aðeins 12% voru í beltum foreldra sinna.

Að því er varðar sérstaklega smávaxið fólk segir enn fremur um hættuna á því, að beltið lendi á hálsi þess ef til slyss kemur, að rannsóknir hafi leitt í ljós að þetta er ekki sá hættuvaldur sem í veðri hefur verið látið vaka. Margir hafa fjölyrt um meiðsli sem þeir telja að megi rekja beint til notkunar öryggisbelta. Niðurstaða könnunar Volvo-verksmiðjanna á þessu varð sú, að algengast er að belti geti valdið rifbeinsbroti, en meiðsl í kviðarholi séu tiltölulega sjaldgæf.

Markmiðið með þriggja punkta beltinu, þegar það kom á markað fyrir meira en 20 árum, var að sá, sem notaði það, ætti möguleika á því að verða fyrir minni meiðslum undir vissum kringumstæðum. Og vert er að hafa í huga í þessu sambandi að minni meiðsl kunna hér að skera úr milli lífs og dauða.

Því hefur verið haldið fram, að aðstæður hér á landi séu svo sérstakar að notkun öryggisbelta sé kannske varhugaverð hér af ýmsum ástæðum, okkar vegir séu erfiðir fjallvegir, hálir oft yfir vetrarmánuði og ýmsar aðstæður þess eðlis, að þetta geti haft hættu í för með sér. Í fyrirlestri á þessari sömu ráðstefnu, sem prófessor við verkfræðideild háskólans í Melbourne í Ástralíu flutti, kom eftirfarandi fram, sem er nokkuð sannfærandi dæmi um ágæti skyldunotkunar öryggisbelta. Það hefur verið unnið að því í 20 ár að byggja vatnsaflsvirkjanir í Snæfjöllum í Nýja Suður-Wales í Ástralíu. Á þessum 20 árum notaði yfirstjórn framkvæmdanna 700 ökutæki sem ekið var 6 millj. mílur á ári. Þessi akstur var á fjallvegum einkum, þar sem var snjór og hálka 4–5 vetrarmánuði. Umferðarslys voru tíð og meiðsl veruleg. En eftir að öll ökutæki voru búin beltum og notkun beltanna gerð að skyldu varð ekki eitt einasta banaslys eða alvarlegt slys á 6 ára tímabili, 1961–1967, þrátt fyrir nokkur mjög alvarleg umferðaróhöpp sem m. a. voru fólgin í því, að bílar fóru út af á miklum hraða og ultu niður fjallshlíðar eða lentu á trjám, og sömuleiðis urðu mjög harðir árekstrar, framanákeyrslur. Á þessum tíma varð sem sagt ekki eitt einasta banaslys.

Í Bretlandi hefur verið skylda að hafa öryggisbelti í framsætum bifreiða frá 1965. Árið 1977 fór fram athugun á því, hvernig og hvort beltin væru notuð. Þá kom í ljós að 44% ökumanna, sem óku úti á þjóðvegum, notuðu belti og 25% þeirra, sem óku í þéttbýlisumferð í borgum, notuðu belti. Þá fór fram á þessu sama ári nákvæm rannsókn á því, hvernig fólk, sem var í öryggisbeltum ef slys vildi til, slasaðist. Tilgangur þessarar rannsóknar var að leiða í ljós hvort meiðslin væru eingöngu vegna árekstursins eða að einhverju leyti sök beltanna. 1126 slys voru rannsökuð nákvæmlega og þar komu við sögu 1664 ökutæki og 2879 einstaklingar. Framanákeyrslur voru 72% af þessum tilvikum. Könnunin leiddi í ljós að öryggisbeltin drógu verulega úr hættu á meiðslum hvort sem ekið var framan á bifreið, aftan á eða á hlið bifreiðar. Af 1163 einstaklingum, sem voru ekki í öryggisbeltum, voru 758 ökumenn og 405 farþegar í framsætum. Í beltum voru 366 ökumenn og 144 farþegar í framsætum. Í þessari rannsókn var hægt, að því er varðaði 1300 manns, að skoða og ljósmynda ökutækin og í mörgum tilvikum að komast að því, hvað það var sem orsakaði meiðslin. Ljóst er að öryggisbeltin takmarka hreyfingar viðkomandi úr eðlilegri sætisstöðu þegar slys verður. Þess vegna koma beltin að mestu haldi til þess að koma í veg fyrir meiðsl þegar fjarlægðin er sem mest milli þess einstaklings, sem í hlut á, og innri hluta bifreiðarinnar.

68 einstaklingar af þeim, sem þessi könnun náði til, köstuðust út úr bílunum og 17 þeirra biðu bana. Það var helmingur dauðsfallanna sem rannsóknin tók til. Aðeins þrír af þessum fjölda voru í farartækjum sem eldur kom upp í. Eitt farartækið lenti á kafi í vatni. Og í þeim þremur tilvikum, þar sem eldur kom upp, beið einn maður bana. Hann var látinn áður en eldurinn braust út, og sá, sem var í bílnum sem lenti í vatni og sökk, dó síðar vegna lungnameinsemdar.

Þær upplýsingar, sem ég hef hér greint frá, tala vissulega sínu máli. Í Bretlandi hefur notkun öryggisbelta þó ekki enn verið lögleidd þrátt fyrir tilraunir í þá átt. Það hefur ekki náð fram að ganga þar.

Mig langar til að víkja aðeins aftur að upplýsingum sem fram komu í fyrirlestri formanns umferðarslysanefndar ástralska Læknafélagsins. Hann sagði: Börn eru í meiri hættu að hljóta meiðsl eða bíða bana með því að vera óbundin í bíl heldur en bundin. Þessi hætta er meiri en hættan á því að barn verði fyrir bíl við að fara yfir götu. Óbundin börn í framsæti eru í tvisvar sinnum meiri hættu að bíða bana eða slasast en þau sem eru í aftursætinu. Dánartala barna í umferðarslysum er afar há á fyrsta ári og einnig að því er varðar börn sem eru yngri en 6 ára. Aðeins 7% af börnum í Bandaríkjunum eru í stól eða belti þegar þau ferðast í bíl. Óbundið barn er nánast eins og raketta ef árekstur verður. Það kastast í eða í gegnum framrúðuna eða á einhvern annan hlut eða farþega í bílnum. Áhrif áreksturs við kyrrstæðan hlut á aðeins 40 km hraða eru hin sömu og að barn falli úr 6 metra hæð niður á steypta stétt. Árekstur við bíl, sem kemur á móti á eðlilegum hraða, er að sjálfsögðu langtum verri. Það er gersamlega útilokað fyrir fullorðið fólk að ætla sér að halda á barni í kjöltu sinni ef eitthvað verður að.

Á konunglega barnaspítalanum í Melbourne í Ástralíu var það svo árið 1975, að 70% barna, sem þangað komu vegna umferðarslysa, voru yngri en 8 ára. Börn undir 8 ára aldri voru yfirleitt meira slösuð en þau sem eldri voru. 50% þeirra höfðu verið í framsæti og aðeins 4% í beltum.

Herra forseti. Ég mun nú fara að stytta mál mitt, þetta er orðinn nokkuð langur lestur, en hér er sannarlega af nógu að taka. Í einum af þeim fyrirlestrum, sem voru fluttir á þessari ráðstefnu, segir á þessa leið:

„Rannsóknir, sem fram hafa farið í Evrópu, í Ástralíu, í Bandaríkjunum, flytja okkur ótvíræð og óhrekjanleg boð. Öryggisbelti hafa áhrif, þau bjarga mannslífum, þau draga mjög úr möguleikunum á að menn bíði bana við árekstur. Þúsundir og tugir þúsunda deyja að þarflausu á hverju einasta ári vegna þess að öryggisbelti eru ekki notuð. Áhrifaríkar aðgerðir til að útbreiða notkun öryggisbelta ættu að vera forgangsmál nr. eitt í umferðaröryggismálum í veröldinni.“

Herra forseti. Ég ætla þá ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég held að þau rök, sem ég hef hér fært fram, séu þung á metunum, og ég held að það sé tvímælalaust óumdeilt, að notkun öryggisbelta dregur úr meiðslum, kemur í veg fyrir dauðsföll. Þær fórnir, sem við færum á altari umferðarinnar, eru miklar á hverju einasta ári. Fólk bíður bana, hlýtur varanleg meiðsl og örkuml. Ef eitthvað er hægt að gera til að draga úr slíku, þá á auðvitað að gera það. Og þetta, að lögbinda notkun öryggisbelta fyrir ökumann og farþega í framsæti, er það einfaldasta, ódýrasta og áhrifaríkasta sem við getum gert til þess að draga úr slysum í umferðinni.