28.04.1981
Efri deild: 85. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3789 í B-deild Alþingistíðinda. (3883)

301. mál, umferðarlög

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð vegna þeirra ummæla sem hv. 4. landsk. þm. viðhafði áðan, þar sem hún vitnaði til tilvika þar sem öryggisbelti hefðu reynst e. t. v. hættuleg í notkun og sú staðreynd, að menn voru ekki í öryggisbeltum, hefði e. t. v. bjargað lífi þeirra. Eins og ég gat um áðan kom það fram á þessari ráðstefnu í Tokyo, að þegar slík tilvik hafa verið rannsökuð nánar hefur yfirleitt komið í ljós að þau hafa ekki átt við rök að styðjast. Og í fyrirlestri sínum á þessari ráðstefnu í Tokyo sagði formaður umferðarslysanefndar ástralska læknafélagsins, Gordon Trinca, orðrétt:

„Afar fátt bendir til þess, að öryggisbelti, séu þau rétt notuð, valdi alvarlegum meiðslum. Öryggisbelti hafa ekki í för með sér neina sérstaka áhættu fyrir þá sem nota þau. Sjaldgæft er að belti valdi meiðslum og þegar það gerist þá eru það minni háttar meiðsl, einkum skrámur og mar.

American Association for Automotive Medicin hefur mælt með því, að skilyrðislaus undanþága af læknisfræðilegum ástæðum frá því að nota öryggisbelti verði ekki veitt. Og þessi samtök nota svo stór orð að þau segja í sinni samþykkt að hver sá læknir, sem mælir með því, að öryggisbelti séu ekki notuð, baki sér ábyrgð með því að ráðleggja sjúklingi sínum á þann veg. Öryggisbelti séu t. d. besta vörnin sem verðandi móðir og ófætt barn geti notið í umferðinni.“

Síðan sagði hann orðrétt:

„Niðurstaðan af öllu þessu samanlögðu er að láta nú til skarar skríða og bíða ekki lengur, setja löggjöf um verndaraðgerðir sem þegar hafa sannað gildi sitt, jafnvel þótt þær hafi í för með sér visst umstang fyrir þann sem ekur í bifreið. Og fyrir alla muni látið þetta líka ná til barnanna.“

Og að lokum þetta:

Á 6. alþjóðlegu ráðstefnu alþjóðasamtaka um læknisfræðileg vandamál af völdum slysa og umferðar, sem haldin var í Melbourne í Ástralíu 1977, var samþykkt ályktun sem á eins vel við í dag og þá. Hún er stutt og er á þessa leið:

„Það er skoðun ráðstefnunnar að ríkisstjórnir og önnur rétt yfirvöld, sem ekki hafa sett löggjöf um skyldunotkun öryggisbelta, skapi að óþörfu hættu fyrir þegna sína.“

En auðvitað er það rétt, að þessi mál þarf að athuga gaumgæfilega. Ég hygg þó að niðurstaða manna hljóti að verða sú, að kostir þess að nota öryggisbelti séu svo yfirgnæfandi að um það þurfi raunar ekki að deila.