28.04.1981
Neðri deild: 83. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3790 í B-deild Alþingistíðinda. (3886)

306. mál, verðlagsaðhald

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Um síðustu áramót lagði ríkisstj. fram efnahagsáætlun sem miðaði að því að draga svo úr hraða verðbólgu að hún yrði ekki meiri en 40% frá upphafi til loka þessa árs, jafnframt yrði kaupmáttur launafólks tryggður. Það er óhætt að fullyrða að vel hefur miðað að þessu marki. Stöðugt gengi íslensku krónunnar í fulla fjóra mánuði hefur átt sinn drjúga þátt í þessari þróun.

Þetta lagafrv. er skref á þeirri braut sem mörkuð var með efnahagsáætlun ríkisstj. um áramót, Þrjú eru höfuðatriði þessa frv.: Í fyrsta lagi áframhaldandi aðhald í verðlagsmálum, en þó sveigjanlegra en verið hefur að undanförnu, í öðru lagi auknir möguleikar til aðhalds í peningamálum og í þriðja lagi niðurskurður framkvæmda- og rekstrarútgjalda ríkisins til þess að skapa svigrúm til að lækka framfærslukostnað.

Í 1. gr. frv. kemur fram sú meginregla, að miða skuli verðákvarðanir við ársfjórðungsleg meginmarkmið í verðlagsmálum sem ríkisstj. setur á hverjum tíma, en í efnahagsáætlun ríkisstj. frá því um áramót voru einmitt ráðgerð slík tímasett mörk. Framkvæmd verðlagsmála er einfölduð með frv. að því leyti, að ekki þarf staðfestingu ríkisstj. allrar, eins og verið hefur, á þeim verðhækkunum sem eru innan þessara marka. Þar nægir samþykki viðkomandi verðlagsyfirvalda og staðfesting viðskrh. Ef verðlagsyfirvöld samþykkja hækkun umfram þessi tímasettu mörk þarf til að koma staðfesting ríkisstj. í heild. Í óhjákvæmilegum tilvikum yrði slík staðfesting veitt og þá miðað við heildarmarkmiðin eða að heildarverðhækkun verði ekki umfram þessi tímasettu mörk.

2. gr. frv. miðar að því að styrkja verðlagseftirlitið og veita því rýmri heimildir til þess að framfylgja ákvörðunum sínum en nú er. Þorri seljenda vöru og þjónustu hlítir verðlagsákvæðum, en því miður er ekki svo um alla. Í þeim tilvikum tekur það verðlagsyfirvöld mánuði og jafnvel misseri að fylgja málum eftir, og á meðan selur aðili vöru sína og þjónustu með ólöglegu verði sem hækkar framfærslukostnað og kyndir undir verðbólgu. Það er réttlætismál og mikilvægt fyrir hjöðnun verðbólgu að hér verði úr bætt. Með því að heimila Verðlagsstofnun að leita til fógeta um lögbann við ólöglegu verði á að tryggja markvissara og réttlátara verðlagseftirlit.

Í 3. gr. frv. er ákveðin lækkun vörugjalds á gosdrykkjum og öli úr 30% í 17%. Þessi lækkun vörugjalds mun valda ríkissjóði nokkrum tekjumissi, en ætti að bæta atvinnuástand í þessum greinum.

Í 4. gr. frv. er ríkisstj. veitt heimild til að lækka ríkisútgjöld um allt að 31 millj. kr. Hér er um nýja heimild að ræða sem er óháð heimildum fjárlaga. Að þessu sinni gengur ríkissjóður á undan og dregur úr sínum útgjöldum. Þetta fé verður notað til þess að lækka framfærslukostnað í landinu.

Þá er svo ákveðið í frv., að Seðlabanka sé heimilt með samþykki ríkisstj. að auka bindiskyldu innlána hjá innlánsstofnunum frá því hámarki sem nú er í lögum, en í gildandi lögum er hámarkið 28%. Þessi ákvörðun um bindiskyldu innlánsstofnana hefur verið í lögum alllengi og hefur verið hækkuð nokkuð undanfarin ár öðru hvoru. Nú er það svo að þróun peningamála er eitt hið mikilvægasta í efnahagsmálum og að þeim þarf mjög að gæta því að aðgerðir í öðrum þýðingarmiklum málaflokkum eru oft á tíðum unnar fyrir gýg ef ekki er þess gætt að peningamálin, innlán og útlán, verði í jafnvægi.

Á fyrri hluta s. l. árs varð útlánaþróun á þann veg, að útlán urðu meiri en vera átti miðað við ráðstöfunarfé bankanna, og jókst því yfirdráttur sumra viðskiptabanka mjög í Seðlabanka. Sem betur fer tókst að jafna þetta þegar leið á árið svo að jöfnuður var fenginn um áramót. Nú hefur þróun mála að undanförnu verið sú, að innlán í bönkum og sparisjóðum hafa aukist verulega hina síðustu mánuði, hlutfallslega talsvert meira en á sama tíma í fyrra. Þetta er vissulega góðs viti og stefnir í rétta átt. Það hefur verið mikilvægur þáttur í efnahagsstefnu ríkisstj. að leita allra ráða til þess að auka sparifjármyndun í landinu. Það er nú svo komið, að t. d. á þrem fyrstu mánuðum þessa árs jukust innlán um 19%, en á sama tíma í fyrra um 16%. Þær spár, sem liggja nú fyrir um þróun innlána á þessu ári í hlutfalli við þjóðarframleiðslu, eru mjög hagstæðar. Eins og kunnugt er hefur á undanförnum árum mjög dregið úr hluta innláns- og sparifjármyndunar miðað við þjóðarframleiðsluna. Spár þeirra stofnana, sem hér eiga hlut að máli, eru nú á þá lund, að innlán verði á þessu ári um 26% af þjóðarframleiðslu. Er það hæsta hlutfall sem hér hefur verið í sjö ár. Þegar svo skammt er liðið á ár eins og nú er tökum við að sjálfsögðu þessum spám stofnananna með fyrirvara. En þannig horfa þessi mál við nú.

Vitanlega kynni svo að fara, ef þessi hagstæða þróun innlána heldur áfram, að útlán úr bönkum og sparisjóðum yrðu það mikil vegna hins aukna ráðstöfunarfjár þessara stofnana að efnahagsmarkmiðum væri stefnt í hættu og ofþenslu og aukna verðbólgu gæti af leitt. Hér gæti því komið upp varðandi útlánaþróun annað vandamál en á fyrri hluta ársins í fyrra þegar meira var lánað en ráðstöfunarfé nam og peningarnir sóttir í Seðlabankann sem yfirdráttur. Til þess að halda því jafnvægi, sem er nauðsynlegt í þessum efnum, er þessi heimild veitt í þessu frv., að Seðlabanka sé með samþykki ríkisstj. leyft að hækka hlutfall innlánsbindingar ef þörf krefur. Þetta ákvæði frv. er fyrst og fremst hugsað sem stjórntæki til jafnvægis í efnahagsmálum eða peningamálum í þessu sambandi. En jafnframt er annað haft í huga. Það er kunnugt, að varðandi afurðalán atvinnuveganna hefur iðnaðurinn löngum talið sig afskiptan og ekki fá sitt hlutfall nándar nærri af afurðalánum miðað við aðra höfuðatvinnuvegi. Hugsunin er, um leið og þessi aukna bindiskylda er sett í lög eða heimiluð, að þá sé samfara þessu meginsjónarmiði sem ég nefndi, hitt haft í huga, að hluti af hugsanlegri aukinni innlánsbindingu gangi til þess að jafna hlut iðnaðarins í þessu efni.

Árshraði verðbólgunnar hefur verið á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs milli 30 og 40%. Endanlegar tölur liggja ekki fyrir fyrr en kauplagsnefnd hefur í næsta mánuði reiknað út og ákvarðað framfærsluvísitöluna. En á sama tíma í fyrra var þessi hraði miklu meiri eða í kringum 60%. Það er því ljóst, að verulegur árangur hefur náðst í baráttunni við verðbólgu í kjölfar efnahagsáætlunar ríkisstj. frá áramótum. Áfram verður unnið eftir þessari áætlun og hvergi hvikað frá markmiðum hennar. Þetta lagafrv. er einn áfangi á þeirri leið.

Ég legg til, herra forseti, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. Ég vil skýra frá því, að ég hef í gær farið fram á það við þingflokkana og hæstv. forseta Alþingis, að greitt verði fyrir meðferð þessa máls þannig að frv. gæti orðið að lögum eigi síðar en n. k. fimmtudag. Það er von mín, að hv. alþm. taki þessari málaleitun vel.